Pókerfés óskast

Í gær lét ég til leiðast og flaut með tískustraumum þeim sem leika um póker þessa daga og mánuði. Það mun enginn maður með mönnum nema taka þátt í póker á netinu (og allir stórgræða auðvitað). Önnur hver sjónvarpsstöð sýnir frá pókermótum og græjur til fjárhættuspila er hægt að fá í hverjum stórmarkaði.

Meðal þeirra sem eiga slíka dýrgripi er nágranni minn Esben og skömmu áður en áfengismóðu lagði yfir oss á fimmtudagsbar síðastliðinnar viku lögðum við drög að því að efna til spilamennsku í eldhúsinu viku síðar (sem var sum sé í gær).

Eftir að hafa skálað fyrir Aðalsteini nýútskrifuðum DKM kandidat og slúðrað aðeins við bauna þá sem tungu á festi, sleit ég mig því frá októberfest Fredagsbarsins með sínum líterskönnum, langborðum og skelfilegu þýsku teknópoppi. Millilenti í grillbúllunni traustu og skaut svo upp kollinum í eldhúsinu nokkrum mínútum yfir átta og þar með nokkrum mínútum of seinn.

Stress reyndist óþarft, þannig að ég kjamsaði á kvöldmatarrúllunni í rólegheitum áður en sest var að borðum.

Þetta var í fyrsta sinn sem ég spila póker svona í alvöru (mig minnir að ég hafi einhverntíman spilað um eldspýtur sem krakki) en ég var nokkuð vel undirbúinn eftir að hafa fylgst með sjónvarpsprédikunum um dásemdir þessa mikla gáfnaleiks. Ég var ekki eini byrjandinn, þannig að það voru teknar nokkrar upphitunarumferðir áður en alvöru peningar voru dregnir fram og lagðir undir.

Eftir að hafa náð nokkrum miðlungsstórum pottum og klúðrað ívið fleiri höndum þótti mér spilapeningastaflinn heldur skörðóttur og ákvað því að við svo lagað mætti ekki búa og blés til stórkarlablöffs. Næst þegar ég átti von um eitthvað bitastætt (hafði góðan séns á streit eða kóngapari fyrir síðasta spil) lagði ég því allt undir með sigurbros á vör.

Mínútu síðar var ég úr leik. Fyrstur allra.

Hjaðningavíg héldu áfram en atvinnumönnum þóttu sviptingar þó jafnast með ólíkindum út á þátttakendur og fáir falla úr leik. (Að mér frátöldum auðvitað.) Þegar Esben féll úr leik um hálf-tvö leytið og eftir voru þrír keppendur (af sjö sem byrjuðum) dró ég mig í hlé og fór að sofa. (Hafði annars sinnt hlutverki fastadílers eftir skipbrot mitt).

Af þeim þremur sem eftir voru áttu tvö að mæta í vinnu um morguninn eftir og sá þriðji átti von á skyldmennum utan af landi fyrir hádegi, þannig að mér er til efs að þau hafi spilað mjög lengi til viðbótar (enda tryggt að öll þrjú myndu endurheimta upphaflega veðmálið sitt - þótt sigurvegarinn fengi auðvitað besta ávöxtun).

Þetta var prýðileg skemmtan. Verst hvað mikið var púað yfir borðinu, maður vaknaði gegnsósa úr reyk í morgun.

Það kæmi mér á óvart ef ég ætti ekki eftir að endurtaka þetta fljótlega, enda þarf ég að æfa mig í að koma upp prófessjónal pókerfési.

Þess má geta að upphæðir fjárhættuspils þessa voru innan allra velsæmismarka, þátttaka kostaði 25 krónur danskar - sem er ígildi eins kranabjórs á miðlungsdýrum bar.

Um hádegið í dag (laugardag) brunaði ég svo upp á meginlandið og hitti þar Ingibjörgu föðursystur mína og "Gumma mág". Ég snattaði með þeim um Strikið og sníkti af þeim hressingar að launum.

Frábært haustveður og fjölmargir í bænum.

Nú er að skella hakki í pott og græja kvöldmatinn, innflutningsteiti hjá bekkjarsystur minni í kvöld.


< Fyrri færsla:
TótiL í grjóti?
Næsta færsla: >
Eftirtektarverð samkoma
 


Athugasemdir (1)

1.

Jón Heiðar reit 05. nóvember 2005:

Tökum í spil þegar þú kemur á klakann eða ef ég kem í Baunaland.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry