Sálarrannsóknir svefnpurrku
06. desember 2005 | 5 aths.
Eftir helgi gerilsneydda öllum dugnaði er ég lox að mjakast af stað í ritgerðarskrifum. Það er þó einungis seinnipart dags sem ég kem einhverju í verk, morgnarnir fara bara í maraþonsnús og haugsskap.
Laugardagurinn
Eftir pókerinn á föstudagskvöldið lögðumst við Siggi fyrir framan sjónvarpið um hríð en skriðum svo undir sæng milli tvö og þrjú.
Báðir vorum við sannfærðir um að það væri óþarfi að stilla vekjaraklukku, við myndum vakna milli 10 og 11, uppfullir af dugnaði og lífsgleði.
Hvorugur okkar rumskaði hins vegar fyrr en klukkan var alveg að verða eitt! Þetta var slíkt áfall að það var ekki annað að gera en að liggja aðeins og reyna að ná áttum. Það endaði því með því að ég var ekki kominn úr morgunsturtunni fyrr en klukkan rúmlega tvö.
Þrátt fyrir langsetur við skjáinn það sem eftir var dags litu ekki nema örfáar setningar dagsins ljós. Njónsnatilþrif um líf bloggara sem ég þekki ekki neitt voru hins vegar mun meiri. Ég treysti á að það felist ákveðið karmajafnvægi í því að fólk sem þekkir mig ekki neitt hafi tækifæri um að njósna um mig á móti.
Það endaði svo að ég fór ekki út úr herberginu allan daginn, ekki einusinni fram á gang að pissa.
Enda hefði það líklega vakið litla hrifningu nágranna minna ef ég hefði tekið til við að míga á gólfið á ganginum. Fællesklósett eru nefnilega engin nema niðri í anddyri.
Sálgreining (endurtekin rulla)
Þetta atferlismynstur; fíkn í að liggja í rúminu, verkfrestun og dugnaðarskortur, eru eftir því sem ég best veit dæmigerð einkenni þunglyndis. Sjálfsgreining hefur þó leitt í ljós að mér finnst ég ekkert þunglyndur - bara hrikalega latur.
Þegar ég var að reyna að koma þessum vangaveltum í skipulega mynd í kollinum á mér fékk ég létta deja vu tilfinningu og þótti ég hafa reynt að koma orðum að þessu áður. Leit í dagbókinni leiddi mig að færslu sem ég færði fyrir réttu ári: Dvalaeðli.
Það er ekki rétt að kalla þetta skammdegisþunglyndi eða -depurð því ég er prýðilega hress og laus við svartsýni. En reyndar er drift og frumkvæði með minnsta móti þessa dagana (og það er eitthvað sem ég tengi mjög við þennan árstíma).
Þetta samspil af árstímanum og því að byrja svo til frá grunni á nýju viðfangsefni eftir að hafa unnið stíft og upplifað hálfgert spennufall við verkefnaskilin, er greinilega varasamt.
Í ár er þetta reyndar ívið svæsnara en í fyrra. Líklega vegna þess að nú er ég að vinna einn, en hef ekki aðhaldið sem felst í því að mæta á reglulega fundi (og það jafnvel fyrir hádegi).
Bjartsýniaukning
Hins vegar hefur mér tekist á sunnudaginn og í gær, mánudag, að komast loxins af stað og ég er kominn með a.m.k. nokkuð ítarleg textadrög í helming þeirra kafla sem ég hafði skipulagt. Þannig að ég er sannfærður um að ég klára þetta, þótt það verði kannski ekki alveg með þeim glæsibrag sem ég hefði gjarnan viljað.
But, who gives...
Það reynist mér enn vonlaust að komast fram úr rúminu fyrr en milli 10 og 11 á morgnana. Fyrir vikið er ég svo lengi að sofna á kvöldin, jafnvel þótt ég reyni að fara snemma í bólið.
Málið er kannski að drekka sig í svefn á jólabjór hvert kvöld?
Og þó.
Ég sendi það sem ég var kominn með á kennarann minn í gærkvöldi og við höfum skipulagt fund á fimmtudaginn. Þá skýrist betur hvernig ég stend.
Aðventulag Baggalúts
Ég má til að hvetja þá lesendur sem ekki hafa enn hlustað á Aðventulag Baggalúts 2005 að gera það hið fyrsta. Þetta er mikil snilld og kemur manni allt að því í jólaskap. Eins og þeirra lútanna er von og vísa er nokkrar gullhendingar að finna í kvæðinu. Meðal þeirra eru:
...
Þau létu fyrir berast
inn'í fjárhúsi með ösnum og kindum.
En það var ósköp kósí,
ekki ósvipað gömlum biblíumyndum.
...
og
...
Og barnið lá og snuðið saug,
með bros á vör og soldinn geislabaug.
...
PS
Fyrir lesendur sem enn kunna að vera að klóra sér í kollinum yfir frásögninni af nótt okkar Sigurðar er rétt að taka fram að þessa upplifun áttum við í sitt hvoru lagi. Við komumst hins vegar að því þegar ég leit inn hjá honum í sunnudagskvöldgöngunni að við höfðum báðir upplifað nákvæmlega það sama, með kílómeters millibili.
Athugasemdir (5)
1.
Már reit 06. desember 2005:
Ég hef heyrt góða hluti sagða um Jónsmessurunna ("Modigen"). Hef prófað það smá, en þori ekki að segja neitt konkret um hvaða áhrif það hafði á mig.
Lyfja - spurt og svarað: Hvenær á að hætta að nota Modigen?
Doktor.is: Hvað er jónsmessurunni?
2.
Már reit 06. desember 2005:
...svo hefur víst verið sannað að ein skeið á dag af lýsi hafi merkjanlega jákvæð áhrif á einbeitingargetu fólks. Ég tel mig geta vottað um það af eigin reynslu.
3.
Þórarinn sjálfur reit 06. desember 2005:
Fyrsta skref í viðbrögðum ætti auðvitað að vera að drulla sér út að hlaupa á morgnana, það myndi örugglega breyta heilmiklu.
Kannski maður grípi með sér lýsi í fríhöfninni á leiðinni aftur úr jólafríinu...
4.
Már reit 06. desember 2005:
BTW, varðandi svefnreglusemi, þá hef ég bæði heyrt því fleygt og prófað sjálfur, að besta ráðið er að stilla vekjaraklukkuna á einhvern einn ákveðinn tíma (helst suddalega snemma) og hoppa *strax* á fætur þegar hún hringir. Engar afsakanir. Ekkert snús. Borða morgunmat (hella sér upp á kaffi t.d.) og koma sér að verki á einhverjum fyrirframskilgreindum tíma.
Háttatíminn fylgir óhjákvæmilega sjálfkrafa. ;-)
Til að viðhalda þessu, þarf svo að negla einhverja reglu varðandi "morgnana eftir" og lögboðna hvíldardaga.
Börn reynast líka ágætlega :-)
5.
Þórarinn sjálfur reit 06. desember 2005:
Ég hef líka heyrt þessu fleygt og reynt þetta. Ég hafði hins vegar ekki viljastyrkinn (eða nægilega regluleg morgunverkefni) til þess að ég næði að komast upp á lag með þess tækni.
Jamm, í neyð leggst maður í barneignir ;-)
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry