Aðventubland í netapoka

Samansafn af sitthverju tagi:

Græjusýning

Á laugardag fór ég með Sigga að skoða áðurnefnda Next2005 græjusýningu í skólanum.

Þar var svosum margt fróðlegt, en Siggi orðaði það ágætlega: "Það var fínt að aðgangur að sýningunni er ókeypis fyrir ITU nema".

Margt af því sem sýnt var voru kannski fróðleg konsept, en ég á erfitt að sjá praktísk notagildi í iðnaðarvélmennum sem plötusnúðum, hlaupabretti til að spila skotleiki á, eða hvers vegna BMW sportbíl er breytt til þess setja í hann venjulegt leikjastýri.

Eflaust hefur verið eitthvað bráðsnjallt sem maður var ekki að kveikja almennilega á, en yfirleitt var þetta bara svona "ok, sniðugt - hvað er næst?".

Flottasta græjan var þó líklega raunverulegur þrívíddarskjár sem framkallar áhrifin með rifflaðri linsu framan á venjulegum flatskjá (linsa sem minnir á linsuna ofan á gamaldags myndvörpum) og ef maður stendur/situr nokkurn vegin rétt við skjáinn sprettur þrívíddin fram. Það smarta er að upplýsingarnar fyrir þrívíddaráhrifin eru sótt í venjulegt skjákort sem aftur fær gögnin beint frá t.d. tölvuleikjum.

Verður eflaust komið í viðráðanlegt verð eftir örfá ár.

Fyrsti sunnudagur í aðventu

Ég skrapp svo upp á meginlandið í gær að upplifa aðeins jólamúgsefjunina á Strikinu. Þar var þéttskipað af fólki og ilmur af ristuðum hnetum í loftinu. Götutónlistarmennirnir stóðu svo þétt að ef einn þeirra hrasaði ollið það dóminóeffektum fleiri húsaraðir.

Á Ráðhústorginu var svo verið að undirbúa það að kveikja á jólatré með jólasvein sitjandi uppi í stiga á slökkviliðsbíl. Ég tók strætó þaðan áður en sveinki náði að draga fram eldspýturnar, en í vagninum tók fullur kall við skemmtidagskránni með linnulitlu söngprógrammi (með örstuttum hléum þegar strætisvagnastjórinn gerði sig líklegan til að koma aftur í vagninn og henda honum út). Kallinn hefur örugglega verið með prýðilega söngrödd, en var of drukkinn til að hafa fullt vald á henni. Hvaðan lögin sem hann söng voru veit ég ekki...

Á leiðinni ókum við framhjá því sem virtist vera skrúðganga ungra kvenna með jólasveinahúfur og í stuttum pilsum. Þær áttu samúð mína alla, enda er sannkallaður skítakuldi hér í Köben.

Fyrsti dagur í næstsíðasta verkefninu

Nú er ekki annað eftir af þessari önn en að vinna að 16 vikna verkefninu mínu fram að jólum (og auðvitað tvö próf eftir áramót). (Og sitthvað annað smálegt reyndar líka.)

Eftir afslöppun um helgina var plan dagsins að taka til í þeim gögnum sem ég er kominn með, og setja mig aftur inn í það hvert ég var kominn þegar ég kíkti síðast á verkefnið fyrir rúmlega hálfum mánuði.

Fyrst var samt að ryksuga gólfið og skúra, enda voru rykflákarnir farnir að ná mér upp í hné (og hef ég seint verið kallaður stuttur til hnésins).

Ég var lengur að koma mér í gang en ég hafði vonast til, en gólfið er að minnsta kosti orðið hreint!

Ég komst líka að því að ég fylli næstum því meðalþykka möppu með þeim textum sem ég er þegar búinn að finna og lesa (a.m.k. frumlesa). Samt á ég von á því að eiga eftir að tvöfalda það magn áður en yfir lýkur, þannig að ég þarf kannski að fjárfesta í annarri möppu.

Á morgun dugir svo ekkert annað en að setjast að á lesstofunni í skólanum og koma sér almennilega í gang.

"Ég myndi gera allt fyrir frægðina, nema kannski..."

Myndband sem Jón Heiðar linkaði á fyrir skömmu hefur glatt mig oft á lokasprettinum í leikjaforrituninni, ég skelli enn upp úr í hvert sinn. Þetta er einfaldlega svo fyndið í svo fjölmörgum ólíkum lögum.

Maður hefur séð glæsilegar innkomur, glæsileg mörk og...

En samt.

Ath: Þetta myndband er ekki alveg "vinnustaðaseif". Njótið.

Nýr sími: aftur til fortíðar

Eftir heilmiklar vangaveltur um símamál endaði með því að ég fylgdi ábendingu Sigmars og skellti mér á Nokia 1101.

Ég var hikandi, enda er þetta sannkallað "ömmumódel" sem ekki er ætlaður fyrir neitt annað en að tala í og senda SMS (sem er nákvæmlega það eina sem ég í raun mun nota). En það að byrja að nota hann var eins og að koma heim, sömu klassísku valmyndirnar og í 3210 (bara upp, niður, C og einn aðgerðatakki).

Að vísu lenti ég í brasi með að flytja númerin úr SonyEricsson símanum hans Sigmars, fékk alltaf skilaboðin "All numbers could not be copied". Ég byrjaði á því að taka til í símaskránni og henti út númerum hjá fólki sem ég hef ekki hringt í síðan Mekkano var og hét og stöku gömlum sénsum (þar sem orðið "gömlum" ber ekki að taka of bókstaflega).

Það dugði þó ekki til.

Eftir heilmikið fikt komst ég að því að vandamálið fólst í því að þessi ca. 80 númer voru dreifð á 160 "sæti", en síminn var ekki að kópíera nema 120 þeirra yfir á kortið (og þar af stærstan hluta tóman). Með töluverðri handavinnu tóxt þetta þó að lokum.

Nú er bara að venja sig aftur af því að reyna að skrifa bil í SMSunum með # merkinu.


< Fyrri færsla:
Pabbapunktar
Næsta færsla: >
Í léttu losti
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry