Teiti, víg og ástríður
18. desember 2005 | 3 aths.
Í gærkvöldi kíkti ég í partí til Ástu og Dries, þar var apalegt þema í gangi sem lýsti sér meðal annars í náttúrulífsmyndunum sem gengu í sífellu, varpað upp á vegg í stofunni.
Það kom á daginn að ég þekkti hluta af gestunum, þó enga af Íslendingunum (fyrir utan auðvitað Tóta og Auju). Ýmist úr FC Umulius boltanum eða ITU. Þar á meðal var Riem sem var ein af hópnum í Vores Öl verkefninu um þetta leyti í fyrra.
Þarna upplifði ég eitt merkilegasta baðherbergisskipulag sem ég hef ... uuu ... upplifað. Herbergið var (og er líklega enn) langt og mjótt, sjálft klósettið var strax fyrir innan dyrnar, þaðan gekk maður svo í gegnum sturtuna (!) til að komast að vaskinum sem var innst (við hlið þvottavélarinnar).
Einhverra hluta vegna harðneitaði TótiL að fara úr dúnúlpunni í teitinu og þegar ég yfirgaf svæðið rúmlega eitt (til að vera hress í dag), var hann kominn á dansgólfið í dúnúlpunni; kófsveittur og í miklu stuði.
Ég rölti hins vegar út í nóttina og á Nordhavn lestarstöðina, sannfærður um að S lestarnar gengju enn (sér í lagi í ljósi þess hvað mikið er auglýst þessa dagana áróður um að taka lestirnar heim úr jólafögnuðum). Ég var ekki einn um þessa skoðun, en þar sem slökkt var á öllum upplýsingaskiltum og engar lestir skiluðu sér þótt beðið væri, gáfumst allir upp og leituðu annarra heimferða.
Ég fór aftur yfir á aðalgötuna og veifaði mér leigubíl. Sem betur fer eru taxar hér í Köben hræbillegir (a.m.k. miðað við klakann) þannig að þetta setti heimilisbókhaldið ekki merkjanlega úr skorðum. Hins vegar svíður mér að hafa verið búinn að stimpla klippikortið mitt á lestarstöðinni, þar fóru 22 krónur sem hefði mátt nýta í annað...
Sambýlingavíg
Þegar ég kom heim var það greinilega fyrr en sambýlingar mínir höfðu átt von á. Það varð því uppi fótur og silfurglit þegar ég kveikti ljósið á baðherberginu. Lágu þar eftir 4 eða 5 dauðar silfurskottur (ég tapaði tölunni í atganginum og hræin voru það illa leikin að kennsl urðu ekki borin á þau með góðu móti).
Silfurskotturnar mínar komast þó hvergi nærri í hálfkvisti við hið heilaga kakkalakkastríð Sigga.
Svo minna fréttirnar í dag mann á að lífið í stórborginni er ekki hættulaust, eins og dæmin sanna.
Sunday, lazy Sunday
Í dag hef ég svo tekið það frekar rólega. Sinnti meðal annars borgaralegri skyldu minni og tók ganghreingerningu helgarinnar.
Í hressingargöngu dagsins undir heiðskírum himni og í hægri golu varð mér hugsað til orða mæts manns sem sagði eitt sinn:
Þegar það verður kalt í Köben þá verður það svooo djöfulli andskoti viðbjóðslega hrikalega helvíti nístandi kalt!
Mér varð huxað til þess að ef til vill hefði ég átt að grafa upp síðu nærbuxurnar - þótt ekki væri nema til að vefja þeim um hálsinn.
Mynd úr boltanum
Það hefur verið meðvituð stefna ritstjórnar að hlífa lesendum við fréttum af boltasprikli öðru en því sem ritstjórnarmeðlimir sjálfir taka þátt í, en ég rakst nýlega á mynd sem ég varð að vekja athygli á.
Undanfarið hafa þær raddir verið háværar að mínir menn í boltanum væru að missa allt niðrum sig og hrun blasti við. Sjálfur hef ég ekki verið laus við ákveðna svartsýni á gang mála.
Það er því hressandi að sjá myndir eins og þessa sem sýna þá samheldni, einhug og leyfist mér að segja ástríður sem virðist ríkja á meðal samherja:
Ekki eru veitt nein verðlaun fyrir að giska á hvað gerðist sekúndubroti síðar.
Athugasemdir (3)
1.
Þórarinn Leifsson reit 18. desember 2005:
Ég var spurður 15 sinnum um úlpuna.
Svaraði alltaf:
This is a fashion item!
2.
Þórarinn sjálfur reit 18. desember 2005:
Enda ekki spurning að hún var mjög fashionable á þér.
3.
ásta reit 16. janúar 2007:
(ári síðar) Loksins fæ ég svar við því hvers vegna dúnúlpan í Apaveislunni!!!
En þetta baðherbergi, með sturtunni í miðjunni, var nú annars mjög flott miðað við flest önnur baðherbergi í Kaupmannahöfn þar sem sturtan er annað hvort yfir klósettinu eða oní... hmmm
Áfram FC Umulius!
~ Ásta
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry