Et tu Jagger?

Síðasta sumar ákváðu U2 að halda tónleika í Parken á versta mögulega tíma fyrir mig - akkúrat í miðju sumar"fríinu" mínu. Næsta sumar verð ég örugglega hérna í Köben mestallt sumarið og hafði séð fram á að kíkja á Stones í Parken. Nú eru þeir hins vegar búnir að tilkynna að þeir spili í Horsens, "lengst" uppi á Jótlandi og þar með er ólíklegt að ég nenni að bíða í röð á sunnudagsmorgun.

Hins vegar frá þeir veflegt prik (nú eða Horsensarar) fyrir að hafa samdægurs skellt upp vefnum Stones i Horsens.

Vélbyssulöggur

Ég fór á kynningarfundinn um framtíð heimilisafþreyingar í dag, svosum fróðlegt en ekkert sem kom mér sérstaklega á óvart. Ég missti naumlega af W800i símanum sem var dreginn út, en tölfræðilegar líkur voru nokkuð góðar þar sem varla hafa verið nema milli 20 og 30 manns á svæðinu. Proffarnir lögðu nafnspjöldin sín í pottinn, en amatörar eins og ég skrifuðum nöfnin okkar á miða.

Ég þóttist sjá að miðinn sem dreginn var væri ekki minn, en þó var ekki laust við að ég spenntist aðeins upp þegar afhendari hvessti augun á miðann og byrjaði "Tor...". Það reyndist hins vegar Torben sem sat fyrir framan mig sem hreppti gripinn.

Kynningin var haldin í næsta húsi við Fields þannig að ég tók metróinn niðureftir. Á fyrstu metróstöð sem ég fór framhjá tók ég eftir að tveir lögregluþjónar stóðu á stöðinni, sem er frekar óvenjulegt. Á þar næstu stöð, Bella Center, voru tveir til viðbótar og þeir virtust ásamt starfsmönnum Metró vera að stöðva tvær konur með höfuðklúta sem voru á leið í lestina í hina áttina.

Á stöðinni við Fields var hins vegar engar löggur að sjá, fyrr en ég kom niður tröppurnar og þar stóðu hátt í 10 stykki og flestir með vélbyssur. Þá var ekki laust við að maður ræki upp stór augu og velti fyrir sér hvað væri eiginlega í gangi.

Þegar ég labbaði svo meðfram Fields kom á móti mér stór grænmáluð rúta með lögguljósum á toppnum (reyndar slökktum). Ég átti allt eins von á að hún væri full af enn fleiri lögregluþjónum, en það reyndust vera fullorðið fólk - greinilega af arabískum uppruna. Á eftir henni kom svo önnur með fleiri aröbum.

Þá rann upp fyrir mér ljós að þetta væri líklega utankjörstaðarkosning í íröksku þingkosningunum. Þegar ég fór sömu leið til baka um fimmleytið hafði vélbyssulöggunum fækkað aðeins, en það voru enn tveir lögregluþjónar á hverri stöð heim.

Ég er ekki enn búinn að venjast því að kaupa mér t.d. samloku með næsta mann á undan mér í röðinni með hlaðna skammbyssu í beltinu, hvað þá vélbyssur, en svona er víst þessi heimur að verða.


< Fyrri færsla:
Sitt lítið af hverju, minna af öðru
Næsta færsla: >
Stífla og grettur (og pølse og sylte fra et fad)
 


Athugasemdir (1)

1.

Óskar Örn reit 16. desember 2005:

Hafðu ekki áhyggjur af Stóns. Þú skellir þér bara í Egilshöll 6.júní í staðinn. Sú saga gengur nefnilega fjöllum hærra hér að þeir gömlu muni heimsækja klakann næsta sumar. Gerist örugglega, eða eins og Wayne Campbell orðaði það svo smekklega:"...and monkeys might fly out of my butt!!" Maður getur samt alltaf vonað.
Sagan af Írökunum minnir mig á þegar ég var staddur í Belfast fyrir einum tíu árum og rambaði fram á langa röð skriðdreka og breska hermenn í massavís með alvæpni sem höfðu raðað sér með fram götu þar í bæ. Ég hélt að þriðja heimsstyrjöldin væri skollin á þar til í ljós kom að viðbúnaðurinn var vegna árlegrar göngu svokallaðrar Óraníureglu í gegnum kaþólskt hverfi. Gangan samanstóð af nokkrum gömlum köllum sem skjögruðu eftir götunni í appelsínugulum stökkum og virtust flestir ekki líklegir til að geta haft hægðir hjálparlaust hvað þá hrellt breska heimsveldið. Eins og þú segir er maður ekki vanur að lenda í svona félagskap, saklaus sveitapilturinn og þykir það lítt spennandi.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry