Jólaglögg, piparkökur og póker

Eftir að hafa lengi stefnt að því að stefna íslíngum í ITU saman kom lox að því að við héldum smá hitting í gær. Heimtur voru kannski ekki með hæsta móti, en það er ekki við öðru að búast á þessum árstíma þegar jólahlaðborð og önnur félagsleg áreiti ráða ríkjum.

Eftir þetta eina skipti sem ég hef prófað að spila póker (í eldhúsmaraþoni hæðarinnar) hef ég sannfærst um að það sé prýðis bakgrunnur fyrir hitting; allir hafa sameiginlegan fókus, en það eru samt næg tækifæri til að spjalla og slúðra.

Í gær var því blásið til íslíngapókers í eldhúsinu.

Ég fór í leiðangur í Kvickly og keypti hráefni til kvöldsins; glöggessens, rúsínur og möndluflögur, lítra af spænsku rauðvíni og stórt box af piparkökum. Þar sem Kvickly er aðeins dýrari en "danskir bónusbræður" kostaði þetta heilar 73 krónur danskar, eða 730 krónur íslenskar!

Í leiðinni keypti ég 2,3 kíló af dýrindis mandarínum á 25 krónur og árgangspúrtvín á 100 krónur (Rozés 2000 Vintage Port). Mikið hlakka ég til að koma aftur heim í dýrtíðina!

Not.

Pókerfés og dramatík

Það náðist helmingsþátttaka, þannig að við vorum fjögur sem hófum leika með rjúkandi jólaglögg, ég og DKM nýliðarnir; Ágúst, Jónína og Siggi (Huldar).

Eldhúsið hafði verið jólaskreytt á fimmtudagskvöldið (einkum með niðurklipptum auglýsingabæklingum), og með piparkökur, glögg og mandarínuilm var ekki laust við að þetta væri pínu jóló.

Ég hafði fengið spilapeninga, stokk og grænan pókerdúk að láni hjá Esben nágranna mínum. Dúkurinn var hins vegar lygilega blettóttur þannig að við spiluðum bara á dumbrauða jóladúknum.

Eftir að hafa byrjað rólega tók fjör að færast í leika þegar leið á kvöldið og "blinds" (skyldugreiðslur í pottinn) fóru að hækka snarlega. Við tvöfölduðum blinds-in í hverri umferð og þau voru lygilega fljót að fara úr 1/2 upp í 80/160. (Mér telst svo til að við höfum öll byrjað með um það bil 760 einingar í spilapeningum.)

Þótt ég sé manna ógleggstur þegar kemur að því að muna einstakar spilahendur verð ég þó að nefna nokkur svekkjandi móment:

  • Þegar ég var kominn fram að "ánni" með þristapar, ákvað að þeir myndu aldrei vinna neitt og pakkaði. Siggi tók svo pottinn með tvistapari!
  • Hjartaröðin mín fína sem laut í dúk fyrir hærri hjartaröð hjá Ágústi.
  • Þegar ég fékk þrjá ása og ætlaði aldeilis að raka inn stórum potti. Ágúst þrjóskaðist við og potturinn óx og óx. Lox töpuðu ásarnir mínir fyrir röðinni sem hann dró upp úr hatti sínum.

Eftir að peningamassinn hafði færst á milli manna tóku spilapeningarnir að sækja heldur mikið í faðm Jónínu og það fór að lokum svo að hún flengdi okkur hvern af öðrum og hafði glæsilegan sigur.

Reyndar voru engir alvöru peningar í púkkinu þannig að sigurlaunin voru aðallega aðdáun mótspilaranna.

Lokahöndin

Lokaúrslitin liggja fyrir, drottningar Jónínu hafa aleiguna af Sigga.

Gangur mála krufinn

Sigursígaretturnar hafa verið dregnar fram. Ágúst ber sig hetjulega og skellir fram skákskýringum um gang mála.

Gangur mála krufinn

Allir voru samt áfram vinir, umvafðir jólaskreytingum úr auglýsingabæklingum.

Leigubílaleit

Að leikum loknum fór hver til síns heima, strákarnir hjólandi en Jónína sem hafði komið í leigubíl tók að glíma við taxastöðvarnar. Eftir að hafa beðið í símabiðröð í hátt í hálftíma kom í ljós að það væri tveggja tíma bið eftir bíl!

Klukkan var þó ekki nema 1, en greinilegt að julefrokostar um alla borg höfðu sett leigubílakerfið á hliðina.

Það var því ekki um annað að ræða en að dúða sig og halda út á nærliggjandi umferðargötur til að reyna að flagga bíl. Ég fylgdi Jónínu áleiðis og eftir nokkrar mínútur og slatta af uppteknum leigubílum sem brunuðu hjá, hafðist það að stoppa einn lausan þannig að ég rölti heim í vetrarstillunum.

Svo er bara að sjá hvenær við blásum til íslíngahittings á nýju ári. (Þótt ég efist um að neitt verði eftir af piparkökunum þegar þar að kemur.)


< Fyrri færsla:
Seint í rassinn gripið
Næsta færsla: >
Sálarrannsóknir svefnpurrku
 


Athugasemdir (2)

1.

Siggi hennar Huldar reit 03. desember 2005:

Takk fyrir mig. Ég er ekki tapsárari en það að ég væri vel til í að endurtaka þetta við tækifæri.

2.

Þórarinn sjálfur reit 04. desember 2005:

Enda varst þú alveg áberandi næstbestur!

Við hljótum að endurtaka þetta eitthvert gott kvöld á komandi mánuðum.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry