Bugaður af brigðum vona

Hér sit ég hjúpaður í teppi og er að reyna að jafna mig eftir vonbrigði dagsins; það var enginn Lost þáttur í sænska sjónvarpinu í kvöld! Ég er miður mín og sé ekki fram á að geta gert neitt af viti í kvöld (enda er klukkan að skríða í ellefu).

Eins og venjulega á miðvikudögum mætti ég í fyrstu kennslustund vikunnar kl. 17. Rúmlega sjö var svo komið að því að vinna verkefni vikunnar og samkvæmt venju vorum við öll punkteruð í hópnum. Það er lygilegt hvað síðdegistímar geta verið þreytandi - sérstaklega miðað við að maður situr bara á rassgatinu í tvo tíma.

Við ákváðum því eftir stuttan fund að halda hvert til síns heima og kíkja á verkefnið þar. Það kemur svo í ljós hvort við skilum því - persónulega finnst mér varla taka því, heldur réttara að skrá bara það sem við finnum beint í lokaskýrsluna okkar.

Ég var því kominn heim rúmlega átta, étti bollasúpu og samlokurnar sem ég hafði smurt mér til að taka með í skólann og settist svo niður fullur tilhlökkunar til að horfa á Lost.

Þegar kynnirinn tilkynnti að þar sem serían hefði tekið þriggja vikna hlé í Bandaríkjunum yrði ekki sýndur þáttur í þessari viku, var ég hreinlega í losti.

Fixið ætti þó að skila sér í næstu viku, það verður víst ekki nema einfalt messufall.

Ég er enn miður mín og sé ekki fram á að gera neitt af viti í kvöld - annað en að fara huxanlega tiltölulega snemma að sofa.

Kannski ég geri fyrst smá úttekt á stabilítet nettengingarinnar með því að spila smá póker. Ég hef aðeins gripið í að spila á netinu fyrir svefninn (oft með annað augað á sjónvarpinu) við og við undanfarna viku. (Hafðu engar áhyggjur mamma, ég spila bara með platpeninga!)

Hingað til hafa þessar setur verið mjög stuttar af óhjákvæmilegum orsökum - ég er einfaldlega svo fljótur að tapa platpeningaskammti dagsins (það er takmarkað hvað má fylla oft á sólarhring). Nú eða að netsambandið hefur hindrað mig í að tapa öllu mínu plati og hreinlega hrakið mig frá leikum. Það er að minnsta kosti ljóst að það er ekki fyrir atvinnumenn að spila póker frá kollegíum, sambandið á það til að rofna á verstu tímum og vera lengi að detta í lag aftur.

Í gærkvöldi brá hins vegar svo við að ég hætti í plús eftir nokkuð varkára spilamennsku þar sem mér tókst að fá einstakar góðar hendur. Þannig að ég held að ég sé heila 400 platdollara í plús! (Sambandið rofnaði nokkrum sinnum - en sjaldnast katastrófalt.)

Ekki svo að skilja að ég sé fallinn fyrir þessu, en ef valið stendur milli þess að vera heiladauður yfir imbanum og að þurfa aðeins að dusta rykið af hugarreikningnum - held ég að það sé hollt að grípa aðeins í spil.

Sagði einhver veruleikaflótti?


< Fyrri færsla:
Kjaftshögg hins kalda veruleika
Næsta færsla: >
Kúnstin að selja sjálfan sig
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry