Stílbrigði

Undanfarna daga hef ég verið að leggja drög að útliti á boltaleikinn víðfræga, en eins og lesendur hafa eflaust tekið eftir var umgjörð fyrstu útgáfu mjög af mínimalískara taginu.

Eftir að hafa slefað yfir því sem Siggi er að gera í flash-kúrsinum (ekki þessi Siggi, heldur þessi Siggi) ákvað ég að prófa að búa til umgjörð um leikinn í "cartoon"-stíl.

Áðurnefndur Siggi er að vinna í leik þar sem þessi karakter mun hoppa, skoppa og skjóta.

Eftir að hafa fengið tips frá Sigga um hvernig maður nær fram misþykkum línum utan um fleti í Flash, ákvað ég að prófa að teikna bakgrunninn upp með þeirri aðferð. Trikkið er í raun glettilega einfalt; fyrst teiknar maður flötinn í svörtu, afritar hann síðan í nýtt layer og setur á hann annan lit, lox minnkar maður litaða flötinn niður og teygir hann og togar þar til réttri áferð er náð.

Teiknað í þessum stíl er bakgrunnurinn minn farinn að líta svona út (litir eru til algerra bráðabirgða):

Tillaga að bakgrunni

Eins og sést er ég líka búinn að teikna upp "stökkmælinn" og fyrst maður er kominn í teiknimyndastílinn finnst mér upplagt að brjóta reglur raunveruleikans og leyfa nálinni að fara lengra en í botn. (Þetta mun auðvitað njóta sín betur í fullri stærð).

Grænu "ljósin" fyrir neðan mælinn er ætlunin að nota í þeim tilvikum þegar leita á að fjórum földum boltum.

Þessi stíll einfaldar líka höfuðverk sem ég hef verið með, þ.e. hvernig ég bý til trúverðuga sprengingu í Flash. Ein boltatýpan (sem ég er að byrja að forrita) getur nefnilega sprungið í lopt upp.

Í þessum stíl þarf ég ekki lengur að huxa um trúverðugleika, heldur get búið til "teiknimyndaský" sem ég set svo líf í:

Tillaga að sprengingu

Ég gæti meira að segja bætt við "BOOM" til að gera þetta enn meira cartoon-legt:

Önnur tillaga að sprengingu

Þessi ákvörðun þýðir líka að ég þarf að velja leturgerð í stíl. Til þess fór ég á 1001 Fonts.com og grúskaði í Cartoon fontunum þeirra. Eftir töluverðar pælingar ákvað ég að prófa fyrst um sinn A.C.M.E. Secret Agent, þótt hann sé reyndar bara til í hástöfum.

Flottasta leturgerðin (sem ég ákvað að nota samt ekki) er án efa Swingset BB. Innblástur að BOOM-inu kemur frá Creative Block BB.

Þessi stíll veldur reyndar ákveðnum vanda, eina grafíkin sem ég þóttist vera búinn að fullvinna, þ.e. boltarnir sjálfir, eru svolítið út úr kú í augnablikinu. Kannski þarf ég að gera þá örlítið "barnalegri" í útliti.

Prufuútgáfa af leiknum í sinni þáverðandi mynd gæti birst hér um eða eftir miðja viku.


< Fyrri færsla:
Bjór og bolti
Næsta færsla: >
Kjaftshögg hins kalda veruleika
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry