Kaffisopinn
23. ágúst 2005 | 3 aths.
Eftir að hafa skafið vandlega af disknum lagði hann kökugaffalinn frá sér líkt og með eftirsjá. Hann virtist vera að velta því fyrir sér í fullri alvöru að taka diskinn upp og sleikja af honum leifarnar af sultublönduðum rjóma, en þess í stað leit hann djúpt í augun á henni.
"Það verð ég að segja Sigríður, að svona góðar rjómapönnukökur hef ég ekki bragðað í háa herrans tíð."
Sigríður fór samstundis hjá sér og leit undan.
"O, þú verður nú að afsaka hvað þetta er lítið og ómerkilegt hjá mér."
Hún hélt tandurhreinu viskastykki í höndunum og vatt það annars hugar eins og hún væri að snúa dýr úr hálsliðnum. Athygli hennar virtist helst beint að því að reyna að kveikja í uppþvottagrindinni með hugarorkunni einni saman.
"Og kaffið! Ég segi það satt að þetta held ég að sé besta kaffi sem ég hef nokkurn tíman fengið."
Hún leit forviða á hann þar sem hann sat við eldhúsborðið með kaffibollann milli handanna og saug að sér ilminn meðan hann horfði á hana sposkur á svip.
"Það er nú vélin sem býr það til. Ég set bara í hana duftið og vatnið..."
"Því á ég bágt með að trúa. Það þarf lag til að búa til svona guðdómlegt kaffi."
Henni flaug í hug að nú væri hann að gantast með hana, leit aftur undan, lagði frá sér viskastykkið og fór að hræra í uppþvottavatninu með hvítum bursta.
"Það skal ég segja þér Sigríður, að það er með kaffivélar eins og hljóðfæri að það er ekki sama hver leikur á þau. Það er guðsgjöf að ná fram því sem í hljóðfærinu býr og það er ekki á valdi allra."
Þegar hann þóttist viss um að hún myndi ekki líta upp úr vaskinum í bráð birtist vasapeli undan borðinu og með þrautþjálfuðum handtökum opnaði hann pelann og hellti góðum slurki í kaffibollann. Vasapelinn hvarf aftur jafn fimlega og hann birtist.
"Vissulega er listamaðurinn háður hljóðfærinu, en ekki nærri því eins og hljóðfærið er háð listamanninum. Ef enginn leikur á hana er dýrasta fiðlan jafn hljóðlaus og... uppþvottaburstinn sem þú heldur á."
Hún leit við og brosti til hans feimnislegu brosi unglingsstúlku.
"Þetta segirðu nú bara til að atast í mér."
Hann brosti á móti og tók stóran sopa af kaffinu.
Athugasemdir (3)
1.
Sævar reit 24. ágúst 2005:
Snilld! Ef þetta er ekki efni í smá- eða skáldsögu... jafnvel leikrit?
2.
Þórarinn.com reit 24. ágúst 2005:
Hver veit. Þetta hefur a.m.k. hér með verið lagt í hina opnu skúffu.
3.
Nína reit 29. ágúst 2005:
Já ... hvað gerist næst? Ég er spennt.......
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry