Mugison í Vega

Eftir að hafa skilað verkefninu formlega um tvöleytið í gær skaust ég heim að kaupa mjólk og appelsínusafa - til þess síðan að mæta á fredagsbarinn um klukkan þrjú. Þar var góð stemmning eins og lög gera ráð fyrir og ákveðið að bíða með að skoða Next05 sýninguna þar til í dag - en einbeita sér þess í stað að því að tryggja að bjórinn skemmdist ekki í kútunum.

Eftir spjöll í ýmsar áttir og góðan slurk af jólabjór tókum við Siggi bússinn upp á meginlandið og röltum í átt til Aðalsteins. Eins og stundum áður þegar ég reyni að vera gæd fyrir Sigga lentum við á refilstigum og tókum svolítinn krók að markinu.

Ég hafði kíkt á Kraks kortabókina mína áður en ég lagði af stað, en það dugði greinilega ekki til. Við ákváðum á þrammi okkar að þeir hefðu líklega ekki þorað að hætta sér upp á Vesterbro til mælinga, heldur hefðu rissað upp kortið eftir frásögnum einhverra sprautufíkla. Þegar ég kíki á kortið núna í dag sé ég reyndar að við fórum líklega bara einu götuhorni of langt...

Frá Steina var svo rölt upp á Vega, með millilendingu í pylsukaupum - steik kvöldins.

Mugison var flottur. Hann er skemmtileg "contradiction in terms"; tölvutengdur trúbador, og tók ca. helming laganna í útgáfum þar sem hann spilaði bara á kassagítarinn og hinn helminginn með tæknieffektum og á köflum djöfulgangi.

Dæmi um þennan tvíklofning voru dúettarnir tveir sem hann söng, annan söng hann með sjálfum sér (þar sem kvenröddin var í falsettu), hinn dúettinn söng hann með skjávarpa.

Tæknitilþrif kvöldsins voru þó líklega þegar hann fékk áhorfendur til að öskra með sér "One, two, three, FOR HELVEDE MAND!" og notaði svo sampl af því sem bakraddasöng í næsta lagi.

Það kom ekki til þess að hægt væri að bera saman dönskufærni Mugisons og apparata, þar sem hans spjall var allt á ensku. Hann spjallaði um heima og geima, sagði meðal annars af klósettferðum, sambandsslitum og blóðgunum skoskra brúða.

Ef eitthvað er, hefði hann gjarnan mátt spila lengur, með uppklappi held ég að hann hafi verið rúman klukkutíma á sviðinu. Eftir að hafa verið klappaður upp í annað sinn birtist hann og baðst afsökunar á því að eiga ekki fleiri lög, hann væri búin að spila öll góðu lögin sín - afgangurinn væri bara drasl.

Ég held ég fari rétt með að öll lögin (nema kannski tvö eða þrjú) séu af "Mugimama..." sem er ekki nema þrjú kortér (með flipplögum) þannig að þetta er kannski rétt hjá kauða.

Eins og lög gera ráð fyrir var stærstur hluti gesta íslenskur, en þó fannst mér ívið meira af útlendingum (Dönum) en á Apparat - kannski að íslíngarnir hafi verið um 80%.

Eftir tónleikana spjallaði ég meðal annars við núverandi og fyrrverandi samnemendur og kvennaskólanemendur.

Ég var beðinn fyrir sérstakar kveðjur til Ella bróður frá ungri konu sem hann fótbraut með amerískri fótboltatæklingu í Sjallanum á menntaskólaárum þeirra beggja. Fótbrot sem endaði með uppskurði í Þýskalandi og skrúfuvirki úr þýsku eðalstáli.

Sjálfur var ég í prýðilegum bullgír (sem fyrir kunnuga sést meðal annars af því að flutt var fjögurra mínútna útgáfa af brandaranum um Maríu, skammbyssuna og sundlaugina) (já, tíminn var mældur).

Vangaveltur um maðkað mjöl leiddu til samstarfsverkefnis þar sem reynt var að rifja upp nafnið á korndrjóla (e. ergot), but I guess you had to be there for that one...

Á karlaklósettinu á Vega barst mér til eyrna lágvær rödd skynseminnar sem benti á að allur bjór sem ég bætti við mig eftir þann tímapunkt myndi ekki endilega leiða til meira stuðs, en örugglega til timburmanna.

Seinna rölti ég svo með "nörrebro-genginu" í kústaskáp með vínveitingaleyfi á Vesterbrogaðe, þar sem ég lét mér nægja að sötra kók. Eftir setur í tæplega tveggja fermetra "hliðarálmu" barskápsins fór mannskapurinn að huga sér til hreyfings.

Eftir nokkra leit tókst mér að finna leigubíl með því að rölta til baka fram hjá Vega og stökkva til þegar bíll var að tæma af sér farþega við Enghaveplads. Var kominn heim um hálfþrjúleytið (að mig minnir).

Þökk sé áðurnefndri skynsemisröddu vaknaði ég nokkurn vegin glaðbeittur skömmu fyrir hádegið og er í þessum rituðum orðum á leið yfir í ITU þar sem við Siggi ætlum að kíkja á græjusýninguna.

Svo kemur í ljós hvernig stuðið verður í kvöld þegar brestur á með jóladjammi ITU...


< Fyrri færsla:
Hættur!
Næsta færsla: >
Voveiflegt fráfall
 


Athugasemdir (2)

1.

Júlía reit 26. nóvember 2005:

Korndrjóli - ertu til í að útskýra það aðeins nánar...?

2.

Þórarinn sjálfur reit 27. nóvember 2005:

Korndrjóli (ergot) er sveppur sem leggst á korntegundir og veldur ofvexti í smituðum öxum(?), þar af leiðandi -drjóla nafnið. Hann inniheldur mörg virk efni sem meðal annars minnka blóðflæði til útlima með tilheyrandi sárauka og drepmyndun. (Sjúkdómseinkenni þekkt sem St. Anthony´s fire í Evrópu miðalda).

Ergot getur líka valdið kröftugum ofskynjunum (grunnefnin í LSD eru unnin úr ergot) og til eru kenningar um að galdrafár miðalda megi að hluta skýra með því að heilu þorpin hafi verið á ofskynjunartrippi á brauði frá bakaranum.

Sjá nánar á Wikipedia

En þetta var auðvitað svona "you had to be there" móment... ;)

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry