Athugasemdum um bolta svarað

Útgáfan Balls 0.6 hefur fengið heilmikil viðbrögð (sem er alveg frábært fyrir lokasprettinn sem nú fer í hönd). Frekar en að prjóna við svarhalann við færsluna frá í gær, ákvað ég að skrifa frekar sér færslu og svara þeim athugasemdum sem ég hef fengið og útskýra aðeins hvers vegna hlutirnir eru (ennþá) eins og þeir eru.

Ég reyni að svara nokkurn vegin í þeirri röð sem athugasemdirnar bárust.

Margréti þótti til of mikils mælst að þurfa að skipuleggja aðgerðir. Því er til að svara að þetta er "puzzles" hlutinn af leiknum - fyrir liggur að búa til a.m.k. 10 önnur borð sem byggja næstum eingöngu á hraða.

Hallveig hrósaði nafninu, þess má geta að það er að hluta til innblásið af öllum kvikmyndunum sem gerðar hafa verið eftir tölvuleikjum og heita eitthvað í líkingu við "Flesmu - the movie". Einnig er rétt að nefna "America (the book) (the audiobook)" sem áhrifavald.

Gísli er ekki alveg sáttur við stigagjöfina á hreinsiborðunum (sjá stigaspjall síðar í þessari færslu), auk þess sem hann og fleiri lýsa eftir High Score lista (líka meira um það síðar).

Óskar Örn (sem ég vona að sé búinn að hysja höfuðið aftur upp úr æludallinum) potar í svolítið auman blett - þ.e. stökkmælinn á vinstri vængnum. Sá mælir var eitt það fyrsta sem ég setti inn í leikinn (aðallega sem fyrstu tilraun til að tengja saman það sem væri að gerast á borðinu, þ.e. fjölda stökka, annars vegar og teljara sem hægt væri að nota í stigaútreikning hins vegar). Í þessum 10 "þrautaborðum" er hins vegar engin þörf fyrir hann, þótt mér finnist hann enn ógisslega flottur (í þessari útgáfu er tæknilega séð hægt að setja mælinn rúmlega í botn, mér fannst það fyndið fiff - þótt ólíklegt sé að nokkur muni nokkurn tíman taka eftir því).

Sem samviskusamur hönnuður verð ég að meta hvort hraðaborðin (sem ég á eftir að hanna) hafa einhverja þörf fyrir stökkmælinn. Ef ekki fær hann að fjúka.

Ella kvartaði svo yfir því hvað langan tíma tæki að virkja BOMB fídusinn. Þar er aftur hönnunarákvörðun sem ég vissi að hefði kosti og galla, nánar um hana eftir komandi millifyrirsögn.

Eftirfarandi mun ég reyna að skrifa á eins lítt tæknilegu máli og ég get, endilega skiljið eftir athugasemdir ef mér tekst ekki að gera mig skiljanlegan. Here goes...

Síðbúnar bombanir

Fyrst þegar ég bjó til BOOM "animasjónina" (hreyfimyndina) var hægt að búa til nýjar sprengingar jafn ört og maður gat smellt á ferskar bombur, þannig var alveg hægt að hafa hátt í tuttugu sprengingar í einu.

Gallinn er hins vegar sá að hreyfimyndin (sem tekur rúmlega tvær sekúndur í flutningi) er frekar "þung", með mörgum lögum sem eru mismunandi gegnsæ og reyna á reiknigetu tölvunnar. Þess vegna gerðist það að allur leikurinn hægði á sér ef margar sprengingar voru í gangi í einu.

Núna haga sprengingarnar sér því á tvo vegu;

  • Á venjulegu borði (þar sem sprenging þýðir að maður er "dauður") slekk ég á öllum boltunum (svo ekki sé hægt að fá stig eftir dauðann), hreyfimyndin fer í gang, boltarnir sem eiga að hverfa eru fjarlægðir og eftir smá bið (til að tryggja að menn taki nú örugglega eftir flotta sprengigígnum) kemur upp skiltið "Oh dear..."
  • Á sprengjuborðunum gerist það sama, nema að boltarnir verða aftur virkir um leið og sprengiskýið er komið í þá stærð að það þekji boltana sem eiga að hverfa. Það tekur tæplega sekúndu og á meðan er ekki hægt að smella á næstu bombu. Þetta er bara gert til þess að leikurinn sligist ekki.

Hins vegar datt mér í hug við að lesa þessa athugasemd að á bombuborðum mætti nota "einfaldari" sprengingu sem yrði auðveldara fyrir tölvuna að ráða við. Þá gæti ég (vonandi) leyft mönnum að bomba að vild.

Þessi athugasemd hefur því hér með verið sett í vinnslu.

Stigaútreikningarnir skrýtnu

Gísli benti líka réttilega á það að stigagjöfin á t.d. sprengjuborðum er ekki í samræmi við fyrirmælin, þ.e. það að sprengja af handahófi og vera snöggur að, getur vel skilað fleiri stigum en að vanda sig.

Stigakerfið er einmitt eitthvað sem ég þarf að vinna betur. Núna er ég kominn með púslubitana sem ég þarf á að halda, en spurningin er hvernig ég tengi þá saman.

Á öllum borðunum mæli ég tímann sem það tekur að leysa þrautina. Ég gef ákveðna forgjöf (t.d. 40 sek.) og ef það tekur minni tíma en það að klára (t.d. 30 sek.) gefur mismunurinn tímabónus (í þessu tilviki 10 margfaldað með einhverjum stuðli). Bæði forgjöfin og margföldunarstuðullinn eru (enn) valdir af hálfgerðu handahófi.

Huxanlega sleppi ég öllum tímabónusum á þrautaborðum, þeir verða a.m.k. hlutfallslega mikilvægari á hraðaborðum.

Svipuð reikniregla gildir um bónusinn fyrir hreinsanir; ég gef einhverja forgjöf, t.d. 30 leyfilega "eftirlifendur" og allt undir því er margfaldað með öðrum stuðli.

Vandamálið er að þar sem bombunum er dreift nokkurn vegin af handahófi getur verið tilviljunum háð hversu mörg stig er mögulega hægt að ná á hverju borði.

Það væri kannski sanngjarnara að sleppa alveg forgjöfinni og gefa t.d. 5 stig fyrir hvern bolta sem hverfur (og þannig væri hægt hægt að ná 500 stigum fyrir hvert borð).

High score listi

Ég er alveg sammála því að það væri flott að hafa high score lista, sérstaklega ef hann gæti borið saman frammistöðu "allra í heiminum". Af tæknilegum orsökum er það hins vegar flókið í framkvæmd.

Þar sem þetta er ekki bara forritunarkúrs, heldur líka með áherslu á hönnun og almenna útfærslu, held ég að ég verði því að leggja áherslu á nota tímann í að fínpússa önnur atriði og láta high score lista bíða betri tíma.

Hann fer á það sem heitir í bransanum "nice to have" - listannn".

Á aðeins tæknilegri nótum:

Þar sem þetta er Flash leikur sem er í raun sóttur á vefinn minn í hvert sinn sem hann er spilaður er flóknara að halda utan um stig milli skipta heldur en á leik sem settur er upp á tölvu viðkomandi.

Ég gæti leyst þetta með lítili textaskrá á tölvu viðkomandi (ígildi cookies í Flash) og þannig gæti maður séð samanburð við fyrri frammistöðu á þessari sömu tölvu.

Flottari lausn væri að hafa listan veflægan, þ.e. safna stigum frá öllum sem prófa leikinn í gagnagrunn og halda þannig miðlægum lista yfir frammistöðu "allra í heiminum". Ég hef bæði gagnagrunninn og vefsvæðið sem til þyrfti - en ekki forritunarþekkinguna til að leysa það. Það er hins vegar vel hægt, en bíður síðari tíma - t.d. ef mér leiðist í lokaverkefninu (hóst).

Súmma súmmum

En aftur, þúsund þakkir fyrir athugasemdirnar. Þær hjálpa mér heilmikið við að sjá hvað ég þarf að bæta og hvað menn eru að fíla.

Vonandi get ég skellt upp hraðaborðunum síðar í vikunni (eða um helgina) og vonandi fæ ég jafn margar ábendingar við þau.

Tusind tak skal I have.


< Fyrri færsla:
Balls 0.6
Næsta færsla: >
Þorskur í Svíþjóð
 


Athugasemdir (4)

1.

vælan reit 16. nóvember 2005:

hehe held að þú hafir ekki alveg fattað kommentið mitt, sýnir bara my dirty mind.. balls the FLASH game? gerist kannski á klambratúni eða álíka stöðum helst inní runna..

what are you doing tonight? flashing my balls...

2.

Þórarinn sjálfur reit 16. nóvember 2005:

Þetta sýnir bara hvað ég er saklaus sál...

Þótt ég hafi ekki beintengt flasshugtakið við kúlurnar, hefur verið gælt við slagorð fyrir leikinn í dúr við "touch (my) balls", "jiggle the balls", "get them balls bouncing" o.s.frv.

3.

Ása Hildur reit 16. nóvember 2005:

Takk fyrir að fá að fylgjast með þessari þróun, ansi athyglisverðar pælingar. Ég er nú ekki mikið leikjadýr en ég vil koma með smá ábendingu varðandi sprengjuskýið. Mér finnst það mætti vera transparent það blokkar finnst mér einhvernveginn of mikið, var líka að spá í leturgerðina á fyrirmælagluggunum finnst það mætti vera meira kúl einhvernveginn. Annars allt á góðri leið.

4.

Þórarinn sjálfur reit 16. nóvember 2005:

Ég tók eftir því í dag að ég hafði gleymt að haka við í eitt box, þannig að leturgerðin í fyrirmælunum skilaði sér ekki. Hún á að vera sú sama og í bakgrunninum. Þessu verður kippt í liðinn í útgáfu 0.7 (og sprengingarnar eru orðnar mun "villtari" en áður...)

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry