Heimilislaus í Køben
30. ágúst 2005 | 0 aths.
Það fór aldrei svo að dvöl mín þetta árið hæfist ekki með smá ævintýri. Niðurstaðan varð sú að fyrstu helgina mína í borginni var ég í raun heimilislaus og það var ekki fyrr en í gær sem ég komst inn á kollegíið. Gestrisni Hönnu Birnu og Jesper bjargaði mér reyndar, svo þetta varð notaleg helgi - þótt ég hefði gjarnan viljað nota hana til að flytja inn eins og til stóð.
Allt leit þetta hins vegar þokkalega út á föstudagsmorgninum, ég svaf bara merkilega vel og vaknaði allt að því hress nokkrum mínútum á undan vekjaranum klukkan 5 um nóttina. Rútan sem ég tók til Keflavíkur reyndist síðasta rútan í þeirri skorpu og ég var greinilega minna stressaður en flestir, þannig að ég var eini farþeginn suðureftir.
Þar beið eins og við var að búast biðröð dauðans sem hringaði sig framan við innritunarborðin, en ég kláraði bara að hlusta á hljóðbókina mína og tók öllu með stóískri ró. Flugið út var svo alveg laust við að vera í frásögur færandi.
Í Köben var sól og blíða, en fyrstu droparnir féllu á leigubílinn á leið á kollegíið þar sem ég hafði mælt mér mót við Hjört sem hafði sótt fyrir mig lyklana - enda var húsvörðurinn farinn heim þegar ég mætti á staðinn.
Hjá Hirti fékk ég tvo lykla, annar passaði ljóslega að útidyrunum, en ég lenti í bölvuðu brasi með að troða hinum í herbergisskrána.
Með því að trufla alsaklausan nágranna í þvottahúsleiðangri komst ég að því að ég væri með útidyralykil og lykil að sameiginlegu aðstöðunni - engan herbergislykil!
Eftir símhringingar var ljóst að ég væri í síðum kúk. Hjörtur hafði bara fengið þessa tvo lykla og kollegískrifstofan gat ekki hjálpað mér, enda höfðu þau ekki farsímanúmer hjá horfna húsverðinum.
Hjörtur og Dagný skutu yfir mig skjólshúsi (og í mig bjór) þar til ég náði á Hönnu Birnu og Jesper og tók taxa til þeirra.
Þar varði ég svo helginni í góðu yfirlæti þar sem við Sif lékum okkur töluvert saman. Reyndar var daman að taka tennur þannig að það vildi verða lítið um svefn. Aðfaranótt sunnudagsins skældi hún linnulaust í tvo tíma milli 1 og 3, svo að það var heldur framlágt heimilisfólk þann daginn.
Aðfaranótt mánudags svaf hún hins vegar í einum rykk og ég kvaddi heimilið til að taka leigara til móts við ný heimkynni.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry