Statusrapport

Á fimmtudag hittumst við í Usabilityhópnum til að undirbúa að leggja fram niðurstöður okkar fyrir "verkkaupann", en til þess hafði ekki verið tími fyrr. Undirbúningurinn gekk ágætlega og sjálf kynningin mjög vel.

Þegar við vorum að græja fyrir kynninguna kom hins vegar upp svolítið áhugaverð blindni. Þannig var að við pöntuðum voða fínt fundarherbergi sem er með föstum skjávarpa og allra handa græjum. Við vorum tvö sem vorum í því að undirbúa fundarherbergið meðan hinar í hópnum voru að prenta út og gorma skýrsluna. Ég skellti fartölvunni í samband við skjásnúru sem stóð út úr lagnastokk undir gluggakistunni, greip síðan fjarstýringu sem lá í gluggakistunni og reyndi að kveikja á skjávarpanum.

Það tókst hins vegar ekki og ég tók fljótlega eftir að þetta var fjarstýring fyrir hljómflutningstæki af allt öðru merki en skjávarpinn. Við leituðum því hátt og lágt að fjarstýringu fyrir skjávarpann, fundum aðra fyrir DVD spilara sem var þarna inni í skáp, en enga fyrir varpann.

Við fórum því niður í húsvarðadeildina og bárum okkur aumlega. Þegar við komum upp aftur með sérfræðing (sem vildi meina að það ætti ekki að vera nein fjarstýring) voru stelpurnar búnar að ræsa varpann. Þá reyndist vera stjórnborð fyrir skjávarpann á lagnastokknum við hliðina á skjásnúruinnstungunni, en við höfðum verið svo fixeruð á að okkur vantaði fjarstýringu að við tókum ekkert eftir neinu.

Mér finnst það forvitnileg pæling hvaða áhrif fyrirframhugmyndir um það hvers konar lausn sé verið að leita að hafi á sjálfa leitina. Við höfum auðvitað rætt þetta í sambandi við hönnunarferli, þar sem lögð er áhersla á byrja á að fókusa á vandamálið í stað þess að detta of snemma inn í að vega og meta lausnahugmyndir, en þetta var skemmtilega áþreifanleg "blinda" sem við lentum í.

Verkefnið mjakast

Síðar um daginn hitti ég svo verkefnakennarann minn. Eins og oft áður kom hann með hugmyndir að alls konar sjónarhornum sem ég gæti reynt að koma inn í skýrsluna (og sem við báðir vitum raunar að ég mun aldrei ná öllum). En það gaf vissulega nokkrar góðar hugmyndir, auk þess sem hann sendi mér áhugaverðar heimildir.

Spjallið barst að mastersverkefninu og ég nefndi stuttlega hugmyndirnar tvær sem við Emilie erum að velta fyrir okkur. Þá kom í ljós að hann er hluti af rannsóknarverkefni við háskóla í Skotlandi (man ekki nafnið á honum) um eye-tracking og að fyrir 10 árum vann hann rannsókn á notkun upplýsingatækni meðal starfsfólks spítala (reyndar allra starfsstéttra annarra en lækna). Það verður ekki af honum skafið að hann er fjölfróður kallinn.

Í framhaldi af því fékk ég svo frá honum athugasemdir við nýjasta uppkastið mitt. Það var allt rautt og undirstrikað (í Wordinu) þannig að mér brá í fyrstu, en þegar betur var að gáð var þetta að mestu leyti ábendingar um bætt orðalag (hann er Breti) og tillögur að umorðun kafla.

Á föstudeginum (í gær) settist ég svo niður með A3 teikniblokkina mína og rissaði upp tillögu að flæði. Ég held að það sé nokkuð raunsætt mat að ég sé kominn með stærstan hluta af því efni/hugmyndum sem ég þarf á að halda - nú felst áskorunin í því að koma því skipulega frá sér.

Mér sýnist að hlutföllin í skýrslunni verði á að giska 2/3 hlutar sem "descriptive", þ.e. hlutlaus lýsing á viðfangsefninu og 1/3 sem "analytic", þ.e. mitt mat á stöðu mála.

A3 síðan er með yfirlit yfir hvernig ég skipulegg descriptive-hlutann og hann ætti að vera orðinn nokkuð solid á morgun eða hinn. Þá get ég snúið mér að því sem sker úr um hvaða einkunn ég fæ - þ.e. mínar eigin ályktanir og perspektíveringar.

Það er því almenn bjartsýni í gangi. Í gær sat ég við skriftir langt fram á kvöld og í dag hef ég verið þokkalega duglegur líka.

Julefrokost/aftensmad

Innan skamms hefst svo julefrokost hæðarinnar, sem matargengið hefur verið önnum kafið við að undirbúa í eldhúsinu undanfarna tíma. Sjálfur ákvað ég að það væri best að ég, útlendingurinn, væri ekki að skipta mér um of af gangi mála og er því skráður í uppvask- og tiltektargengið.

Eftir frokostinn verður svo eflaust festað eitthvað fram undir morgun. Ég verð hins vegar nokkuð stilltur (það er a.m.k. stefnan) til að vera vinnufær á morgun. Kvíði því helst að partíhávaði gæti haldið fyrir mér vöku þar sem ég bý nálægt eldhúsinu.

En þetta ætti að verða skemmtilegt kvöld.


< Fyrri færsla:
Flengdur!
Næsta færsla: >
Jóladónó og jóla-death
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry