Jólagjafainnkaupaleiðangur
16. desember 2005 | 2 aths.
Svei mér þá, jólagjafainnkaupum ársins er barasta lokið (nema ég á eftir að finna eitthvað handa manninum sem ég hitti alveg tvisvar á síðasta ári (samtals kannski í 5 klukkustundir); Albert frænda).
Fimm jólagjafir og jólaskyrta á nokkurn vegin nákvæmlega tveimur og hálfum tíma þykir bara nokkuð gott á mínum bæ. Ég þræddi Strikið og nágrenni nokkuð vandlega, en gætti þess þó vandlega að versla eftir föngum í "heimabyggð" á norðurenda Striksins.
Svo stóðst ég ekki mátið að taka einn aukarúnt til suðurs bara svona til að upplifa stemmninguna og gefa handleggjunum færi á að lengjast aðeins vegna burðarþunga. Þegar strætóinn skilaði mér svo heim var ég hálf dasaður, gleymdi meira að segja að Microsoft ætlaði að vera með einhvern glaðning á fredagsbarnum. Öðruvísi mér áður brá.
Ég er ekki alveg búinn að sjá hvernig ég ætla að koma gjafastaflanum heim á Ísland, en það hlýtur að reddast einhvernvegin.
Og nú er efnt til enn einnar verðlaunagetraunar thorarinn.com:
Jólaverðlaunagetraunin 2005
73 cm eru:
- Vegalengdin heiman frá mér og upp á Kóngsins Nýtorg.
- Þykktin á skautasvellinu á Kóngsins Nýtorgi.
- Samtals hvað handleggirnir á mér lengdust við að drösla innkaupunum heim.
- Hæðin á gjafastaflanum (óinnpökkuðum).
- Þykktin á verkefninu sem ég er að skrifa, útprentuðu í 12 pkt. letri og tvöföldu línubili.
Hvar skyldi límbandið vera...
Athugasemdir (2)
1.
Siggi hennar Huldar reit 16. desember 2005:
Alveg pottþétt c. Já öxulveldi hins illa bauð öl seinnipartinn, sem ég þáði. Afbragðsgott að vanda.
2.
Mardi reit 17. desember 2005:
Ég segi d. í von um að í staflanum sé gjöf til mín...
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry