Eftirtektarverð samkoma

Í gærkvöldi (lau) fór ég í síðbúið innflutningsteiti hjá Christinu skólasystur minni (sem ég hef unnið slatta af verkefnum með) og kærastanum hennar; Anders. Að vísu er rétt tæplega ár síðan þau fluttu inn, en ég er ekki í neinni aðstöðu til að gagnrýna síðbúin innflutningsteiti. (Ekki svo að skilja að ég muni hvenær ég hélt síðast eitt slíkt.)

Þetta reyndist áhugaverð samkoma.

Christina er með próf í þýsku og "kommunikation" (ef mig misminnir ekki) frá Höndlunarháskólanum. Þótt hún sé enn með pinna í tungunni er langt síðan ég man eftir að hafa séð hana með pinnann undir neðrivörinni. Þegar við hittumst fyrst datt mér í hug að hún væri að vaxa upp úr goth tímabili og núna er hún sífellt að færast nær bississdömulúkkinu.

Anders kærastann hennar hef ég reyndar sjaldan hitt, rétt aðeins að við höfum kinkast á kolli. Hann er myndlistamaður og vinnur að mér skildist í gær í listasmiðju með unglingum (sem honum líkar mjög vel). Hann er með axlarsítt kolsvart hár sem ég er pottþéttur á að er litað, því andlitslitarraftið bendir að öðru leyti til að hann sé að eðlisfari mjög ljóshærður, jafnvel ljósrauðhærður.

Ef hann byggi í Reykjavík er mín tilfinning að hann væri fastagestur á Sirkus (ef það segir þá nokkuð annað en um mína fordóma, enda held ég að ég hafi bara einu sinni komið þangað inn).

Myndir eftir hann eru uppi um alla veggi (ég geri a.m.k. ráð fyrir að þær séu allar eftir hann) - margar mjög flottar, oft dökkar en þó án þess að verða of drungalegar. Sófamálverkið sérstaklega flott, með blöndu af klassísku abstrakt málverki og grafíttítækni.

Hann hef ég aldrei séð jafn leiftrandi glaðan og þegar ég birtist, þótt mig gruni að það hafi haft meira að gera með áfengisinnbyrðingu og almenna ánægju með samkvæmið heldur en endilega mína komu.

Það var ekki erfitt að greina í sundur hvaða gestir tilheyrðu Christinu og hverjir Anders. Gestirnir hennar voru stelpurnar og "snyrtilegu" strákarnir (ég og Jens), að mestum meirihluta úr ITU eða Höndlunarháskólanum. Gestirnir hans uppfylltu hins vegar flest eftirtalinna skilyrða:

  • Karlkyns (ekki spurning)
  • Mjög tattúveraðir (varla án undantekninga)
  • Ýmist með sítt hár eða hanakamb
  • Með hálft stálverkstæði standandi út úr andlitinu
  • Í góðum gír

Lengi framan af kvöldi sátu stelpurnar (og ég) í stofunni meðan rokk- og pönkdrengirnir djömmuðu í miðrýminu/borðstofunni undir stórri diskókúlu með tilheyrandi litahjólslýsingu.

Á því tímabili var einkum í frásögur færandi sófi þeirra skötuhjúa og varasöm martíníglös.

Ein af ástæðunum sem Christina hafði nefnt fyrir því að innflutningsteitishald dróst, var skortur á sófa sem þau væru sátt við. Þegar sófinn svo loxins fannst var hann hvítur og áhyggjur hennar jukust yfir því hvernig honum myndi farnast í trylltum gleðskap.

Hún tók greinilega enga sénsa, því hann var pakkaður inn í plast og teppi sett yfir plastið. Þegar leið á kvöldið sýndi sig að þetta væri skynsamleg ráðstöfun.

Í boðskorti var gestum bent á að taka með eigin drykkjarföng, en þó var á borðum bolla með tilheyrandi voðafínum martíníglösum og bjórkassi (í tengslum við hvurn engin glös voru óhreinkuð). Martíníglösin reyndust hins vegar mjög viðsjárverð og á tímabili horfðu allir gestirnir í stofunni á einlægan aðdáenda bollunnar (sem stóð sig vel í að tryggja að hún færi ekki til spillis) sitja niðursokkna mjög í samræður og hellandi bollunni í linnulitlum straumi yfir glasbrúnina og niður á skóna sína. Allir skiptust á augnagotum, en enginn kunni við að hnippa í ungfrúna - enda líklegt að það yrði til að tæma endanlega glasið.

Ég spjallaði aðeins við þýskugengið og tóxt meðal annars að lauma að gylltu setningunni hennar Ásu: "Ich habe es immer gesagt, das Ich finde Sie sehr nett und freundlich!" við góðar undirtektir viðstaddra.

Upp úr þessu fóru leikar að æsast og á tímabili þegar drengjastóðið var farið að boddíslamma og skoppa í takt lék trégólf allrar íbúðarinnar á reiðiskjálfi og linnti ekki fyrr en húsfrúin byrsti sig og dansiðkendur hættu að hoppa í takt.

Síðar um kvöldið var tekin sviðsdýfa yfir/á tvær skólasystur mínar sem sátu í sófanum og áttu sér enskins ills von. Enginn bar skaða af því, en eitthvað af glasabúnaði valt um koll.

Þegar hér var komið sögu hafði húsbóndi sveiflað hróðugur körfuklæddri rauðvínsflösku með hátt í metersháum hálsi hvar á hvíldi dúkkuhöfuð í raunstærð - ég geri ráð fyrir að það hafi verið innflutningsgjöf - og skartaði gasgrímu hangandi í beltinu.

Ég get ekki sleppt því að minnast á aðdáun mína á hávaðanum sem tókst að framkalla úr tveimur hátölurum í skókassastærð. Stofugræjurnar virtust vera ósköp venjulegar Pioneer græjur, en þeim tókst samt að framkalla úr þessum frekar litlu hátölurum (staðsettum frammi í meginholinu) hávaða sem sómt hefði sér á hvaða diskóteki sem er. Það er a.m.k. tryggt að það svaf enginn nágranni innan tuttugu metra radíuss.

Þrátt fyrir stórkarlalegar lýsingar var þetta prýðilegt teiti (en eilítið gaslaralegt á köflum). Ég var nokkuð stilltur og lét handfylli af bjórum og nokkur bolluglös duga. Það var heldur farið að fækka í mínum kunningjahóp eftir klukkan eitt og ég rölti heim um klukkan að verða tvö. Ég get svo svarið að það var mun hlýrra í lofti þá heldur en þegar ég fór á staðinn um níuleytið. (Christina býr í 10-15 mínútna göngufjarlægð, þannig að þetta var bara rölt.)

Í nótt var svo skipt úr sumartíma yfir í vetrartíma (eða venjulegan tíma eins og það heitir víst). Þannig að klukkan þrjú í nótt varð klukkan skyndilega tvö aftur.

Það var ágætt að sofa fram að hádegi, rumska og vita sem var að klukkan væri "bara" ellefu, til þess að sofna aftur og sofa fram að hinu nýja hádegi.

Ég var alveg laus við þynnku, en heldur var þetta nú letilegur dagur - sem einkum einkenndist af vefrápi og langri hressingargöngu um Amagur.

Jú og svo eru silfurskotturnar búnar að jafna sig á drama tour-de-chambre helgarinnar og farnar að láta sjá sig aftur. Líkt og áður liggur við slíku athæfi dauðarefsing.

Ég var næstum farinn að sakna þeirra...


< Fyrri færsla:
Pókerfés óskast
Næsta færsla: >
Hitt og þetta, aðallega hitt
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry