Í léttu losti
29. nóvember 2005 | 2 aths.
Í verkefnatörn desembermánaðar ætla ég að reyna að vera skynsamur og læra af fyrri reynslu. Til dæmis ætla ég að reyna að vinna verkefnið eins mikið í "9 til 5" stemmningu og hægt er. Fara að heiman á morgnana, sitja nokkuð stíft við og taka svo kvöldin algerlega frí (a.m.k. eins lengi og ég kemst upp með).
Fyrsti alvörudagurinn í þessum fyrirhugaða gír fór hins vegar heldur á annan veg.
Ég vaknaði hálf-níu í morgun, samkvæmt áætlun, slökkti á snúsinu og teygði aðeins úr mér meðan ég reyndi að rifja upp helstu drauma næturinnar. Þegar ég opnaði augun næst vantaði klukkuna kortér í tólf.
Eftir að hafa staulast svefndrukkinn á fætur (maður verður líka þreyttur af of miklum svefni) og skolað af mér mesta skítinn, rölti ég á fastandi maga yfir í skóla til að fá mér kjöt í morgunmat. Frammi á gangi hitti ég Esben nágranna minn (sem leit jafnvel verr út en ég), hann viðurkenndi að vera þremur tímum á eftir áætlun og okkur létti eiginlega báðum þegar við komumst að því að við vorum í sömu sporum.
Segir ekki einhversstaðar að sælt sé sameiginlegt skipbrot?
Eftir hádegið kom ég mér svo fyrir á lesstofunni með mín gögn og rifjaði upp hvað ég var áður búinn að gera. Ég held að ég standi í raun þokkalega, en eins og ég vissi þarf ég að halda vel á spöðunum til að gera úr þessu virkilega gott verkefni.
Annars voru afköst og einbeiting ekki til að hrópa húrra fyrir, þannig að ég sé fram á að svíkja enn einn þátt hinnar göfugu áætlunar með því að sitja við skriftir hérna heima eitthvað fram yfir kvöldmatinn.
Það gildir að koma sér í gang, með góðu eða illu...
Athugasemdir (2)
1.
Jón Heiðar reit 29. nóvember 2005:
Þetta mun ganga betur smátt og smátt ef þú heldur þig við planið. Sannaðu til!
Sendi baráttukveðjur ....
2.
Þórarinn sjálfur reit 29. nóvember 2005:
Þakka kveðjurnar. Ég tek þetta á seiglunni (og brostækninni).
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry