Apparat með myntubragði

Á föstudaginn fór ég á mína fyrstu tónleika hér í Köben, orgelkvartettinn Apparat á Litlu Vega. (Það er auðvitað hneyksli að vera ekki duglegri að sækja menningarviðburði hér í stórborginni - það er til dæmis af nógu að taka bara á Vega á næstunni.)

En viðfangsefni þessa pistils eru ekki þeir tónleikar sem ég hef misst af (og á eftir að missa af), heldur þeir sem ég fór á síðastliðinn föstudag.

Eftir að hafa reynt fyrir mér með sölumöguleika sálar minnar og rætt við væntanlegan lokaverkefnispartner, Emilie, um plan B (sem hefur ekkert með upplýsingatækni í heilbrigðiskerfi að gera) bretti ég upp hettuna og arkaði heim í rigningunni til að búa mig í forteiti.

TótiL og Auja höfðu boðað til kokteilboðs að heimili sínu sem upphitun fyrir tónleikana. Þar var boðið upp á Móhítóa í stórum stíl og þegar ég mætti á svæðið var þar mikið hlaðborð með hráefnum til drykkjargerðar; rommi, myntuskógum, sódavatni, sykri og öðru sem til móhítóagerðar heyrir.

Þetta var hið prýðilegasta teiti, sem sést kannski best á því að flestallir ákváðu að slaufa myndinni (Gargandi snilld) sem þau voru þó með miða á, og stefna þess í stað bara á tónleikana. Það hentaði mér prýðilega, enda var uppselt á myndina þegar ég keypti miðann minn.

Gestirnir voru á að giska 15, en tókst samt að slátra 6 flöskum af rommi og það án þess að nokkur virtist áberandi drukkinn! Við veltum því fyrir okkur síðar um kvöldið hvort einhver gesturinn hefði kannski drukkið stíft, drepist undir borði og gleymst. Sú tilgáta hafði þó ekki fengist staðfest síðast þegar fréttist.

Myndulaufin voru ekki spöruð og maður var plokkandi þau úr tönnunum á sér langt fram eftir nóttu.

Í leigubílnum á tónleikana var svo reynt að sannfæra bílstjórann um að við færum Finnar og reyndum að fá hans skoðun á Íslendingum...

Dönsk stundvísi brext

Þegar við komum svo á Vega, kortéri áður en tónleikarnir áttu að hefjast, kom í ljós að uppselt var orðið á tónleikana og að vegna tafa yrði ekki byrjað að hleypa inn fyrr en kortér yfir 10 (skv. dagskrá átti að hleypa inn frá hálf-tíu og tónleikarnir að byrja tíu).

Þarna fyrir utan hitti ég Aðalstein og Gunni sem voru þar með kunningjum sínum. Veðrið var leiðinlegt með rigningardrullu og partýið flúði að mestu inn á nærliggjandi bar, en ég stóð í skjóli og spjallaði við þau skötuhjú og stúderaði mannlífið.

Þetta var óneitanlega ákveðin Laugavegsstemmning, íslenska var áberandi tungumál í röðinni og sveitamannabragurinn sást á því að samtöl áttu það til að eiga sér stað á hjólaakreininni - með tilheyrandi bjölluhringingum og formælingum aðvífandi hjólakappa.

Það var svo ekki fyrr en um hálf-ellefu að dyrnar voru opnaðar, en þá mjakaðist röðin svo hægt af stað að ég leitaði uppi partíið og við sötruðum bjór þar til raðarlengdin var orðin viðráðanlegri og skelltum okkur þá inn.

The gig itself

Apparatar voru byrjaðir þegar við komum í salinn, en ég held samt að við höfum komið á fyrsta lagi þannig að við misstum ekki af miklu.

Litla Vega stendur undir nafni, en baunar höfðu blessunarlega ekki selt fleiri miða en svo að salurinn var þétt staðinn - frekar en troðinn (ég áttaði mig á því að ég hafði komið í þennan sal áður - þá sem litla dansgólfið á næturklúbbnum Vega).

Þetta var í fyrsta sinn sem ég fer á tónleika með Apparat(i) og hef hingað til í mesta lagi heyrt einstaka lag í útvarpi, þannig að ég er ekki til frásagnar um það hvernig frammistaða þeirra var miðað við fyrri afrek (né heldur þekkti ég nein lög).

Hljóðið fannst mér reyndar töluvert vanstillt, trommurnar og bassatónar voru af passandi styrk fyrir rokktónleika, en háu tónarnir voru allt of ... háir. Og þar sem í flestum lögum er að minnsta kosti ein rödd sem spilar á tónsviði Nokia farsímahringinga (og áttundinni þar fyrir ofan) orsakaði þetta að ég var fljótlega kominn með smá hlustarverk og hellu.

Það spillti þó ekki ánægjunni af tónleikunum sem voru bráðskemmtilegir.

Sviðsframkoma þeirra kumpána er skonduglega minimalísk (enda eru þeir óhjákvæmilega heldur statískir inni í tækjaskóginum) - en trommarinn hélt uppi ekta metaltilþrifum á settið (fyrir þá sem á annað borð sáu glytta í hann).

Trommarinn er einmitt lykilatriði í rokki Apparats, án hans hef ég grun um að maður myndi upplifa hljómsveitina sem fjóra sérvitringa að leika sér á gamlar græjur, með honum er þetta rokkhljómsveit.

Það var ekki alltaf auðvelt að sjá hver var að taka sóló hverju sinni (eða bara að stilla græjurnar fyrir næstu roku) en maður gat þó leitt að því líkum að sá sem var að fara úr jakkanum eða kveikja sér í vindli væri líklega ekki að gegna lykilhlutverki á því augnabliki. Það væri kannski skemmtilegt að hafa litla myndavél ofan við orgelin og geta sýnt á tjaldi hvað er að gerast þar sem públikum sér ekki til.

Áhorfendur voru almennt í góðum gír og þótt ég yrði ekki var við að neinn gengi berserksgang í boddíslammi, var stór hluti sem sýndi danstilþrif í kyrrstöðu. Sjálfur iðkaði ég linnulitlar höfuðkinkingar með tilheyrandi skrokkdýfum þegar rokk jókst.

Apparat í boði thorarinn.com

Maður stæði varla undir nafni sem framsækinn vefmiðill (hóst) ef möguleikar tækninnar væru ekki fullnýttir til að gefa lesendum nasaþef af því sem um ræðir.

Google leit í gær fann upptöku með þeim kumpánum frá júlí 2003, í þætti Scott Williams á netútvarpinu WFMU.

Til að hlusta þarf að opna straum af þættinum (Real Media). Síðan er hægt að grípa í tímastikuna og spóla áfram þar til á að giska 1 klst. og 25 mínútur eru liðnar af þættinum. Þetta er um það bil hálftíma upptaka - og gefur smá innsýn í hvernig tónleikarnir á föstudaginn voru. (Þótt þessi upptaka sé tekin upp í hljóðveri).

Ég get a.m.k. mælt með Apparat tónleikum fyrir þá sem hafa gaman af rokki með örlítið öðruvísi formerkjum.

Eða með orðum skáldsins:

Stereo, rock 'n' roll.
Stereo, rock 'n' roll.
Stereo, rock 'n' roll.
Gimme rock 'n' roll in stereo!

Post konsertus

Að tónleikum loknum var vissulega freistandi að sletta úr klaufunum í góðum félagsskap, en sjálfsaginn varð skemmtanaþorstanum yfirsterkari - enda brýn nauðsyn á effektífum laugardegi við verkefnavinnu. Ég deildi því leigubíl með Caroline og var kominn heim rúmlega eitt.

Laugardagurinn fór svo í forritunargrúsk dauðans, en sá pistill bíður betri tíma.


< Fyrri færsla:
Kúnstin að selja sjálfan sig
Næsta færsla: >
Balls 0.6
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry