Handlaginn heimilisfaðir, hálfur Dani og haustdrulla

Síðastliðinn laugardagur var "annar hver", sem þýddi að sjálfsögðu að það var bolti í Fælledparken. Að þessu sinni gat ég ekki dregið Sigga með mér þar sem hann var ókominn úr heimskreppi sínum, þess í stað mætti Aðalsteinn glaðbeittur á svæðið og sýndi góð tilþrif.

Veðurhorfur höfðu verið heldur daprar, en þegar til tók var tíðin hin besta; skýjað en úrkomulaust og næstum logn (meira að segja hlýrra en maður átti von á). Hins vegar var mæting með fádæmum, auk okkar Steina voru mættir meistari TótiL, stórleikarinn Benni Erlings (sem fyrr í haust skýrði veru sína í .dk með þeim eftirminnilegu orðum að hann væri "immigrant of love") og einungis einn Dani!

Síðan kom í ljós að umræddur Dani er hálf-pólskur (að mig minnir) og því voru hlutföllin fjórir íslíngar gegn hálfum bauna. Ekki svo að skilja að við höfum neitt verið að níðast á minnihlutahópum (nema með því að samræður fór að miklu fram á íslensku).

Eins og talnaglöggir lesendur sjá í hendi sér (eða á fingrum annarrar handar) er ekki auðvelt að skipta fimm leikmönnum í tvö lið þannig að jafnræðis sé gætt (og væri enn flóknara ef taka ætti tillit til þjóðarbrotinna leikmanna). Við ákváðum að prófa að spila tveir gegn þremur, þar sem þriggja manna liðið mætti bara sækja með tveimur mönnum í einu og skora fyrir innan teig. Steini og ég byrjuðum í hlutverki lítilmagnans og stóðum okkur prýðilega (þótt öll þessi hlaup tækju hressilega á).

Eftir langþráða pásu sjanghæjuðum við Tóta yfir í okkar lið og lukum æfingunni í þriggja manna liði. Leikurinn var í járnum til loka, en úrslitamarkið féll röngu megin þegar Benni sýndi óvænt Roberto Carlos takta og skoraði með langskoti sem markmaðurinn (ég) sá ekki fyrr en allt of seint og fékk því engri rönd við reist.

Uppskurður án deyfingar

Sturtuhausinn sem fylgdi heimkynnum mínum er lítill plastræfill sem hefur svo sem skilað hlutverki sínu þokkalega, en þó hefur alltaf hluti bununnar puðrast út í loftið meðfram gataristinni. Í dugnaðarkasti nýlega skrúfaði ég hausinn í sundur og skóf af honum kalkútfellingar í þeirri von að það yrði til að þétta hann. Niðurstaðan varð þveröfug, þegar kalkið í þéttingunum var á bak og burt puðraði hann sem aldrei áður.

Þar sem ég skolaði af mér boltaskítnum uppgötvaði ég allt í einu að ég stóð í vatni upp á ökkla (eða því sem næst) og að ástæðan var sú að til þess að fá gott streymi yfir kroppinn hafði ég skrúfað hressilega frá, en fossarnir fjórir sem hvergi komu nærri (stæltum) skrokknum ollu því að niðurfallið hafði ekki undan.

Ég dró því fram skrúfjárn og minn trausta 10 króna dúkahníf og framkvæmdi uppskurð á sturtuhausnum án allrar deyfingar. Með því að snitta nokkra millimetra af réttum stað var lox hægt að herða gataristina almennilega upp í þéttigúmmíið og hausinn hefur síðan verið sem hugur manns.

Þetta reyndust einu markverðu tilþrif þessa laugardagskvölds þar sem ég dó ótímabærum heiladauða framan við sjónvarpið að kvöldmat loknum.

Sóttur heim

Á sunnudeginum komu svo Hanna Birna og Jesper í heimsókn með Sif litlu Dalby. Eftir stutt stopp hér á kollegíinu röltum við yfir í skóla þar sem þau fengu grand túrinn. Þaðan röltum við svo yfir á kaffihúsið Under Elmene (sem hefur m.a. verið fastur liður þegar systkini mín hafa heimsótt mig).

Sif var aðeins efins um hvernig ætti að taka mér framan af heimsókn, en það stóð stutt og við vorum orðnir bestu mátar þegar ég kvaddi þau á planinu hér fyrir utan og hún tók smá göngutúr með aðstoð móður sinnar.

Haustdrulla

Í dag er fyrsti alvöru haustdagurinn með því sem á fagmáli kallast "skítaveður"; hellirigningu og vindsteytingi. Ekki vil ég alfarið kenna veðrinu um, en ég tók með eindæmum langan tíma í að koma mér undan sænginni í morgun. Sólarhringurinn er upp á síðkastið aðeins farinn að skekkjast, maður er glaðvakandi um miðnættið og stendur sig að því að tárfella yfir því hvað allir eru hamingjusamir í "Öfgakenndum umbreytingum heimilanna" og sofna svo alveg óvart aftur eftir að hafa slökkt á vekjaraklukkunni.

Ráðin verður bót á þessu ... mjög fljótlega.

Það er erfitt, líf námsmannsins.


< Fyrri færsla:
Heilbrigðishugleiðingar taka á sig mynd
Næsta færsla: >
Brosir sínu breiðasta
 


Athugasemdir (2)

1.

Óskar Örn reit 26. október 2005:

Í ljósi dugnaðar við myndbirtingar af litlu bróðurdótturinni væri kannski hægt að fara fram á 1-2 myndir af umræddri fröken Dalby? Er að gefast upp á tregðu foreldranna við að birta myndir af barninu opinberlega. Spurði Hönnu fyrir nokkru hvort stelpan væri svona ljót og hef e-a hluta vegna ekki heyrt frá þeim síðan....!

2.

Þórarinn sjálfur reit 26. október 2005:

Ég bý reyndar ekki yfir slíkum dýrgripum (myndum af fröken Dalby) en ég skal reyna að smella af nokkrum næst þegar við hittumst.

Skil bara ekkert í þessum viðbrögðum Hönnu (eða skorti þar á) ...

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry