Þorskur í Svíþjóð

Karl faðir minn er staddur hér í kóngsins K. til að taka þátt í lækningamannaráðstefnu sem byrjar á morgun. Við hittumst seinnipartinn í gær, spásseruðum um gömlu borgina og éttum góðan mat. Í dag fórum við svo í ferðalag til útlands og þar borðaði ég þorsk.

Í gær gerðum við úttekt á annars vegar hinni þjóðsagnakenndu Hviids Vinstue (sem segist vera elsta knæpa borgarinnar) og hins vegar hinu þjóðsagnakennda Det Lille Apotek (sem segist vera elsta knæpa borgarinnar).

Að sögn sérfræðings (þ.e. pabba) hafa báðir nokkuð til síns máls, spurningin er hvernig maður skilgreinir knæpu. Á öðrum staðnum sötruðum við írskan bjór, á hinum sporðrenndum við lungamjúkum nautalundum með bernes og argentínsku rauðvíni.

Á leiðinni heim í bússinum um kvöldið varð ég fyrst var við blikkandi ljós í fjarska, síðan að þokubólstrarnir sem lagði eftir nærliggjandi götu myndu ekki vera þoka heldur reykur og lox gekk ég framhjá þar sem slökkvilið borgarinnar barðist við óhugnanlegan eld í rokinu. Sjá frásögn mbl.is

Í dag hittumst við feðgar svo á höfuðbananum síðmorguns og eygðum Skánskar grundir skömmu fyrir hádegi.

Við byrjuðum ferðina í Lundi þar sem við röltum um gamla bæinn og skoðuðum sýningu Ólafs Elíassonar. Eftir töluverða leit að áhugaverðum síðdegisverðarstað enduðum við glorhungraðir á alveg hreint prýðilegum hótelrestúrant þar sem ég valdi mér gufusoðinn þorsk. Hann var framborinn með nýjum kartöflum, soðinni gulrót og bráðnu smjöri. Ekta íslenskur heimilismatur - unaðslegt.

Að áti loknu lestuðumst við til baka til Malmö, þar sem við skoðuðum aðra Ólafssýningu. Sú var mun einsleitari en sú í Lundi (eiginlega bara birtutilraunir á stórum flötum í stórum sal). Flott, en varla langferðar virði eitt og sér.

Á leið til baka í gamla miðbæinn lentum við í örlitlum villum, en Malmö kortið sem býr aftast í Kraks bókinni minni kom að góðum notum og réttur kúrs var tekinn. Við ákváðum svo að slaufa kaffi í Malmö, heldur bruna aftur yfir sundið áður en danir á leið heim úr vinnu troðfylltu lestina.

Á höfuðbanann vorum við því komnir aftur um fimmleytið, nokkuð lúnir eftir langþrömm en sáttir við leiðangurinn.

Ekki er hægt að segja að sænska þjóðarbúið hafi borið mikið úr býtum af þessari heimsókn okkar. Að þorskverðinum frátöldum eyddum við ekki stakri krónu - og þar sem pabbi sá um pantanir fyrir okkar hönd, meðan ég brá mér á prívatið, og samskipti í túristainfói lundanna kom heldur ekki til þess að ég þyrfti að spreyta mig á sænsku.

Einu samskipti mín við Svía voru raunar þegar við stigum út úr lestinni í Lundi og við rákum saman axlir tveir. Ég sagði "undskyld" og hann "förlåt".

Í ferðinni var tekin ein ljósmynd.

(Þótt þetta hljómi kannski af lýsingunni sem snautleg útlandaferð, var hún hin prýðilegasta.)

Hej då!


< Fyrri færsla:
Athugasemdum um bolta svarað
Næsta færsla: >
Þáttaskil
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry