Aðeins um skólann: Eye Tracking

Eftir færslur undanfarinna daga um skordýr, baðherbergisangan, tónlistarkaup og þess háttar er kannski rétt að hripa eitthvað niður um hvað ég er að fást við í skólanum. Í gær fengum við nefnilega tækifæri til að "leika okkur" með virkilega flotta græju sem auðvelt er að sjá margvísleg not fyrir - þótt reyndar sé verðmiðinn upp á ca. 1,5 íslenska milljón.

Græjan er svokallaður eye-tracker, þ.e. útbúnaður til að fylgjast með augnhreyfingum notandans þegar hann notar t.d. vefsvæði eða hugbúnað. Galdurinn felst í því að lýsa innrauðu (og þar með ósýnilegu) ljósi framan í notandann og mæla endurvarp frá augnbotninum (sama endurvarp og veldur rauðum augum á ljósmyndum ef flassið endurvarpast aftur í myndavélina).

Svona græjur hafa reyndar verið til lengi, en hafa hingað til krafist þess að notandinn sé með eitthvert apparat á höfðinu og/eða megi ekki hreyfa höfuðið til. Þessi lítur hins vegar út alveg eins og tölvuskjár með svolítið þykkri umgjörð. Í umgjörðinni eru fimm ljósgjafar/skynjarar sem í sameiningu geta fylgst glettilega nákvæmlega með augnhreyfingum hjá notanda sem situr afslappaður í venjulegum stól og viðhefur ósköp normal höfuðhreyfingar.

(Sjá mynd af græjunni)

Að auki fylgir svo hugbúnaður til að vinna úr gögnunum og með hjálp hans má t.d. taka upp vídeó af því sem fram fer á skjánum, með hljóðrás með því sem notandinn segir og bletti sem færist um og sýnir hvað notandinn er að horfa á hverju sinni.

Fyrirfram átti ég von á því að það þyrfti að kalíbrera græjuna eitthvað, en eftir að Rasmus tilraunakanína var sestur í stólinn var hann beðinn um að fylgja bláum bletti eftir með augunum í á að giska hálfa mínútu. Eftir það kvað græjan upp dóm um að nákvæmnin væri nægjanleg.

Eftir á gátum við svo skoðað upptökuna með Rasmus og farið í gegnum "hvað varstu að horfa á þarna?", "hvers vegna þetta?", o.s.frv.

Eitt af því sem við tókum eftir var að þegar hann kom inn á síðu með löngum texta var eitt það fyrsta sem hann gerði að líta niður í hægra hornið til að sjá hversu langur scrollbarinn væri - hann staðfesti að það hefði hann gert til að meta hversu langur textinn væri. Þetta held ég að sé eitthvað sem allir vanir vefnotendur geri í einhverjum mæli - en næstum algerlega ómeðvitað.

Það ætti að vera hægt að fá "hitakort" af hverri síðu, þ.e. sjá hvaða hlutar hennar eru meira skoðaðir en aðrir. Hins vegar virtist hugbúnaðurinn ekki ráða við framesettið sem vefurinn sem við vorum að rannsaka notar.

Reyndar á skólinn ekki þessa græju, en kennarinn okkar í Usability var með hana í láni og bauð nemendum að prófa hana í tengslum við usability-verkefnið okkar.

Það er svo kaldhæðnislegt að vefur fyrirtækisins sem framleiðir skjáina og hugbúnaðinn (Tobii) er uppsettur í frames sem fokkast upp í Firefox og er eflaust erfitt að prófa með þeirra eigin hugbúnaði (a.m.k. að fá áðurnefnd hitakort).

Rasmus tilraunakanína benti réttilega á að svona græja gæfi ótrúlega möguleika í t.d. leikjaforritun.

Það að búa til samsvarandi virkni með því að nota staðlaðan vélbúnað og venjulega stafræna myndbandsupptökuvél, einkum með þarfir fjölfatlaðra í huga, er verkefni sem unnið er að innan skólans m.a. af þessum kennara okkar. (Vefur verkefnisins er því miður óvirkur). Fyrsta almenna útgáfa af þeim hugbúnaði ætti að koma út (ókeypis) næsta vor og í framhaldi af því ætti að vera hægt að þróa þá lausn yfir í t.d. leikjanotkun.

Kennarinn (John Paulin Hansen) tók reyndar fram að sá búnaður næði ekki þeirri nákvæmni sem Tobii græjan gerir - en kostar heldur ekki nema 1/10 af henni.

PS: Þessi rannsókn Poynter Institute var einmitt unnin með áðurnefndri græju og sýnir nokkrar skjámyndir. (Niðurstöðunum ber þó að taka með örlitlum fyrirvara, þ.e. túlknunum á þeim).


< Fyrri færsla:
Uppl.ið á uppleið?
Næsta færsla: >
Bitinn aftan hægra
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry