Helvítis tímamismunur
24. ágúst 2005 | 0 aths.
Í morgun þurfti ég að hringja í húsvörðinn í kollegíinu sem ég er að flytja inn í til þess að ákveða hvernig ég nálgast lyklana þegar ég mæti á staðinn. Viðtalstími hans er milli 8 og 9 á morgnana, sem á íslenskum tíma er 6-7(!). Ég stillti því vekjaraklukkuna á að vekja mig klukkan 6 og var fyrir vikið alltaf að vakna í nótt og tékka hvað klukkan væri.
Það er merkilegt hvað mér gengur illa að sofa almennilega ef ég veit af því að ég þarf nauðsynlega að vakna fyrr en venjulega. Í nótt vaknaði ég fyrst um tvöleytið og svo aftur um kl. 4. Í seinna skiptið var ég töluverðan tíma að sofna þannig að nú vantar mig aðeins upp á fullan svefn. Sem betur fer náði ég að sofna aðeins eftir símtalið og vaknaði til að taka einum strætó seinna en venjulega.
Kók og súkkulaði í morgunmat reddaði því sem reddað varð, þannig að ég fúnkeri þokkalega síðasta daginn í vinnunni.
Símtalið við húsvörðinn Ole gekk annars vel og hann tók vel í að Hjörtur skólabróðir minn (og verðandi nágranni) myndi nálgast lyklana fyrir mína hönd.
Annað símtal til Danmerkur átti sér stað í gærkvöldi þegar ég ræddi við kennarann sem hafði umsjón með fjögurra vikna verkefninu mínu í vor. Hann hafði stungið upp á því að ég ynni 16 vikna verkefni á komandi önn á svipuðum nótum, ég var hins vegar ekki með á hreinu nákvæmlega hvers eðlis það verkefni yrði og var jafnvel farinn að fá á tilfinninguna að þetta væri einhverskonar atvinnubótaverkefni - bara til að ég fengi eitthvað að gera.
Eftir samtalið í gær er ég hins vegar mun bjartsýnni. Þetta virðist vera alvöru verkefni og unnið á forsendum sem ættu að henta mér vel.
Það stefnir því allt í að ég helli mér í formsatriðin vegna svona verkefnavinnu þegar út kemur og segi mig í staðin úr einum af kúrsunum sem ég hef skráð mig í.
Annars er allt útlit fyrir klassískt tímahrak vegna utanfarar, líklega mun skóinn kreppa í fataþvottum - þannig að e.t.v. fer ég með eitthvað óhreint út. Blessaðir skipulagshæfileikarnir.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry