Flengdur!

Í gærkvöldi þvældist ég (einu sinni sem oftar) inn á bloggsíðu, þar smellti ég á eitt af þessum dæmigerðu nettestum og var flengdur.

Þetta reyndist sem sé vera hrekkur sem ég kolféll fyrir, þrátt fyrir að þykjast vera netfróður (og kannski í og með vegna þess að ég þykist vera netfróður).

Ég er enn skælbrosandi yfir því hvað ég féll glæsilega í gildruna. Skondið nokk, þá þóttist ég finna örlítinn fisklegan þef en bældi síðan niður þá tortryggni og ýtti á takkann.

Mér varð svo mikið um að ég frussaði næstum á skjáinn þegar blekkingin lá ljós.

Það er kannski ekki skrýtið að glæponar eigi auðvelt að hafa af saklausum viðkvæmar persónuupplýsingar þegar það þarf svona lítið til að plata tortrygginn "fræðing".

Auðvitað hefði ég getað leitað óbeinna hefnda með því að segja ekki orð, heldur siga lesendum mínum á sömu gildruna. Það væri hins vegar ekki í samræmi við ritstjórnarstefnu thorarinn.com og ég myndi aldrei gera vinum mínum slíkan óleik (nema auðvitað um væri að ræða hrekk sem ég hef sjálfur samið frá grunni).

Boðskapur sögunnar er:

Fólki sem heldur dagbækur á netinu er ekki treystandi, og maður á að láta það ógert að gramsa í slíkum seint á síðkvöldum. (Þ.e. dagbókunum þeirra.)

Af mér er annars það að frétta að ég hef núna vaknað (og komist framúr) á réttum tíma tvo morgna í röð og að ég er með bólu á nefinu.

Lífið er ljúft.


< Fyrri færsla:
Jólahurðin 2005
Næsta færsla: >
Statusrapport
 


Athugasemdir (4)

1.

Óskar Örn reit 09. desember 2005:

Væri nú gaman að heyra nánari lýsingu á ósköpunum, nema þú skammist þín of mikið.
Svo þykir mér síðasta málsgrein færslunnar hættulega Adrian Mole-leg. Hef áhyggjur af þér....

2.

Þórarinn sjálfur reit 10. desember 2005:

Ég get svosum viðurkennt hvaða hrekkur það var sem ég féll fyrir. CrushCalculator þykist vera enn einn "reikna út frá nafninu" vefleikur, en sendir í raun nöfnin á "skotunum" sem maður slær inn í tölvupósti til þess sem setti upp hrekkinn.

Ef maður skyldi slysast til að falla fyrir hrekknum hjá einhverjum sem þekkir mann og slá inn nafn á einhverjum sem viðkomandi þekkir líka gæti það reynst frekar óþægileg uppgötvun...

Lesendur thorarinn.com hafa hér með fengið aðvörun.

Varðandi Adrian Mole, þá hljótum við samkvæmt stjörnuspekinni óhjákvæmilega að vera líkir, enda fæddir nákvæmlega sama dag. Veit ekki hvort það eitt og sér er nein ástæða til örvæntingar.

Vakningamorgnar eru hér með orðnir fjórir í röð. Bólan hefur nú látið í minni pokann og er úr sögu þessari.

3.

Rut Sigurðardóttir reit 10. desember 2005:

heheheh, sorrí! ég er búin að vera með nagandi samviskubit síðan ég setti hrekkinn á bloggið. en þetta er allt bara gert í góðlátlegu gríni. stundum er einfaldlega svo skemmtilegt að vera hrekkjusvín. ég vona að þú verðir bara búinn að gleyma þessu þegar ég hitti þig næst :)

4.

Þórarinn sjálfur reit 11. desember 2005:

Engar harðar tilfinningar Rut, mér var nær að vera svona auðtrúa.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry