Krænkelse af manneskjuréttindum mínum

Hér sit ég í tölvuleikjaveri ITU og hef aldrei verið jafn snemma í skólanum áður, enda gerræðislega flæmdur af heimili mínu. Hingað var ég kominn fyrir klukkan átta eftir stuttan svefn og sé ekki fram á að eiga afturkvæmt í kot mitt fyrr en síðdegis í dag.

Þar sem kennsla byrjar ekki fyrr en klukkan 9 sit ég hér í fámenni miklu, varla kjaftur mættur nema starfsfólk mötuneytisins og einstaka hræður hef ég séð leggja bílum hérna fyrir utan gluggann - líklega kennarar eða starfsmenn á fimmtu hæðinni.

Ástæða hérveru minnar á þessum ókristilega tíma sólarhringsins er tilkynning sem hengd var á útidyrahurðina mína fyrir helgi, þess efnis að í dag ætti að taka í gegn frárennsli hússins og því væri bannað að fara í bað, nota vaska eða sturta niður í dag frá klukkan 07:30 til 16:00.

Þetta er augljóslega argasta mannréttindabrot, en ekki þýðir að deila við yfirvaldið.

Heima sit ég ljóslega ekki pissuréttindalaus og út úr húsi fer ég ljóslega ekki morgunsturtulaust. Ergo: Ég er brottrækur gjör.

Ég reif mig því upp í morgun klukkan sjö - merkilega hress eftir að hafa sofnað seint. Raunar lauk ég ekki tannburstun fyrr en 07:31, en vona að engir starfsmenn Skanska hafi beðið varanlegt heilsutjón af þeim dropum sem þar runnu niður.

Kosturinn við þetta er að hér er ég mættur fyrir klukkan átta, hið minnsta tveimur tímum fyrr en ella væri. Framundan er því dagur sem hægt er að nota til dugnaðar mikils (og veitir víst ekki af). Lokaskil Balls á föstudaginn og fyrirlestrarhald á miðvikudag.

Það kemur skemmtilega á óvart hvað það er orðið bjart þetta snemma - munar líklega mestu um heiðskýran himin. (Nú eða opin augu.)

Helgin næsta

Aldrei þessu vant er ég kominn með plan fyrir komandi helgi.

Eftir miklar vangaveltur er ljóst að ITU-íslíngahittingur sem ég hafði gælt við að standa fyrir næsta föstudag var ekki að ganga upp. Þess í stað fer ég í afmælisveislu til Aðalsteins og þaðan á tónleika með Mugison.

Ungmeyjum borgarinnar er því hér með bent á að ég verð á Vega á föstudaginn. Hver veit nema ég verði jafnvel eitthvað fram yfir miðnættið! (Ef þrek og heilsa leyfir.)

Á laugardagskvöld er svo julefrokost nemenda við ITU, þar sem ég veit ekki til þess að neinn af mínum kunningjum sé að fara í matinn hef ég ákveðið að sleppa honum. Hins vegar kemur vel til greina að kíkja á "festen" síðar um kvöldið.

Pabbi floginn

Pabbi flaug heim í gærkvöldi, og hér er "heim" notað í bókstaflegri merkingu því hann flaug með beinu flugi frá Kastrup til Egilsstaða.

Ég á enn eftir að sannfæra mig um að þetta skuli raunverulega vera hægt. Mér líður svolítið eins og ég ímynda mér að fólki hafi liðið þegar það þurfti að horfast í augu við að jörðin væri kannski ekki flöt eftir allt saman.

En það að geta flogið héðan af Amagri og lent í túnfætinum heima á styttri tíma en það tæki að fljúga til Keflavíkur... Því er einhvern vegin erfitt að trúa.

Verst hvað þetta flug er stopult - þannig að það nýtist mér t.d. ekki neitt um jólin. Hins vegar er aldrei að vita nema ég geti nýtt mér þetta ef/þegar ég skrepp heim í vor/sumar.

Það er ekki útilokað að ég færi síðar í dag stuttlega til dagbókar stúss okkar feðga upp á síðkastið - svona ef ég leyfi sjálfum mér að taka pásu frá boltaleiknum.


< Fyrri færsla:
Balls 0.7
Næsta færsla: >
Balls 0.8
 


Athugasemdir (3)

1.

Óskar Örn reit 21. nóvember 2005:

Já, nútíminn félagi! Næst fer RÚV bara að senda út í lit held ég, svei mér þá.
Góða skemmtun annars á Mugisyni. Á enn eftir að sjá þann góða mann í holdinu á sviði. Hef mikið gaman af plötunni hans. Sá annars White Stripes í Höllinni í gær og það er ljóst að Jack White er mesti rokkari á hnettinum í dag og ekki orð um það meir!! Jú eitt orð: snillingur!
Verst að ég heyri ekki stakt rassgat í dag....

2.

Þórarinn sjálfur reit 22. nóvember 2005:

Já, það væri vissulega gaman að kíkja á Strípurnar við tækifæri.

Annars er líka svo helv. huggulegt að fara á "íslenska" tónleika í Vega, þetta er bara eins og heima á Laugaveginum.

Það verður spennandi að sjá hvort dönskutilþrif Mugison toppa grunnskóladönsku Apparata.

3.

Siva reit 23. nóvember 2005:

Halló halló ! Þetta með flugið beint heim er nú svo snilldarlegt að þú bara hreinlega verður að gera þér ferð heim til að prófa þetta!! Bara skella sér heim í feb.- mars eða eitthvað, og spáðu í sparnaðinn (tíma og peninga) af að sleppa suðvesturhorninu, alveg makalaust. Skil annars ekki af hverju makalaust er svona jákvætt lýsingarorð, og mak(a)legt neikvætt.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry