Uppskrift að ávaxtadrykk með rommi fyrir gestgjafa sem ekki eiga tiltæk mæliílát eða annan munað
09. október 2005 | 1 aths.
Meðfylgjandi er uppskrift að drykknum sem ég bauð upp á í Tour de Chambre í gær. Hann mæltist vel fyrir og er frískandi sem t.d. fordrykkur eða bolla. Þar sem ég á hvorki mæliglös, snafsamæli né önnur nauðsynleg áhöld til drykkjablöndunar var ákveðinnar impróviseringar þörf og það nýtt sem hendi var næst.
Eftirfarandi drykkur er byggður á bolluuppskrift sem jafnt má blanda með áfengi og án; 1 hlutur appelsínusafi, 1 hlutur eplasafi, 1,5 hlutur Sprite, vodki og ávextir eftir smekk.
Þessi útgáfa, hønsnerøv 101, er frábrugðin að því leyti að hlutföllin eru nokkuð önnur og notað er Bacardi Limón í stað vodka.
Notast er við 1,5 lítra appelsínusafafernu sem drukkið hefur verið úr þar til á að giska hálfur lítri er eftir. Í þessa fernu er bætt á að giska hálfum lítra (metið eftir auganu) af Bacardi Limón (sem einmitt er á tilboði í Kvicly þessa dagana á 99 krónur). Sem trekt má nota plastglas sem lítið gat hefur verið skorið í botninn á (úti við kantinn).
Þegar romminu hefur verið komið í fernuna er hún fyllt upp með eplasafa. Þar sem rommið er 32% að áfengisinnihaldi geta stærðfróðir leitt að því líkum að innihald fernunnar sé nú um 10-11% að styrkleika.
Til skreytinga eru lime-sneiðar settar í glös og þegar gestir mæta á staðinn eru glös hálffyllt með grunnblöndunni úr fernunni góðu og síðan fyllt að marki með Faxe Kondi. Áðurnefndir stærðfróðir geta vitnað um að þegar hér er komið sögu ætti styrkurinn að vera á við dæmigerðan bjór, þ.e. 4-6%.
1,5 lítrar af grunnblöndu og 1,5 lítrar af gosi gefa ljóslega 3 lítra af drykk. Sé þörf á meira eða minna magni má skala uppskrift eftir þörfum, þótt það geri mögulega kröfur til einhvers konar mæliíláta.
Að sjálfsögðu má einnig nota 1,5 lítra flöskur með sama hætti. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er Faxe Kondi gosdrykkur, með bragð sem helst verður lýst sem blöndu af Sprite og Mountain Dew, á klakanum mætti því prófa að nota annan hvorn þeirra eða jafnvel báða. Strangt til tekið er þá ekki um að ræða hønsnerøv 101, en mætti e.t.v. kalla drykkinn upp á íslensku; hænurass.
Athugasemdir (1)
1.
Siva reit 13. október 2005:
Hehehehe, eitthvða þykir mér þetta umræðuefni mun skemmtilegra en tölvukjaftæðið, heheheh :)
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry