Að drepa elskurnar sínar

Frasinn "to kill your darlings" er oft notaður um það erfiða hlutskipti rithöfunda (og annarra skapara) að þurfa af einhverjum orsökum að grisja í hugmyndasafninu (oftast til að gera atburðarás hnitmiðaðri). Ég er einmitt að upplifa þetta að einhverju leyti á eigin skinni núna, þótt ég geti ekki sagt að ég hafi ræktað tilfinningar mínar fyrir þessari tilteknu elsku sérlega lengi.

Einn af kennurunum mínum á þessari önn, Michael Valeur, sem kennir Konceptudvikling og er rithöfundur og fyrrum pönkari, lýsti þessu ferli á þann áhrifamesta hátt sem ég hef heyrt hingað til.

Hann lýsti því með leikrænum tilþrifum hvernig það væri að koma heim af fundi með ritstjóra sínum eða öðrum sem hefði tillögur að styttingum og þéttingum, taka elskurnar sínar hverja af annarri og skera þær á háls. Opna síðan ímyndaðan hlera í gólfinu og troða þeim í einni blóðugri kös niður um hlerann og loka á dauðahryglur þeirra og lífsbænir.

Fyrir næstu bók væri svo hægt að gramsa í kjallaranum og blása lífi í eina og eina hugmynd til þess síðar í ferlinu að hefja samsvarandi fjöldamorð á þeim hugmyndum sem kviknað hafa á leiðinni.

Sambönd hans við persónurnar virðast nokkuð persónuleg, sbr. þessa lýsingu sem ég fann við Google leit að nafninu hans:

Når Valeur arbejder, sidder han i et rum for sig selv, hvor han højlydt snakker og diskuterer med sine figurer. Om sommeren, når han kører han på telttur med sine unger, må han hver morgen sætte sig ud i sin bil et par timer for at få fred til at føre sine samtaler med figurerne.

Hann nefnir þetta sem eitt af því sem honum þykir heillandi við að semja söguþræði fyrir tölvuleiki (sem hefur verið hans sérgrein undanfarin ár). Þar er þörf á mörgum sögufléttum sem geta staðið hlið við hlið og sá sem leikur leikinn velur hverjum hann vill fylgja eftir. Þar kemur næstum hið gagnstæða vandamál, í stað of margra sögupersóna sem keppa hver við aðra um athyglina verður vandinn að eiga nógu margar fléttur.

Útúrdúr

Í gær braut ég allar hefðir og venjur og fór ekkert á fredagsbarinn. Ástæða þess var bið eftir nýjasta leikfanginu mínu; nýjum 17" skjá sem ég átti von á að fá afhentan milli kl. 16 og 21. Ég áttaði mig ekki fyrr en of seint á því að biðja um að hringt yrði í mig með t.d. kortérs fyrirvara, og var því í vistarböndum heima.

Það hafði reyndar sínar jákvæðu hliðar, enda tók ég drjúga skorpu í heimavinnu þess í stað. Aftur að því síðar.

Skjárinn kom svo alveg í lok tímagluggans og var snarlega skellt upp. Snúrufarganið á borðinu jókst reyndar til nokkurra muna, en nú get ég farið að huga að framtíðarhögun þeirrar flækju.

Nýi skjárinn gnæfir núna yfir skrifborðinu og við samanburðinn er skjárinn á fartölvunni minni óttalega grár og gugginn. Vinnslupláss hefur hins vegar rúmlega tvöfaldast og þörf á bogri við nákvæmnisvinnu minnkað.

Elskudráp revisited

En svo ég snúi mér aftur að hinu ofbeldisfulla viðfangsefni þessa pistils, þá hef ég í framhaldi af hinum óvænta smelli sem til varð í síðasta flash-tíma svo gott sem tekið þá ákvörðun að lokaverkefni annarinnar verði leikur byggður á þeirri grunnvirkni.

Ég veit ekki hvort ég næ fram sömu dáleiðsluáhrifunum og við frjálsar músarsveiflur, en er þegar kominn með hugmyndir að nokkrum mismunandi leikjaafbrigðum.

Sömuleiðis held ég að svoleiðis leikur væri fín æfing í hlutbundinni forritun, þar sem hver bolti mun sjálfur sjá um að halda reiður á eigin ástandi og atburðum.

Á miðvikudaginn næsta eigum við að skila um það bil hálfrar mínútu hreyfimynd í flash-kúrsinum með innihaldi að eigin vali. Ég var búinn að rissa upp storyboard byggt á þeirri hugmynd sem ég hafði upphaflega fengið að lokaverkefni, en þeirri rissu var snarlega hent í gær og tekið til við að búa til stríðara (teaser) fyrir fyrirhugaðan leik (og varð þar fyrsta elskuvígið).

Síðan settist ég við í bið minni og hófst handa við að flytja þessar hugmyndir af blaðinu inn í flashið. Fyrstu tvær senurnar byggja á texta sem birtist í ritvélarfonti, einn stafur í einu og töluverð handavinna að fá það til að hreyfast í hæfilegu tempói og haga sér sómasamlega á allan hátt.

Eftir að skjárinn birtist jukust aðeins afköstin (aðallega vegna þess að þá var ég laus úr viðjum ritvélarhlutans og gat farið að vinna með heilar textablokkir). Í morgun hafa svo fyrstu boltarnir birst skoppandi á sviðinu.

Til þess að losna við að þurfa að horfa á allar 20 sekúndurnar í hvert sinn sem ég vil skoða hvar ég er staddur tók ég upp á því að láta myndina hoppa yfir fyrstu 250 rammana (ritvélarsenurnar).

Hin óvænta niðurstaða úr því varð sú að tempóið snarbreytist og batnar við að losna við fyrstu tvær senurnar - og að þær mega alveg missa sín.

Ég er því að búa mig undir að henda næstum allri vinnu gærkvöldsins - drepa þá elsku "for the greater good".

Þessi pistill er skrifaður mér til hughreystingar og sem eins konar minningargrein um ritvélarsenurnar sem eru á leið á höggstokkinn.

Þeirra verður minnst um sinn.


< Fyrri færsla:
Veðurfregnir
Næsta færsla: >
The great kluck conspiracy
 


Athugasemdir (1)

1.

Elli reit 24. september 2005:

Blessuð sé minning þeirra.

You go girl! Flassaðu, flassaðu....flassaðu eins og vindurinn!

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry