Kúnstin að selja sjálfan sig

Nú stendur yfir ITU Match Making hér í skólanum, þar sem upplýsingatæknifyrirtæki reyna að kynna sig fyrir hugsanlegum framtíðarstarfsmönnum og við nemarnir reynum að fegra okkar eiginleika og selja fyrirtækjunum okkur sem starfsmenn.

Ég hressti upp á ferilsskrána í gærkvöldi og ljósritaði nokkur eintök til að mæta með í farteskinu.

Það er alltaf svolítið erfitt að setja stimpil á eigin hæfileika, en reglan segir að hógværð eigi ekki við í sívíum (nema í miklu hófi) - þannig að hugtökum eins og "excellent", "extensive" og "very good" er spreðað rausnarlega um sívíið.

Nú er ég búinn að taka rúntinn og spjalla við á að giska helminginn af þeim 15 fyrirtækjum sem eru með bása hér. Ég reyni að selja mig sem einhvers konar ráðgjafa skástrik altmuligtmand og heyra hvernig fulltrúar fyrirtækjanna bregðast við slíku.

Ég spjallaði við strák sem er hérna í námi og ég kannast við úr kúrsi á síðustu önn. Hann súmmeraði þetta ágætlega upp; það eru allir bjartsýnir og svotil engar líkur á öðru en við getum valið úr vinnutilboðum þegar kemur fram á haustið. Það er líka sú tilfinning sem ég fæ, enginn stekkur til og býður jobb med det samme (kannski skiljanlega) en allir jákvæðir gagnvart því að maður sendi þeim síví og/eða línu í tölvupósti.

Það er helst að maður reyni að meta þá af glansbæklingunum (sem allir flagga innihaldslitnum þysyrðum (e. buzzwords) (þysyrði er skv. Google glænýtt nýyrði)), gjöfunum og namminu. Klassískar gjafir eru auðvitað pennar með lógóum og svo fékk ég voða fínt geisladiskaveski frá NNIT - verst að ég nota eiginlega aldrei geisladiska (eins og Siggi (Jr.) benti á eru geisladiskaveski svolítið mikið "last year").

Eftir að hafa spjallað við nokkur af risastóru ráðgjafarfyrirtækjunum þar sem nýliðar fara oft inn í fyrirfram ákveðið ferli, kannski jafnvel 1,5 ár áður en þeir fá fastráðningu, var hressandi tilbreyting að spjalla við CONGIN sem gefa sig út fyrir að vinna við "Dramatic Content Engineering".

Þeir eru lítið fyrirtæki (raunar staðsettir hér á efstu hæðinni) sem fæst við að búa til dramatískt innihald, þ.e. byggt á frásagnar- eða söguframvindu, fyrir alla mögulega miðla (vef, prent, spil, hljóð).

Þeirra hlutverk er hugmyndavinnan og að tengja saman grafíkera, höfunda og forritara, auk þess að verkstýra framleiðslunni. Þeir eru því hvorki forritarar né grafíkerar heldur einbeita sér að frásagnarhlutanum og utanumhaldinu um ferlið, en hafa net sjálfstæðra framleiðsluaðila sem þeir geta gripið í.

Framkvæmdastjórinn er með próf í kvikmyndafræðum, en aðrir starfsmenn eru útskrifaðir héðan frá ITU (þeir munu vera um 5 í augnablikinu). Aðspurður sagðist hann vonast til að fyrirtækið verði e.t.v. orðið af stærðargráðunni 10 starfsmenn að ári.

Ég fékk á tilfinninguna að stemmningin væri kannski ekki ósvipuð og hjá Gæðamiðlun á sínum tíma, og þar sem það er skemmtilegasta vinnustemmning sem ég hef enn upplifað lít ég á það sem jákvæða tilfinningu.

Að minnsta kosti geri ég ráð fyrir að senda framkvæmdastjóranum póst á næstunni og sjá hvort ég get ekki reynt að gera hosur mínar grænar fyrir þeim. Hins vegar þarf ég kannski annars konar síví en ef ég væri að sækja um í einhverju af jakkafataráðgjafarfyrirtækjunum - frekar að stæra mig af textasmíðum og jafnvel leikhústilþrifum, heldur en forritunarhæfileikum.

Niðurstaðan er a.m.k. sú að ákveði ég í sumar að reyna að kýla á vinnu hér í DK ætti það ekki að vera mikið mál...


< Fyrri færsla:
Bugaður af brigðum vona
Næsta færsla: >
Apparat með myntubragði
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry