Balls 0.6

Hér með er gerð opinber nýjasta prufuútgáfa af boltaleiknum ógurlega, útgáfa 0.6. Við hafa bæst grafík, stigaútreikningar og sprengingar! Lesendur eru hvattir til að spreyta sig og senda mér athugasemdir.

Ég hef setið við fram undir klukkan tvö bæði aðfaranótt laugardags og sunnudags við að stússast í leiknum og honum mjakar jafnt og þétt áfram. Ég er langt kominn með að setja á hann grafík og er kominn með drög að stigaútreikningum. Enn á þó eftir að fínpússa margt, s.s. bakgrunnsliti og útlit boltanna sjálfa.

Prófið: BALLS 0.6 !

Leikurinn virkar bara í Flash spilurum 7 og nýrri. Hann tekur smá stund að hlaðast (ca. 50K), ég á eftir að búa til "loading..." skilaboð.

Hugmyndin er að í endanlega leiknum verði hægt að velja um þrjár leikútgáfur; borð sem felast í þrautum, borð sem felast í hraða og loks blöndu af hinum tveimur. Í þessari prufuútgáfu eru bara sýnishorn af því hvernig þrautaborðin gætu litið út.

Athugasemdir lesenda eru vel þegnar. Einkum vantar mig að stilla stigaútreikninginn, þannig að ef einhver nennir að skrá hjá sér stigin á hverju borði og setja í athugasemdakerfið væri það vel þegið. T.d. "97, 120, 81, ..." (borðin eru alls 10).

Ég á erfitt að meta stigaútreikningana út frá sjálfum mér, enda hef ég samið borðin og veit nokkurn vegin í hverju trixin felast.

Svo vil ég gjarnan fá athugasemdir um það hvort klukkan hægra megin virkar of truflandi. Ég vildi setja eitthvað sem sýnir að tímatakan fer ekki í gang fyrr en fyrsti bolti er snertur (þannig að maður hefur tíma til að skipuleggja sig). Það gæti ég kannski líka leyst með einhvers konar on/off ljósi?

En góða skemmtun!


< Fyrri færsla:
Apparat með myntubragði
Næsta færsla: >
Athugasemdum um bolta svarað
 


Athugasemdir (11)

1.

Margrét reit 14. nóvember 2005:

úff ég hef ekki þolinmæði í þetta, að skipuleggja mig áður en ég lagði af stað var ekki minn tebolli. En þetta lítur vel út. On off takki gæti komið vel út en klukkan truflaði mig ekki.

2.

Þórarinn sjálfur reit 14. nóvember 2005:

Þetta var kannski ekki nógu vel orðað hjá mér, það ætti ekki að þurfa að leggja í djúpar pælingar áður en maður byrjar, en ég vil geta sýnt að maður getur tekið tíma í að spá í hvað borðið gengur út á - án þess að hafa áhyggjur af klukkunni.

Svo má benda á að þar sem þetta er "þróunarútgáfa" er hægt að spóla áfram án þess að klára hvert einasta borð þar til maður finnur eitthvað spennandi! (retry - next level).

Ég mæli t.d. með að lágmarki að prófa eitt af sprengjuborðunum - þau byrja á level 5.

3.

vælan reit 14. nóvember 2005:

leikurinn stórskemmtilegur en mér finnst nafnið Balls the Flash game alveg sérstaklega skemmtilegt líka ;)

4.

ágúst ævar gunnarsson reit 14. nóvember 2005:

bomburnar eru skemmtilegar, minnir svolítið á leikin hvað nú heitir aftur í pésunum. var með svona sprengjum sem var skemmtilega irriterandi ...

5.

Gísli reit 14. nóvember 2005:

166, 93, 174, 128, 127, 316, 284, 361, 78, 73.
Klukkan plagar mig ekki neitt. A.m.k. ekki núna þegar ég veit til hvers hún er.

Var ekki alveg að fatta fyrstu sprengjuborðin í fyrstu (líklega borð nr. 3 og 4), spurning um að bæta leiðbeiningarnar þar.

Hugmynd að viðbótum:
Hafa High Score lista og hámarksfjölda "lífa".

Annars bara allt í gotti.

6.

Siggi hennar Huldar reit 14. nóvember 2005:

Tek undir med Gísla, High score er must!

7.

Óskar Örn reit 14. nóvember 2005:

Sammála því að high-score tafla væri skemmtileg. Svo er eitt: ég er kannski alger sauður en ég átta mig ekki alveg á hvaða tilgangi skjálftamælirinn á vinstri kantinum þjónar. Jú, hann fer allur á ið þegar boltarnir skoppa en á maður e-ð að geta nýtt sér hann?? Ef þetta er eitthvað algerlega augljóst þá var ég auðvitað löngu búinn að fatta það og var bara að grínast með þessa spurningu en ef ekki þá mætti skaparinn leiða mig í sannleika.
Annars er þetta dúndurskemmtilegt hjá þér kallinn minn! Held að þú sért alveg á réttri hillu í svona skapandi forritunarvinnu. Sameinar allt það besta í þér. Og nú máttu hafa mig afsakaðan á meðan ég kasta upp yfir eigin væmni....!

8.

Gísli aftur reit 14. nóvember 2005:

Stóðst ekki mátið að prófa aftur...
Þetta var víst ekki alveg rétt sem ég sagði síðast, það var borð 5 sem ég var ekki að fatta út á hvað gengi. Mér er nefninlega sagt að fjarlægja sem flestar kúlur af borðinu (er það ekki annars?), en það er ekkert talað um að ég eigi að gera það á sem skemmstum tíma. Ég nefninlega hreinsaði borðið vel og vandlega og skildi bara örfáar kúlur eftir og fékk 0 stig, en í Replay á miklum hraða og litlum pælingum skildi ég eftir fleiri kúlur á borðinu en fékk miklu fleiri stig. Tilvijun???

9.

Ella reit 15. nóvember 2005:

Þar sem ég er forfallinn Flash leikjasjúklingur (af þessu tagi) er þetta brillíant leikur. 103, 73, 72, 54, 200, 460, 420, 180, 57, 58. Það sem fór mest í taugarnar á mér var hve BOMB fídusinn var lengi í gangi (þó hann sé flottur og allt það). Ef maður er t.d.búinn að plana borðið er ekkert auðvelt að gera það hratt því BOMB-ið er svo lengi í gangi. Svo er ég sammála fyrri ræðumönnum um stigaspjald. Alltaf gaman að auka keppnisandann!

10.

Þórarinn sjálfur reit 15. nóvember 2005:

Kærar þakkir fyrir allar ábendingar. Þeim athugasemdum sem þegar hafa borist er svarað í nýjustu færslunni.

Áfram er tekið við ábendingum, annað hvort hér eða við nýju færsluna.

11.

Alli reit 15. nóvember 2005:

Skemmtilegur leikur, en ég er líka svo mikið fyrir boltaíþróttir. :)
141, 84, 75, 51, 155, 183, 428, 227, 50, 80.
Einbeitti mér svo mikið að boltunum að ég bara tók ekkert eftir skjálftamælinum og klukkunni. Pirraði mig helst að þegar ég setti eina bombu í gang þá hafði ég tíma til að færa bendilinn á næstu bombu en hún sprakk ekki nema ég færði bendilinn aðeins til, af henni og á aftur. Annars ikke noget som helst.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry