Sparðatíningur liðinnar viku

Eftirfarandi er kaótískt punktasafn um liðna viku; fyrsta vikan bæði í skólanum og nýjum heimkynnum. Stutta útgáfan er sú að hér er allt í sóma (nema hjólið mitt).

Hér hefur verið frábært veður þessa daga, sól og í kringum tuttugu stiga hita svo til alla vikuna. Sem náfölur frónbúi hefði ég eflaust með réttu átt að leggjast út á grasflöt og safna sólbruna, en hef fyrir utan drjúgar gönguferðir að mestu verið undir þaki. Yfirleitt undir yfirskini dugnaðar...

Eftir að hafa græjað loftnetssnúru komst ég að því að ég er með 15 sjónvarpsstöðvar - er til dæmis að fylgjast með yfirliti yfir hörmungarnar í New Orleans á CNN. Nettenging hefur líka verið græjuð og helstu húsgögn komin á sinn stað.

Hins vegar hefur mér ekki enn tekist að aflæsa hjólinu mínu, þrátt fyrir drjúg olíuböð inn í lásinn neitar lykillinn enn að ganga alla leið inn. Mér sýnist því ljóst að ég verði að draga fram sannanir á eignarrétti, skella fáknum á öxlina og leita uppi hjólasmið viljugan til að saga upp lásinn...

Á fimmtudag fór ég í leiðangur í IKEA, þar sem ég keypti hillu, sjónvarpsborð, hliðarborð og annað smálegt. Þegar ég ætlaði að panta mér sendiferðabíl benti afgreiðslumaðurinn þar mér á að prófa frekar að panta station-leigubíl. Það stemmdi einnig að pakkarnir runnu þar inn án vandræða og bæði var ég mun fljótari á leiðinni en ég hefði verið hefði ég þurft að bíða eftir sendiferðabíl, ferðin var þægilegri og í ofanálag ódýrari!

Það kvöld bograði ég síðan yfir mublum, kófsveittur með skrúfjárn og kom öllu í aðalatriðum á réttan kjöl, þótt enn vanti að negla bakplötu í 80 króna sjónvarpsborðið mitt.

Nú hefur rúmteppið sem síðastliðið haust var keypt til að notast sem gardína fengið nýtt hlutverk og er nú orðið að skilvegg. Herberginu hefur þar með verið skipt upp í svefnálmu og restálmu (fyrir allt annað).

Enn á ég eftir að græja loftljós (kominn með lampaskerm), pappakassa undir smáhluti, negla áðurnefnda bakplötu (var of seinn á stjá á laugardeginum til að ná að kaupa mér hamar) og kaupa mér gróður. Vonandi reddast það flest á morgun.

Þetta held ég að eigi eftir að reynast prýðilegt heimili.

Annað kvöld verður kynningarfundur hérna á hæðinni, þannig að ég mun fá að sjá aðeins fram í nágranna mína og setja mig inn í það hvernig umgangi um fælleseldhúsið er háttað. Ég er að mestu sjálfbjarga í mínu eldhússkoti, en þar er ekki rými fyrir mikil eldamennskutilþrif (þótt ég sé líklega með stærsta eldhússkotið á hæðinni).

Ég er svo búinn að fara í tíma í öllum þremur fögunum sem ég er skráður í. Þau lofa öll góðu, en því miður þarf ég að sleppa einu þeirra - haldi ég því til streitu að taka 16 vikna verkefni (sem ég geri örugglega). Önnin lítur því vel út námslega séð.


< Fyrri færsla:
Skilgreining
Næsta færsla: >
Kenningin um smáþorpið staðfest
 


Athugasemdir (2)

1.

Jón Heiðar reit 04. september 2005:

Til hamingju með nýja heimilið :) Og gangi þér vel í náminu meistari.

2.

Þórarinn.com reit 05. september 2005:

takk

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry