Sitt lítið af hverju, minna af öðru

Verkefninu títtnefnda miðar sæmilega áfram, ég er reyndar örlítið á eftir bjartsýnustu áætlun, en það er enn góður möguleiki að uppkastið sem ég stefni að því að hafa klárt í lok vikunnar verði nægilega gott til að vera skilahæft.

Þá myndi ég hafa tæpa viku til að fínpússa og lyfta því á hærra plan. Það væri brill.

Ég er ekki búinn að fá ítarlegar athugasemdir við síðasta uppkast, en fyrstu viðbrögð kennarans settu síðasta fund okkar þar á undan í nýtt ljós. Á þeim fundi hafði hann orð á því að ég yrði nú að standa mig því hann hefði verið undir svolítilli pressu fyrir að hafa samþykkt að ég ynni svona stórt verkefni einn.

Fyrstu viðbrögð hans við uppkastinu sem ég sendi á mánudag voru: "The new draft was a lot better." Þannig að ég er að spá í hvort hann hafi verið hræddur um að ég væri á leið að fokka verkefninu upp þegar við funduðum síðast.

Og þó, hann ætti að muna að síðasta verkefni sem ég vann hjá honum þróaðist á svipaðan hátt.

Framtíð heimaafþreyingar

Ég er búinn að melda mig á þetta seminar á morgun. Þykist hafa efni á því að taka hlé í nokkra tíma og vonast jafnvel til að læra eitthvað fróðlegt. Verst að ég mun líklega ekki geta beitt mér í glögginu með góðri samvisku - en á móti kemur kannski fimmtudagsbarinn annað kvöld.

Laufabrauðsskurðarfixið

Ég veit að það gleður móður mína ósegjanlega að frétt að ég skuli hafa fengið laufabrauðsskurðarfixið mitt þetta árið. Í gærkvöldi heimsótti ég nefnilega Jónínu og fjölskyldu (þá hina sömu Jónínu og flengdi okkur strákana í póker um daginn). Þar var familían að skera út laufabrauð og ég risti nokkrar kökur auk þess að miðla af reynslu minni í götunartækni.

Heimasætunni þóttu reyndar aðfarir mínar með gaffal í sitthvorri hönd nokkuð groddalegar og vildi meina að ég væri að "myrða" kökurnar.

Þrátt fyrir að hráefnið hafi verið til óttalegra vandræða held ég að skurður og steiking hafi tekist merkilega vel.

Þannig að mamma, það er engin þörf á að bíða með laufabrauðið fram á Þorlák mín vegna.

Þráðaþroski

Nú ber svo við að líflegar umræður hafa spunnist um eina af færslunum mínum, eða réttara sagt vísun mína á pistil félaga Jóns Heiðars. Það merkilega er að ég hef ekki blandað mér neitt í umræðurnar, heldur hafa þær verið til lykta leiddar án minna inngripa.

Þetta þykir mér í frásögur færandi og gleður hið litla ritstjórahjarta.

Berskjaldaður á netinu

Undanfarin ár hef ég verið með Panda vírusvörn á tölvunni minni og þegar samningurinn var að renna út um daginn ákvað ég bara að endurnýja án þess að vera neitt að skoða aðra valkosti. Ég borgaði því uppsettan prís og sótti forritið.

Í uppsetningunni krafðist forritið þess fyrst að fá að fjarlægja eldri útgáfuna og var ég sáttur við það. Síðan tók það upp á að kvarta yfir árekstrum við annað vírusvarnarforrit og krafðist þess að ég fjarlægði það.

Þar fer heldur í verra því það forrit hef ég aldrei sett upp og ég er ekki svo tölvufær að ég geti fjarlægt forrit sem ekki er til staðar.

Ég sendi fyrirspurn á "Support", en hef ekki fengið svar og á varla von á því úr þessu. Ætli það endi ekki með því að ég þurfi að standa í einhverju stappi til að fá endurgreitt og fari yfir í eitthvað annað.

Það væri til dæmis upplagt að styrkja íslenska framleiðslu.

Þangað til er ég ekki með neina vírusvörn, en treysti á paranojustillingar eldveggsins míns og eigin skynsemi í notkun tölvupósts og dularfullra vefsíðna.

Óorgínal orginalar

Það rann upp fyrir mér það skelfilega ljós um daginn að ég átti hvorki nammi né snakk á heimilinu! Ekki nema von að verkefnaskrifum hafi miðað hægt upp á síðkastið.

Í næstu verslunarferð greip ég því traustan og vel þekktan kost; Werther's Original. Þið vitið: Hörðu karamellumolarnir sem eru auglýstir í hallærislegum auglýsingum með döbbuðum afa og barnabarni hans.

Þegar heim var komið og ég opnaði pokann kom í ljós að þetta var sko alls ekkert sá Werther's Original sem ég hélt mig vera að kaupa, heldur kassalaga mjúkar rjómakaramellur. Það væri svo sem ekki alslæmt ef það væri ekki svona hrikalega vemmilegt rjómasmjör bragð af þeim.

Öðruvísi mér áður brá.

En hvað geta menn eiginlega leyft sér? Þetta er eins og að gefa út kók sem reynist svo vera appelsín...

Milli tveggja lyga

Samtalsbrot gærdagsins var eitt af mörgum samtölum og textabrotum sem hafa fæðst og veltst um í kollinum á mér áður en ég sofna á kvöldin.

Venjulega eru þau týnd og tröllum gefin að morgni, en þegar ég datt niður á að lýsa sannleikanum sem verandi milli tveggja lyga fannst mér það vera nógu flott til að leggja á minnið.

Fyrst reyndar sem skondinni mótsögn, en svo komst ég á þá skoðun að þetta væri kannski nærri lagi. Ef til eru tvær hliðar á öllum málum, má þá ekki gera ráð fyrir að hinn algildi sannleikur (ef hann er þá til) liggi einhversstaðar á milli þeirra tveggja útgáfa?

Ekki verður frekar duflað við heimsspekilegar vangaveltur í bili, heldur er lesendur kvaddir að sinni og beðnir vel að lifa.


< Fyrri færsla:
Samtals brot
Næsta færsla: >
Et tu Jagger?
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry