Ilmandi fótbolti í Fælledparken

Í gær, laugardag, mætti ég í fyrsta skipti í fótbolta með FC Umulius síðan ég sneri aftur til Köben. Þar var að vanda ágæt mæting og ég held að þetta hafi verið í fyrsta sinn sem íslíngar voru í meirihluta - eða hvort við vorum sléttur helmingur. Veðrið var sömuleiðis frábært að vanda og ég bölvaði því að hafa ekki mætt í stuttbuxum eins og mér datt þó í hug.

Ef ég væri í neimdroppíng stuði gæti ég getið vel þekkts íslensks leikara sem fór mikinn í leiknum með fyrirskipunum og hvatningarhrópum til sinna liðsmanna (undantekningarlaust á íslensku, óháð þjóðerni viðkomandi liðsmanns). En ég læt það hins vegar ógert.

Í knattspyrnufræðunum er oft talað um tvær leiðir til að vinna fótboltaleiki:

  • Með því að skora fleiri mörk en andstæðingurinn
  • Með því að fá á sig færri mörk en andstæðingurinn

Við fyrstu sýn kann að virðast sem þetta sé sama prinsippið, en þó er sá munur á að fyrrnefnda leikaðferðin skilar yfirleitt mun fleiri mörkum (á báða bóga) en sú síðarnefnda.

Í laugardagsbolta FC Umulius er að auki til þriðja leiðin:

  • Með því að skora úrslitamarkið

Eftir tæplega tveggja tíma harða baráttu var ákveðið að nú væri að koma nóg og því ákveðið að næsta mark yrði úrslitamarkið. Á þeim tímapunkti var mitt lið tveimur mörkum undir, en það er hefð fyrir því að vera ekkert að stressa sig á svoleiðis smáatriðum. Ég skoraði síðan úrslitamarkið með langpoti (!) í tómt markið. Þar með var sigurinn okkar.

Í vatns/gos/bjór -drykkju og lífrænt ræktuðum smókum (tóbaks) að loknum leik var það talið saman að í sumar hefðu líklega um 50 manns mætt til leiks hjá FC Umulius og verður það að þykja góður fjöldi.

Þar sem ég er enn ekki búinn að saga upp lásinn á hjólinu mínu nýtti ég mér almenningssamgöngur að þessu sinni. Þrátt fyrir að hafa skipt um bol að leik loknum var ég óþægilega meðvitaður um eigin sportslegu angan og reyndi því að halda mig á sem afskekktustum slóðum í farartækjum á heimleiðinni.

Þegar heim var komið var þorsta slökkt með íþróttadrykk alvöru karlmanna; Tuborg Classic.


< Fyrri færsla:
From digital music to digital video loxins komið á vefinn
Næsta færsla: >
Meiri sparðatíningur
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry