Kenningin um smáþorpið staðfest
04. september 2005 | 2 aths.
Ég hef áður haldið því fram að Kaupmannahöfn sé íslenskur smábær og í dag fékk ég ákveðna staðfestingu á því.
Eftir hádegið sló ég á þráðinn til Aðalsteins til að hlera hvað hann hefði fyrir stafni, með það í huga að hittast kannski á kaffihúsi á Vesterbro þar sem hann býr núna. Hann var í göngu, en við ákváðum að ég myndi hringja í hann þegar ég væri kominn á svæðið til að athuga hvort hann væri kominn heim.
Klukkutíma síðar lagði ég af stað upp á meginlandið og fór upp á Vesterport stöðina. Þaðan rölti ég svo í hundaskít og hægðum mínum vestur eftir Gammel Kongevej.
Rétt vestan við Planetariumið staldraði ég við fyrir framan búðarglugga og ákvað að hringja í Steina. Þegar ég leit upp var kunnuglegt par fyrir framan mig; Aðalsteinn og Gunnur!
Ég stóðst ekki mátið, rölti á eftir þeim í rólegheitum og hringdi í Steina úr 10 metra fjarlægð.
Af öllum þeim andlitum sem ég hefði getað hitt í Köben rakst ég sem sé á þann sem ég ætlaði að hitta, rúmlega 10 mínútna gang frá íbúðinni þeirra.
Þar voru svo steiktar prýðilegar pönnukökur, bornar fram með rjóma þeyttum í mjólkurfernu.
Athugasemdir (2)
1.
Siggi (hennar Huldar) reit 06. september 2005:
Stærð Köben er nebbla afstæð og fer alfarið eftir hugarástandi, hugarfari, menningarlegum bakgrunni og jafnvel skóstærð þess sem um hana ræðir eða gengur.
Þessi Aðalsteinn er maður sem ég hefði gaman að komast í návígi við. Þú kannski sendir mér símanúmerið hans eða netfang nema hvorutveggja væri...
Vi ses i skolen! Venlig hilsen...
sighj (hjá) itu.dk
2.
Þórarinn.com reit 06. september 2005:
Umbeðnar upplýsingar hafa verið sendar í pósti.
(Þar sem vefurinn minn er vinsæll hjá netfangaveiðurum dulkóðaði ég aðeins netfangið þitt hér fyrir ofan).
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry