Stenkur á baðherberginu

Undanfarið hef ég keppst (skrítin beygingarmynd) við að halda baðherbergisdyrunum kyrfilega lokuðum og hafi ég þurft að hætta mér þangað inn hefur það verið með ákveðinn ugg í brjósti. Ekki vegna silfurskottanna sem nefndar voru í síðustu færslu, né vegna lyktar af völdum þeirrar úrgangsleysingar sem hefð er fyrir að eigi sér stað í slíkum baðherbergjum, heldur vegna fljótandi salernsisskálarviðbjóðsins sem ég hafði keypt mér í sakleysi mínu.

Þegar ég flutti inn var klósettsteinn af gamla skólanum hálfuppleystur hangandi innan á salernisbrúninni. Þegar síðustu leifum af honum hafði verið sturtað niður og tómri plastgrindinni hent kom einstaka sinnum fyrir að óræð lykt barst um vit. Eftir að hafa útilokað þann möguleika að þetta stafaði af efnaskiptabrengli hjá mér framkvæmdi ég stórhreingerningu á klósettinu (og hálfstíflaði það "undervejs"). Að þeirri hreingerningu (og afstíflun) lokinni skellti ég upp því fínasta og flottasta sem fannst í kaupfélaginu á horninu; fljótandi lyktareyði - Ocean Breeze.

Þvílíkur viðbjóður.

Hvað gengur mönnum eiginlega til að hanna svona drasl sem fyllir íbúðina af eiturgufum um leið og baðherbergisdyrnar eru skildar eftir opnar eitt augnablik og sem liggur við að valdi höfuðverk og klígju ef reynt er að setjast niður í eiturgufunum?

Lyktin hefur styrkst dag frá degi og gott ef ég er ekki að verða búinn að koma mér upp ofnæmi fyrir Ocean Breeze (ég leyfi mér þó að efast um að það ofnæmi taki sig upp næst þegar ég rölti nálægt ströndinni).

Í dag gafst ég upp og henti draslinu.

Hér með er ég endanlega búinn að gefast upp á fljótandi salernishreinsum - nú verða það bara gamaldags steinar eða klósettilmur au naturel ella.

Talandi um ilmgufur heimilisins, þá held ég að mér sé að takast að drepa liljurnar mínar. Eftir að hafa blómstrað í gríð og erg sölnuðu skyndilega öll blóm (líka óútsprungin) og gulleitur blær hefur verið að færast upp eftir laufblöðunum. Fyrst datt mér í hug að ég hefði vanrækt vökvun, en þrátt fyrir aukna alúð á því sviði heldur hrörnunarferlið áfram.

Einhvern vegin efaðist ég líka alltaf um að þær myndu lifa lengi hjá mér blessaðar...


< Fyrri færsla:
Harry Potter og silfurskotturnar
Næsta færsla: >
Dúkkur og netklám
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry