Raddlaus í blómaangan

Í gær var Funky Fredagsbar. Í gær var mjög gaman. Í dag er ég þunnur. Í dag er ég raddlaus. Í dag er ég framtakslaus og latur. Ég er samt allur að hressast...

Funky forskeytið þýðir að það voru plötusnúðar sem sáu um tónlist kvöldsins, sem aftur þýðir að tónlistin var hærra stillt en venjulega, sem aftur þýðir að í samræðum þurfti að brýna raustina meira en venjulega.

Þar sem ég hafði enga rænu á því að beyta röddinni rétt vaknaði ég gersamlega raddlaus í morgun.

(Og þar sem ég vaknaði einmitt í morgun, en ekki um hádegið eins og ég helst hefði viljað, var líkamlegt ásigkomulag ekki með besta móti).

Eins og verða vill á löngum fredagsbar (ætli ég hafi ekki verið um átta tíma á svæðinu) voru spjöll af ýmsum toga og við ýmsa. Lokaspretturinn fór alfarið fram á íslensku (nema rétt til að sýna litháískum (minnir mig) áhorfanda að samtalinu örlitla kurteisi). Hjört hafði ég hitt nokkuð snemma kvölds og þegar á leið birtust Siggi (hinn nýji) (Huldar, fyrir þá sem kunna að þekkja hann betur þannig) og Jónína (sem ég var að hitta í fyrsta skipti). Þar með á ég bara eftir að hitta Ágúst af Íslingunum þremur sem byrjuðu á DKM núna í haust.

Um eittleytið skildust leiðir og ég fór heim í bólið. Vaknaði síðan um klukkan sjö, mér til lítillar gleði, og mókti fram undir hádegið.

Líklega var síðasta bjórlítranum ofaukið, að minnsta kosti er ég búinn að vera töluvert þunnur í næstum allan dag. Líkamlega hef ég oft haft það verra, en frumkvæði og framtakssemi hafa í dag verið í skelfilegum mínus.

Hin klassíska þynnkumáltíð; hamborgari, franskar og kók í kvöldmat komu líkamsbúskapnum aftur á réttan kjöl.

Ilmurinn

Eins og ég er örugglega búinn að færa til bókar keypti ég mér jukku og liljur í potti fyrir nokkrum dögum. Liljurnar eru núna byrjaðar að springa út og ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki gert mér grein fyrir því hvað þær eru lyktsterkar - þung væmin lykt liggur því sem þokuslæða um herbergið í þessum rituðum orðum.

Af 15 knúppum eru samt ekki nema þrír opnir svo neinu nemi - má því leiða líkum að því að lyktin eigi eftir að fimmfaldast áður en yfir lýkur. Í neyð mun ég ráðast á greyið og höggva nokkur höfuð af stilkum.

Jákvæða hliðin er þó sú að liljuanganin ætti að yfirgnæfa hugsanlega hrútalykt - enda varð ekkert úr fyrirhugaðri hreingerningu dagsins.

Ég man bara hreint ekki hvers vegna ég nennti ekki að skúra og skrúbba...


< Fyrri færsla:
Kaupti bækur
Næsta færsla: >
Þróunarsaga Acta vefsins
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry