Af drykkju og dramanótt dauðans

Í gær fór fram áðurnefnt Tour de Chambre hér á hæðinni. Það reyndist prýðileg skemmtun fyrstu fjóra tímana eða svo, en þróaðist svo út í dramagang mikinn með öskrum, hurðaskellum, taugaáföllum og sjúkrabílum. Þótt fyrirsögnin gefi kannski vísbendingar um annað veit ég ekki til að nein "alvöru" dauðsföll hafi átt sér stað (þótt nokkrir hafi sofnað áfengisdauða um lengri eða skemmri tíma).

Leikar hófust rétt rúmlega átta og byrjað var hjá mér. Ég bauð upp á frumsaminn kokteil; hænurass 101 (eða hønsnerøv 101). (Uppskrift að honum verður birt hér innan tíðar.) Hann mæltist vel fyrir og eftir um tuttugu mínútna stopp var haldið á næsta bæ.

Alls tóku 10 herbergi þátt og ég viðurkenni að hafa á stöku stað svindlað svolítið og ekki klárað drykkinn minn - tequila slammernum sleppti ég með öllu. Það var ýmislegt í boði auk þessa; bjór, Fisherman´s skot, Baileys, tvíburabróðir Baileys, Jägermeister í hindberjagosi, eitthvað blátt, Cuba Libre og meiri Fisherman´s.

Æfingar undanfarinna daga virtust skila góðum árangri og lifrin braut niður allt sem að henni var rétt með sóma og möglunarlítið.

Samsíða þessu fór fram landsleikur Dana og Grikkja, þannig að framan af miðaðist skipulag við að heimsækja herbergi þar sem væri að finna sjónvarp. Eina mark leiksins var þó skorað meðan sjónvarpslaust herbergi var heimsótt.

Allir þátttakendur þraukuðu að síðasta herbergi, en þar varð fljótlega ljóst hvert yrði fyrsta fórnarlamb kvöldsins, þegar augnlokaþyngd næsta nágranna míns tók að reynast honum ofviða.

Klukkan var að nálgast miðnætti þegar hér var komið sögu og öllum stefnt í eldhúsið til áframhaldandi fjörs. Fór það heldur á aðra leið en að var stefnt.

Þáttur F. og vinkonu

Í eftirfarandi frásögn verða engin nöfn nefnd, ekki endilega til að vernda sakleysingjana, heldur frekar til að vernda sjálfan mig - ef einhver nágranna skyldi slysast inn á vefinn og reka augun í nafnið sitt.

Nýjasti íbúi gangsins er F., ung stelpa (sem við komumst að í gær að er 18 ára) sem ekki hefur farið mikið fyrir (utan mikils dugnaðar við að nýta sameiginlegan bjór- og gosforða hæðarinnar). Þó mun gestagangur hjá henni síðastliðið sunnudagskvöld hafa haldið vöku fyrir næstu nágrönnum - en fór fram hjá mér. Gestir og gestgjafi í því samkvæmi munu hafa verið áberandi undir áhrifum einhvers annars en áfengis...

Með F. í drykkjutúrnum var vinkonan G., 17 ára, og lengi framan af kvöldi var ekki alveg ljóst hvers vegna hún hafði slegist með í för.

Til að gera langa sögu (tiltölulega) stutta eru F. og G. báðar "sósíal tilfelli", sem hafa verið teknar af foreldrum sínum, en einhver nágrannakommúna mun vera með samning um að geta notað sum herbergjanna á kollegíinu fyrir skjólstæðinga sína. G. hafði strokið af unglingaheimilinu sem hún býr á og ætlaði að búa hjá F. vinkonu sinni og tók þannig þátt sem hálfgerður íbúi.

Báðar tóku rösklegan þátt í drykkjunni og eitthvað virtist þunnt á vinskapnum, því ég heyrði þær báðar baktala og kvarta yfir fláræði hinnar. Eftir rifrildi og konfrontasjón inni á herbergi F. (sem þangað var hjálpað eftir að hafa sofnað í eldhúsinu) fékk G. svo einhvers konar taugaáfall og fannst liggjandi á gólfinu hyperventilerandi og hágrátandi.

Menn höfðu áhyggjur af því að hún færi sér að voða og endaði með því að hringt var í neyðarlínuna. Í framhaldi af því kom sjúkrabíll, sem leiddi ekki til neins enda var þetta greinilega sálræn vandamál og ekki á þeirra könnu. Þetta hafði þau áhrif að meirihluti gangbúa var í því að reyna að hugga G., halda F. í fjarlægð, ráfa um með áhyggjusvip, ná sambandi við neyðarlínuna og reyna að grafa upp símanúmer hjá unglingaheimilinu. Síðar kom í ljós að F. hafði haft það númer allan tíman en logið því að hún vissi það ekki til að koma sjálfri sér frá vandræðum.

T. sem veitti G. "fyrstu hjálp" meðan beðið var eftir sjúkrabílnum (fá hana til að anda rólega, gefa henni vatn og reyna að sefa ekka) var alveg miður sín yfir þessu og þurfti huggunar við í eldhúsinu og C. sem stóð í símhringingum og komst lox í samband við næturvörð á unglingaheimilinu var alveg rasandi yfir áhugaleysi allra - sér í lagi næturvarðarins á heimilinu (sem fer með forræði G.) og sagðist ekkert geta gert - hvorki sótt hana né ræst út þá sem þekktu til hennar.

Aðrir gangbúar reyndu að halda lífi í samkvæminu í eldhúsinu og/eða leggja eitthvað misgáfulegt til málanna, F., G., T. og C. til mismikillar gleði og uppörvunar.

Um fjögurleytið gafst ég upp, enda orðinn þreyttur og úr öllu djammstuði og hafði nákvæmlega ekkert fram að færa sem gæti hjálpað þessum veslings stúlkum í þeirra aðstöðu.

Ég fékk mér því nætursnarl, tróð töppum í eyrun og reyndi mitt besta til að leiða hjá mér hróp og hurðarskelli sem enn bárust af ganginum.

Ég var lengi að sofna og margt sem braust um í kollinum. Svefnrofunum létti svo þegar lífi virtist hafa verið blásið í fjörið (og græjurnar í eldhúsinu) um hálf-sexleytið. Eftir það lá ég andvaka leiðinlega lengi og hlustaði á bassabít nötra um húsið.

Í morgun vaknaði ég svo þokkalega hress (enda var svo til alveg runnið af mér þegar ég fór að sofa).

Það verður fróðlegt að sjá hvaða áhrif þessir atburðir hafa á samskiptadýnamíkina á ganginum - allir voru ógurlega góðir vinir þegar rúntinum lauk, en nú er spurning hvernig viðhorfin til F. breytast - hvort hún verður hunsuð eða fær samúð.

Auk þess voru eflaust einhver uppgjör um nóttina sem fóru fram hjá mér. Ofantalin lýsing er sú mynd sem ég náði að púsla saman af frásögnum annarra í eldhúsinu og á ganginum - þar vantar örugglega slatta af bitum í.

Stanslaust stuð.


< Fyrri færsla:
Bitinn aftan hægra
Næsta færsla: >
Uppskrift að ávaxtadrykk með rommi fyrir gestgjafa sem ekki eiga tiltæk mæliílát eða annan munað
 


Athugasemdir (3)

1.

Þórarinn Leifsson reit 09. október 2005:

Sjitt. Þetta er bara eins og í raunveruleikasjónvarpsþættinum Huset sem var sýndur á TV Danmark haustið 2003. Ó já.

2.

Jón Heiðar reit 09. október 2005:

Partýin á Eggertsgötunni hafa greinilega verið eins og bingó í Vinabæ miðað við þetta.

3.

Þórarinn sjálfur reit 10. október 2005:

Varðandi Eggertsgötupartýin þá er það rétt að margt er stærra um sig hérna í útlandinu - hins vegar reyndist hér engin þörf á þremur fílefldum karlmönnum til að snúa þann fjórða niður (með tilheyrandi skóförum upp um veggi) eins og í eftirminnilegu partíi á Eggertsgötunni!

Svo rámar mig í að einhverntíman hafi einhver gestur verið með sjálfsskaðayfirlýsingar inni hjá loðfílnum sem ollu taugatitringi viðstaddra og símtali í neyðarlínuna - hvernig það fór að lokum man ég reyndar ekki en allir voru enn lífs að morgni. Það atvik gæti hafa verið eftir þína tíð, Jón.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry