Hættur og kveblegur

Þá hef ég vistað skjal sem heitir 16w_final.doc á tölvuna mína, uppfært forsíðu síðasta verkefnis og sent sjálfum mér draslið í tölvupósti (þannig að þótt tölvan mín gæfi óvænt upp öndina á ég þó öryggisafrit á póstþjóninum mínum í USA).

Þessi endasprettur hefur dregist aðeins á langinn, og það verður að segjast eins og er að sem stendur er ég ekki best upplagður til að skrifa snöfurmannleg lokaorð og leita uppi textalegar ambögur. Ég held nebbnilega að ég sé að kvefast.

Innbyggði streitumælirinn minn (svefntruflanir) lét á sér kræla aðfaranótt þriðjudagsins og í gær var ég hálf tuskulegur eitthvað, en kenndi um svefnleysi. Þá hafði ég heldur ekkert heyrt frá kennaranum mínum grunsamlega lengi og var orðinn kvíðinn um að ég fengi frá honum komment fyrir skil. Lífsmark barst frá honum um kvöldið og mér létti (sér í lagi þar sem textalegar athugasemdir voru með minnsta móti).

Í gær var ég sem sé með einhverjar minniháttar magaspennur og svimaslæðing við og við. Leit samt upp frá heimildaskránni og fór upp á meginlandið til að fá mér kakóbolla með Aðalsteini í merkilegri kjallarabúllu undir Baresso við Højbro Plads.

Í nótt svaf ég prýðilega og vaknaði hress. Við tókum svo símafund rétt fyrir hádegið, ég og kennarinn minn, sem við lukum á að óska hvor öðrum gleðilegra jóla.

Hins vegar hafa kvefeinkenni farið vaxandi eftir því sem líður á daginn, ekki þannig að ég sé beinlínis að verða veikur, en nóg til þess að það er erfitt að einbeita sér að textanum.

En nú er ég sem sagt hættur, fer niður í þvottahús bráðlega og hendi þvotti í þurrkarann. Þaðan fer ég svo yfir í skóla, prenta út og gorma. Skutla svo bunkanum inn á skrifstofu skólans á morgun.

Jólahreingerning ársins verður líklega í lágmarki, enda verða pakkanir (bæði inn og niður) settar í forgang. Vonandi verð ég langt kominn með hvorttveggja í kvöld og get þá átt náðugan dag á morgun.

Það væri upplagt að geta saxað aðeins á próflestur fyrir prófið þann 4. jan, en eins og hausinn á mér er núna væri það tímasóun að setjast niður með bók.

Ég vona bara að kvefið magnist ekki svo neinu nemi, en það hefur svo sem komið fyrir mig áður að fá hressileg kvefeinkenni sem svo gufa upp sem dögg fyrir sólu.

Í versta lagi dópa ég mig bara hressilega seinnipartinn á morgun og dröslast meðvitundarlítill suður á Kastrup, klyfjaður jólagjöfum.

Heim

Ég er sem sé að fara heim á klaka annað kvöld. Þaðan liggur leiðin austur í sveit á Þorláksmessumorgun og aftur í höfuðborgina að kvöldi 27. des.

Leiðin liggur í leikhús að kvöldi 29. og þann 30. er ég að vonast til að vera boðið í partí í Hafnarfirðinum.

Dagskráin er að öðru leyti opin þannig að höfuðborgarbúum er frjálst að boða mig til heimsókna eða hittings af öðru tagi. Ég fer aftur út 2. janúar.


< Fyrri færsla:
Habítus, tattú og iTunes
Næsta færsla: >
Juleferie
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry