Staðið við fögur fyrirheit

Þegar ég lét af þeirri hreintrúarstefnu að vera bara með mp3 skrár rippaðar af eigin geisladiskum á tölvunni minni, réttlætti ég "þjófnaðinn" með því að þetta væri leið til að kynnast nýrri tónlist og ef ég uppgötvaði eitthvað sem væri að fíla gæti ég keypt diskinn til að listamaðurinn fengi að minnsta kosti einhverja aura. Sú plata sem hefur fengið mesta spilun í iPodinum undanfarnar vikur er O með Damien Rice og mér farið að fljúga í hug að nú væri kannski komið að því að fjárfesta formlega í gripnum.

Það var því skemmtileg tilviljun að rölta framhjá plötubúð og sjá tvöfalda útgáfu af O á tilboði. Ég skellti mér snarlega á eintak, og þótt ég þori ekki að fullyrða um það hversu Damien fær stóra flís af þessari sölu þá er ég sáttur við að hafa (að minnsta kosti að hluta) staðið við fyrirheitin.

O er ekki mesta stuðplata í heimi, en það er eitthvað heillandi við það þegar hann hækkar upp raustina í frásögnum af mæðum sínum við strengjaundirleik, oft með meðfylgjandi gæsahúð.

Rice sá t.d. um undirspilið fyrir rúmri viku þegar ég fór lox til Andreasar til að sækja skrifborðsstólinn. Upphaflega planið var að taka leigubíl til baka, en þegar til kom ákvað ég bara að skella honum á öxlina og rölta þetta kortér heim. Það gekk prýðilega (fyrir utan hvað lögun skrifborðsstóls er einstaklega óheppileg til burðar) og var það ekki síst félaga Damien að þakka.

Nú hafa báðir diskar verið snarlega rippaðir og munu skipta út eldri útgáfunni á iTunes playlistanum. Eflaust líður langur tími þar til diskarnir verða spilaðir í sinni plastlegu mynd, en það er bara hinn nýi veruleiki tónlistar-"notkunar".

Ammm.


< Fyrri færsla:
Stuttklipptur!
Næsta færsla: >
Uppl.ið á uppleið?
 


Athugasemdir (2)

1.

Óskar Örn reit 05. október 2005:

Gott að heyra að þú ert búinn að uppgötva snillinginn Rice. Keypti þessa plötu í byrjun árs í fyrra og hef síðan séð hann í tvígang á tónleikum hér í höfuðstað tónleikahalds í Evrópu. Frábær músikant og mæli eindregið með að grípa gæsina ef hann er að spila e-ð í Köben, alger snillingur á sviði.

2.

Þórarinn sjálfur reit 05. október 2005:

Amm, ég vissi svo sem af honum en hafði aldrei hlustað á hann af neinu viti - einmitt ein af ástæðunum fyrir því að það hentar mér að "stelast" í tónlist annarra, ég er bara ekki nógu duglegur að kaupa það sem ég ekki þekki nema af afspurn.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry