Habítus, tattú og iTunes

Í viðleitni minni við að halda uppi samfellu í dagbókarfærslum verða hér hripaðir einhverjir stafir - þótt ég viðurkenni strax að hér hefur ekkert gerst í frásögur færandi í dag.

Verkefnahabítus

Habitus er orð sem ég lærði af Margréti sys. Ég veit reyndar ekki nákvæmlega hvað það þýðir, en kýs að skilja það sem svo að snúist um umhverfi og atferli.

Mitt verkefnahabítus (í ofangreindum skilningi) hefur "slet ikke" verið eins og upphaflega var að stefnt. Ég hef aðallega setið við hér heima, ekki byrjað stundvíslega og iðulega átt mín bestu tilþrif á kvöldin.

Staðsetningin ræðst reyndar að stórum hluta af því að ég er orðinn háður því að vinna á tveimur skjáum. Það er ómissandi að geta haft verkefnið á öðrum og heimildir og þess háttar á hinum. Trúlega gæti ég setið með laptoppinn við hliðina á skjá í skólanum, en þá gæti ég ekki flutt gögn á milli með einföldum hætti.

Í prófalestri er það oft hættulegt að sitja heima hjá sér, enda auðvelt að falla í þá freistni að þurfa aðeins að hella upp á te og aðeins kíkja á þetta og hitt. Auðvitað lendi ég í því sama núna, en aðalfreistingarnar hafa falist í því að leggjast í netgrúsk, og það gerist ekkert síður þótt ég sitji við í skólanum. Ég þarf hvort eð er að vera nettengdur til að komast í heimildir.

En þetta er allt saman að hafast, þótt habítusinn sé annar en stefnt var að.

Í gærkvöldi rann upp fyrir mér að eftir viku myndi ég vera að fara að sofa að kvöldi jóladags. Mér tókst ekki alveg að sannfæra sjálfan mig um að það væri satt...

King of Tribal Tattoo

Ég rak augun í það í dag að aprílgabbið mitt frá því í vor er orðin mest sótta síða vefsins í desember. Og hinar ýmsu samsetningar af Tribal og Tattoo eru orðnar algengustu orsakir þess að leitarvélarnar vísa á mig. Ég er hins vegar ekki alveg með það á hreinu hvaða leitarvél það er sem skipar mér í svona glæsilegt öndvegi, ég sé hauskúpuna mína a.m.k. hvergi í myndaleit Google. (Þótt þar sé reyndar margt annað forvitnilegt...)

Hvort ég tek upp nafnið Tóró Tattú á næstunni skal hins vegar ósagt látið...

iTunes tips

Þegar maður er með þokkalegt safn af lögum í iTunes eða álíka forriti, langar mann stundum að fá playlista sem ekki er of útreiknanlegur - án þess þó að vera algerlega random.

Eða hvort það er kannski bara ég...

Eníveis, til að kalla fram nýjar blöndur (og kynnast tónlistarsafninu frá öðrum sjónarhornum) má t.d. leita að öllum laganöfnum sem innihalda eitthvað ákveðið orð. Síðan fiktar maður sig áfram þar til maður finnur hæfilegan fjölda og ýtir á Play (takkinn með þríhyrningnum).

Meðal orða sem gefa góða raun eru t.d. "never", "away", "fall", "rock" og "home". Það síðastnefnda var t.d. þema á pókerkvöldinu og finnur t.d. lög á borð við:

  • Green, Green Grass of Home (Johnny Cash í Folsom Prison)
  • Sweet Home Alabama (Lynyrd Skynyrd)
  • Come on Home (Franz Ferdinand)
  • Subterranean Homesick Alien (Radiohead)
  • She's Leaving Home (The Beatles)
  • Johnny Come Home (Fine Young Cannibals
  • o.s.frv.

Það kemur á óvart hvaða orð "virka" og hver ekki, enda örugglega töluvert háð tónlistarsmekk viðkomandi. Óhjákvæmilega verður hlutfall íslenskra flytjenda reyndar ekki sérlega hátt ef bara er leitað að enskum orðum.

...Cum In Your Hair...

Talandi um laganöfn.

Will Oldham í sínum fjölmörgu birtingarmyndum (t.d. Palace og Bonnie 'Prince' Billy) er upplagður tónlistarflytjandi þegar unnið er að verkefnaskrifum, með lágstemmdum og ljúfum tónum.

Ég er hins vegar alltaf hálf spéhræddur þegar ég er með kveikt á MSN-inu og ákveðið lag með Palace lendir undir nálinni. (MSN-ið er stillt til að sýna hvað ég er að hlusta á hverju sinni.)

Það er lagið með hið forvitnilega nafn "You Have Cum In Your Hair And Your Dick Is Hanging Out". Segi og skrifa "You Have Cum In Your Hair And Your Dick Is Hanging Out".

Þessi ljóðræna hending heyrist mér hins vegar hvergi koma fyrir í texta lagsins, en verður ekki minna merkileg fyrir það.

Þess má geta að leit að "dick" finnur aðeins einn lagatitil til viðbótar í safninu mínu. Geti nú hver sem betur getur.


< Fyrri færsla:
Teiti, víg og ástríður
Næsta færsla: >
Hættur og kveblegur
 


Athugasemdir (5)

1.

Mardi reit 19. desember 2005:

Humm þú verður tekinn í fyrirlestur um habitus, doxa og Pierre Bordieu um jólin... ert ekki alveg að ná þessu... en heldur ekki allt of fjarri lagi :)

2.

Þórarinn sjálfur reit 19. desember 2005:

Ég fæ mig vart hamið af tilhlökkun...

3.

Óskar Örn reit 20. desember 2005:

Veit til þess að hinir afspyrnuleiðinlegu Blink 182 eiga einn söng sem heitir "Dick lips". Aldrei heyrt lagið og er sáttur við það.

4.

Þórarinn sjálfur reit 20. desember 2005:

Það er enginn sori á borð við Blink 182 í mínu stafræna tónlistarsafni.

Margskonar hroði, en ekki af þessum toga.

Fleiri ágiskanir?

5.

Þórarinn sjálfur reit 22. desember 2005:

Meðan ég man: Umrætt lag er "Dick´s Slow Song" með Tindersticks af plötunni Curtains.

Eðalplata.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry