Kjaftshögg hins kalda veruleika

Ég áttaði mig skyndilega á því að önnin er að verða búin. Það eru ekki nema rétt rúmlega tvær vikur þar til ég þarf að skila Flash-leiknum og þar með lýkur hefðbundnu námi mínu hér í ITU og "ekkert nema" verkefnavinna eftir.

Auðvitað hef ég vitað að fyrirlestrahluta námsins lyki í lok nóvember, en þar sem mér finnst nóvember vera nýbyrjaður hafði ég einhvernvegin á tilfinningunni að ég hefði rétt tæplega mánuð til stefnu. En frá 9. til 25. eru víst ekki nema rétt rúmar tvær vikur.

Fyrir þá dagsetningu þarf ég auk leiksins að skila hópskýrslu í Usability. Þar erum við aðeins á eftir áætlun, en við hittumst í gær og deildum skýrslunni upp í 6 hluta.

Ég er byrjaður (og langt kominn) með minn hluta og vonast til að þetta gangi nokkurn vegin snuðrulaust fyrir sig. Þótt það sé reyndar óhjákvæmilegt að einhver höfuðverkur fylgi því að sex manneskjur skrifi sameiginlegt skjal, er bót í máli að þetta er ekki skýrsla sem við fáum beina einkunn fyrir. Við þurfum bara að skila skýrslunni til okkar "viðskiptavinar" og halda munnlega kynningu á niðurstöðunum fyrir samnemendur okkar (auk þess að við eigum líka að kynna niðurstöðuna fyrir viðskiptavininum).

Þetta er því bara spurning um að búa til skjal sem við erum nægilega sátt við, ekki verður ætlast t.d. til þess að við stöndum skil á því í prófi.

(Áður en lengra er haldið er hér smá spurning þessu algerlega ótengd: Hver er stærsta sprenging af mannavöldum ef kjarnorkusprengjur eru ekki taldar með? Svarið birtist neðar og kemur líklega á óvart.)

Af sextán vikum og pabba

Eftir skilin þann 25. mun ég einbeita mér að því að klára sextán vikna verkefnið mitt um útsendingar í handheld tæki (farsíma og þess háttar). Þar er tíminn líka að stríða mér aðeins, ég hafði gælt við að vera með alla heimildaöflun á hreinu þann 25. og leggjast svo í hreinar skriftir í verkefnamánuðinum sem á eftir fer.

Heimildasöfnun miðar svo sem þokkalega áfram, en er þó hvergi lokið. Það reddast.

Svo er pabbi að koma í vikuferð til Köben næsta mánudag. Ég mun taka mér smá frí einhverja dagparta og stúdera borgina og nágrenni með honum.

Ég hafði reyndar vonast til að vera betur afslappaður í námsframvindu þegar hann kæmi, en það er ekkert til að barma sér yfir. Ég vinn þessi frí bara upp með því að bannfæra þynnkudaga!

Forjólafarganið

Það er líkt hér og heima á klaka að jólafargan verslana dynur allt of snemma á. Ég hef þó á tilfinningunni að Danir séu örlítið seinna í því en Íslíngar - en held samt að munurinn sé innan skekkjumarka.

Í matvörubúðinni á horninu birtist rekki fullur af jólaskrauti og glimmer í byrjun nóvember og þegar ég skaust í Amager Center í gær (kaupti þar hraðsuðuketil) sáust greinileg merki jólafirringarinnar.

Í sjónvarpsfréttum um daginn voru vegfarendur spurðir út í þetta. Flestir voru sömu skoðunar og ég að þetta væri of snemmt, en einn sagðist vera byrjaður að afrita jólalög yfir í MP3 spilarann sinn!

Sumt fólk hefur einfaldlega fyrirgert rétti sínum til að vera tekið alvarlega!

Eina jólatengda auglýsingu er mér hins vegar sönn ánægja að birta hér og reka áhróður fyrir:

Jólaævintýri Hugleiks

Hugleikur frumsýnir sem sé jólaævintýri sitt 19. nóvember. (Miðapantanir).

Ég hef fylgst með meðgöngu verksins á dagbók þess og er sannfærður um að þetta verður hin prýðilegasta skemmtan.

Það gleður líka mitt litla hjarta að sjá að það verða sýningar "milli jóla" sem ég get að öllum líkindum mætt á, enda verður Egilsstaðadvölin venju fremur stutt og ég kem suður að kvöldi 27. des.

Reyndar ætti ég að læra af reynslunni og drífa mig í að tryggja mér miða. TótiL hnippti í mig og benti mér á að á föstudag verður "Screaming Masterpiece" (Gargandi snilld) sýnd í Vega og á eftir verða tónleikar með Apparat. Ég trassaði það að bóka miða og nú er orðið uppselt á myndina. Hins vegar er ég kominn með miða á tónleikana og held að þeir verði hin prýðilegasta skemmtan.

Yfirvofandi stafrænn uppskurður

Leikjaforritun mjakast áfram, en ég er að horfast í augu við það að róttæks uppskurðar er að verða þörf. Þar sem ég vissi (auðvitað) ekkert út í hvað ég var að fara er smám saman að koma í ljós að sú uppskipting á forritunarkóðanum sem ég lagði af stað með er ekki lengur að ganga upp.

Annað hvort er því að tjasla viðbótum á gömlu beinagrindina með teipi, eða umstokka í ljósi reynslunnar. Ég er hræddur um að það muni reynast tímafrekt, en held að það sé ekkert annað að gera í stöðunni - nú væri hins vegar gott að vera með örlítið meiri reynslu af hönnun hugbúnaðarverkefna (nú eða bara einhverja reynslu...)

Það dregst því aðeins að birta nýjustu birtingarmynd leiksins hér.

Ketill hraðsuðunnar

Líkt og áður er ýjað að keypti ég mér hraðsuðuketil í gær (99 DKK), þannig að nú er ég hættur að sjóða vatn í potti til að fá mér tebolla. Það er reyndar með ólíkindum hvað það myndast hratt kalkbrák í vatnsyfirborðinu þegar maður sýður danska vatnið og það blasir við þegar maður sýður "tómt vatn" í svörtum potti.

Ketillinn er með einhverju ógurlegu sigti, veit ekki hvort það er til að grípa kalkið eða bara til að vera með stæla.

Þetta er þar með fyrsta heimilistækið sem ég kaupi hér í útlandinu síðan ég keypti DVD spilara síðasta vor. Ég tel nýja tölvuskjáinn minn ekki til heimilistækja (en greinilega DVD spilarann...)

Gassprengingin stóra

Svarið við áðurviðraðri spurningu um stærstu sprengingu af mannavöldum:

Sumarið 1982 varð sprenging í gaskerfi þáverandi Sovétríkjanna í Síberíu. Ástæðan var að KGB hafði stolið stýringu kerfisins frá Bandaríkjamönnum, sem höfðu hins vegar laumað forritunarvillu með í hugbúnaðinn með þessum afleiðingum.

Sprengingin var það stór að hún var numin af njósnagerfihnöttum og á tímabili héldu Kanarnir að þetta væri stórvægilegt eldflaugaskot. Sumir spekingar vilja meina að þetta áfall hafi verið upphafið að hruni Sovétríkjanna og lokum Kalda Stríðsins.

Sjá nánar á MSNBC. Ég rakst á þetta á lista Wired yfir verstu hugbúnaðarbögga sögunnar. Fróðlegt.

Ekki mun hafa orðið manntjón í sprengingunni, en Rússinn sem upphaflega lak því í vesturveldin hvað KGB væri að fást við var síðar tekinn af lífi.


< Fyrri færsla:
Stílbrigði
Næsta færsla: >
Bugaður af brigðum vona
 


Athugasemdir (2)

1.

Mardí reit 09. nóvember 2005:

Ég lagði KGB söguna á heilann til þess að geta sagt hana í partýum, tímum, út á strætóstoppistöð og á Tyru-kvöldum og víðar þar sem vöntun er á umræðuefnum. Takk fyrir það ;)

2.

Þórarinn sjálfur reit 09. nóvember 2005:

Einlæg og fölskvalaus ánægja þín gleður mig mjög, systir góð.

Ég hef þá trú að þú verðir hvarvetna hrókur alls fagnaðar og frásagna með gassprenginguna í farteskinu.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry