Ættir raktar til hasssala

Í hádeginu lét ég lox verða af því að heimsækja Tóta í vinnuna hans í Christianshavn. Þaðan röltum við yfir í Christianíu á grænmetisstað sem hann hafði góða reynslu af.

Þetta var í fyrsta sinn sem ég fer í Stínu síðan átti að lemja mig hérna um árið. Pusher Street var óvenju fjölmennt og það sem kom okkur báðum á óvart var hversu frakkir sölumennirnir voru. Ekki þannig að þeir væru neitt að bögga okkur en þeir beittu blaðasalatækninni og kölluðu til okkar hvað þeir væru með á boðstólum.

Okkur fannst þeir merkilega afslappaðir miðað við hvað löggan hefur verið iðin að böggast í kristjanítum undanfarið. Eftir matinn stoppuðum við á kaffihúsi og þar var á tússtöflu tiltekið að skráðar hefðu verið 164 heimsóknir löggunnar frá 1. nóvember.

Stemmningin á kaffihúsinu var líka afslöppuð og ekki allur reykurinn tóbakskyns. Flottast var samt skilti upp á vegg þar sem sagði eitthvað í líkingu við "Andrúmsloftsins á þessum stað ber ekki að njóta af börnum og viðkvæmum sálum" - undir var svo lógó Sundhedsstyrelsen.

Maturinn var annars fínn; við fengum okkur pastagratín með salati. Hins vegar anga öll fötin mín af grænmetisréttum...

Ættfræðigrúsk

Eftir smá skorpu í textabarningi tók ég mér pásu og fór að vafra um netið. Flaug meðal annars í hug að kíkja aðeins á Íslendingabók og þegar ég rakti ættir mínar saman við Tóta blasti karlleggur föðurættar minnar við. Ég ákvað að gamni að rekja hann aðeins lengra og sjá hvenær "mynstrið" brysti.

Getur einhver séð hvaða mynstur ég á við?

 • Guðmundur "sterki" Arason, lögréttumaður (f. ~1600)
 • Jón Guðmundsson, prestur og skáld (f. ~1635)
 • Þórarinn Jónsson, prestur og skáld (f. ~1671)
 • Jón Þórarinsson, prestur og skáld (f. 1716)
 • Þórarinn Jónsson, prestur og skáld (f. 1754)
 • Stefán Þórarinsson, prestur (f. 1783)
 • Þórarinn Stefánsson, bóndi og snikkari (f. 1819)
 • Þórarinn Þórarinsson, prestur (f. 1864)
 • Þórarinn Þórarinsson, kennari og skólameistari (guðfræðingur) (f. 1904)
 • Stefán Þórarinsson, læknir (f. 1947)
 • ég

(Fyrir þá sem ekki þekkja til heitir elsti bróðir pabba Þórarinn Þórarinsson og elsti sonur hans heitir Þórarinn Alvar Þórarinsson - ekki hefur enn reynt á hvort nafni minn Alvar haldi í hefðina).

Mér finnst þetta alltaf forvitnilegt, ekki bara að rekja Þórarinsnafnið, heldur ekki síður hversu einsleitir titlar ættfeðra minna hafa verið. Það er þó eflaust komið af því að prestsskapur var "djobbið" fyrir bókhneigða menntamenn.

Ekki finnst mér síður forvitnilegt að spá í hvaða titil ég myndi fá í ættfræðiskráningu. Ég held að "efnafræðingur" væri heldur misvísandi (þótt það væri auðvitað strangt til tekið rétt).

Birt með fyrirvara um innsláttarvillur í ártölum. Ég tek líka fram að skáldanafnbætur koma allar (beint eða óbeint) úr Íslendingabók, þar sem þær vantar er ekki þar með sagt að viðkomandi hafi ekki verið skáldhneigðir. (Guðfræðingstitils afa er reyndar ekki getið í Íslendingabók, en mér þykir rétt að taka hann fram.)

Fyrirsagnarinnar vegna er tekið fram að enginn þeirra ættfeðra minna hefur selt hass, mér vitanlega.

Uppfært:

Verðlaunasamkeppni (án verðlauna)

Thorarinn.com efnir hér með til einnar af hinum sívinsælu verðlaunalausu verðlaunasamkeppnum sínum. Ef þú lesandi góður ættir að velja mér titil í Íslendingabók af kynnum okkar hingað til, hvaða titill (eða tveir) yrði fyrir valinu?

Ég veit nefnilega að lesendur þekkja mig á mjög ólíkum forsendum (og einhverjir hafa aldrei hitt mig). Hver/hvað er ég í þínum huga?

Svarist í athugasemdakerfið.


< Fyrri færsla:
Í léttu losti
Næsta færsla: >
Seint í rassinn gripið
 


Athugasemdir (2)

1.

Þórarinn Leifsson reit 30. nóvember 2005:

Kennari og skólameistari (guðfræðingur).

2.

Þórarinn sjálfur reit 01. desember 2005:

Góðr!

Ég sé það núna að ég þarf náttúrulega að drífa mig í guðfræðina. Ætli ég geti fengið eitthvað af efnafræðinni eða upplýsingatækninni metið?

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry