Hin nýju heimkynni

Á mánudagsmorgninum komst ég loks inn á kollegíið með rétta lykla og alles. Fyrsta tilfinning fyrir herberginu var reyndar að það væri dimmt og hálf óspennandi, en eftir að hafa loftað út og byrjað að nota það aðeins líst mér vel á þetta. Það hljóta að teljast viss meðmæli að mér sýnist að fyrri íbúi hafi verið í herberginu í fjögur ár.

Eftir hádegið hringdi ég svo á sendibílastöð til að sækja dótið mitt. Það var að vísu hátt í tveggja tíma bið eftir bílnum, en ég dundaði mér við að taka upp úr töskum og raða í fataskápinn í fordyrinu.

Ég fékk hressan strák frá sendibílastöðinni og við slúðruðum um daginn og veginn auk þess að drusla rúminu upp á herbergi (það var of stórt fyrir lyftuna svo við þurftum að fara áður kortlagðar krókaleiðir upp baktröppurnar).

Þegar allir kassar voru komnir upp á herbergi (næst þegar ég flyt þá verður það á stað þar sem lyftan stoppar beint fyrir utan dyrnar - þvílíkur lúxus) varð ákveðinn skipulagsannmarki áþreifanlega ljós. Ég hafði sem sé skotist í verslunarleiðangur að kaupa það allra nauðsynlegasta en til að koma öllu heim tók ég þá ákvörðun að seinka bjórkaupum aðeins. Það reyndust mistök.

Ég harkaði samt af mér og skrúfaði rúmið saman bjórlaust.

Eftir fyrstu sturtuna þar sem ég reyndi að nota tvö handklæði í stað sturtuhengis (með takmörkuðum árangri) fór ég svo í leiðangur í stórmarkað sem ég hafði fundið í nágrenninu fyrir hálfgerða tilviljun. Þar var keypt lágmarkshúsbúnaður (tveir pottar, nokkur glös, skafa á baðið, sturtuhengi o.þ.h.) og auðvitað nokkrir bjórar.

Um kvöldið var svo matreidd fyrsta máltíðin á nýju heimili. Pasta og sósa (í nýju pottunum), skolað niður með slatta af bjór og snætt af plastdisk. Þetta var um leið fyrsta kvöldið þar sem ég ákveð að láta uppvaskið bíða til morguns...

Eftir át settist ég upp í rúm með bók sem félagi Óskar hafði krafist þess að fá að troða upp á mig, The Golden Compass, lítur vel út það sem af er.

Ákveðinn skortur á svefni og ölsköpuð slökun urðu til þess að ég fór snemma að sofa.

Ég finn hvergi loftnetssnúruna sem ég er nokkuð viss um að hafa pakkað niður, þannig að sjónvarpið er enn ótengt. Sömuleiðis lenti ég í einhverju smá brasi með að virkja nettenginguna - líklega bara spurning um að stilla eldvegginn, ég var bara of latur til þess í gær.

Þetta er því skrifað í skólanum þar sem allt virðist líkt og áður. Fullt af nýjum andlitum og eitt og eitt kunnuglegt á stangli. Fyrsti kúrs hjá mér er svo seinnipartinn á morgun og teygist fram á kvöld þannig að mér sýnist ljóst að ég verði að svíkja félaga TótiL um aðstoð við flutningana sem ég var búinn að lofa honum.

Af húsakynnum er annars að frétta að ég er í endaherbergi uppi á annarri hæð (ekki fyrir ofan fælleslokaleð eins og ég hafði kviðið). Sameiginlega eldhúsið fyrir hæðina er hinum megin við ganginn (sem er dæmigerður hótelgangur, þröngur og hálfdimmur) (enda húsið upphaflega byggt sem hótel).

Í anddyrinu mínu er ágætur fataskápur, lítil eldhúsinnrétting með tveimur hellum, vaski, litlum ísskáp, litlu borði og næstum engu skápaplássi. Ég veit ekki hversu mikið ég mun nýta mér sameiginlega eldhúsið, þannig að ég þarf að græja mér einhverskonar geymslulausn fyrir matvöru og borðbúnað.

Úr anddyrinu er líka gengið inn í ágætis baðherbergi, reyndar án baðskápa en snyrtivörueign mín er ekki meiri en svo að það nauðsynlegasta ætti að rúmast á vegghillunni sem er til staðar.

Herbergið sjálft myndi ég skjóta á að væri 2,5 sinnum 4,5 metrar með suðvestur glugga fyrir stafni. Yfir innganginum eru skápar uppi undir lofti þar sem ég sé fyrir mér að geyma vetrarföt og eldri skólagögn.

Myndir voru teknar af flutningum og verða birtar hér við tækifæri.

Nú er maður að brjóta heilann um hvernig öllu verður best fyrirkomið og hvað mig kemur til með að vanta af húsgögnum. Ég stefni á að reyna að redda sem flestu af því í einum leiðangri í IKEA, hugsanlega í fyrramálið. Einn möguleikinn er t.d. að setja upp litla fataskápinn sem ég er með inni í herberginu og nota hluta fataskápsins frammi undir eldhúsbúnað. Annar að setja upp litla hillueiningu undir borðinu í eldhúsinu fyrir potta og pönnur.

Þetta lítur annars allt ágætlega út og ég svaf prýðilega fyrstu nóttina. Eftir að hafa vaknað fyrst um klukkan sjö las ég aðeins og lagði mig svo aftur fram undir hádegið.

Dejligt!


< Fyrri færsla:
Heimilislaus í Køben
Næsta færsla: >
Skilgreining
 


Athugasemdir (4)

1.

Óskar Örn reit 30. ágúst 2005:

Mætti segja mér að það hafi þurft að lofta út úr herberginu ef fyrri íbúi hefur verið þar í fjögur ár! Slæm socialphobia þar á ferð heyrist mér.
Til lukku annars með nýjar vistarverur, bíð spenntur eftir niðurstöðu í geymslumálum eldhúsáhaldanna :-)

2.

Björg reit 01. september 2005:

Missti af þér hér á Fróni í sumar, þú verður að kíkja í heimsókn næst :). Til hamingju annars með nýju heimkynnin og vonandi líður þér bara vel þar. Mæli hiklaust með trilogíunni hans Philips Pullman, var svekkt þegar ég var búin með þriðju bókina og les þær ábyggilega aftur einn daginn :).

3.

Nína reit 01. september 2005:

Ertu nokkuð á mínum æskuslóðum í L-blokkinni í Öresunds kollegí?

4.

Þórarinn.com reit 03. september 2005:

Þetta verður fjölsvar:

Óskar - Góður! Fréttir af skipulagsmálum væntanlegar þegar eitthvað gerist þar...

Björg - Ég hagaði mér eins og íslenskur námsmaður í sumarfríi og vann allt sumarið, það gafst því ekki færi á að kíkja í Skúlatúnið (enda er ég ekki viss um að ég hefði vitað hvert ég ætti að fara...)

Nína - Nei, ég hef fært mig aðeins sunnar á bóginn og er á kollegíi sem heitir Scandis. Er samt í göngu færi við Eyrnasundið og L-blokkina.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry