Létt leti

Ég leyfði mér að sofa út í morgun og skreið að lokum ekki undan sænginni fyrr en var vel farið að nálgast hádegið. Eftir drjúgt netvafr spennti ég á mig púlsmælinn sem ég fékk í jólagjöf, gróf upp hlaupafötin og spennti á mig skóna.

Leiðina sem ég hljóp hef ég ekki farið áður, en miðað við svipaða leið og þann tíma sem þetta tók mig hafa þetta verið um það bil 5 kílómetrar. Lungun kvörtuðu yfir þessum vitleysisgangi, enda ekki nema örfáar gráður í plús og langt síðan ég hef hlaupið síðast. Að öðru leyti komst ég klakklaust frá þessu.

Ég lét mér nægja að fylgjast með púlsmælinum frekar en að láta hann ráða för, en komst að ýmsu fróðlegu um hjartað í mér.

Hjartslátturinn hækkar t.d. um 10 slög bara við það að ég stend upp, jafnvel þótt ég sé alveg hreyfingarlaus. Þegar leið á hlaupið og ég var að hlaupa á auto-pilot tók ég eftir að tempóið seig smám saman og var orðið heldur í lægra kantinum fyrir mína virðingu, hins vegar var púlsinn stöðugur í ca. 85% af mínum útreiknaða hámarkspúlsi (þ.e. í 160-165 slögum). Það segir mér að skrokkurinn hægi sjálfur á mér til að halda hæfilegu tempói, tempói sem ætti svo að hækka þegar ég kem mér í betra form.

Á lokasprettinum (sem ég viðurkenni fúslega að var ekki sérlega langur) tókst mér að sperra mig upp í 185 slög en þá var ég líka passlega sprunginn.

Þegar ég var búinn að varpa mestu mæðinni tók ég eftir að púlsinn lá enn í 120, þótt mér þætti ég vera kominn í ágæta slökun.

Sirkus revisited

Þegar ég fór á sýningu á Jólaævintýri Hugleiks "milli jóla" laumaði Toggi að mér diski með tónlistinni úr Sirkus. Hún var aldrei formlega tekin upp, en hann hafði afritað hana af vídeóupptöku.

Núna er ég búinn að rippa þetta inn í iTunes og leyfa þessu að rúlla nokkra hringi. Það er mesta furða hvað upptakan er góð - a.m.k. á því sem gerist framsviðs. Menn eru þó að eiga misgóða daga, t.d. grunar mig að þetta hafi verið ein af þeim sýningum þar sem Silja var kvefuð. Ég man ekki eftir jafn hressilegum Hákarli og á þessari upptöku, en það stafar kannski af því að í því lagi kúldraðist ég oftast undir sviðinu (minnir mig a.m.k.).

Það er svolítið spes að heyra þarna "glytta" í sjálfan sig, þótt blessunarlega verði ég ekki var við að mín engilbjarta rödd skeri sig neinsstaðar áberandi frá meðsöngvurum mínum (og ég geri heldur ekki kröfur um meira).

Ég sendi nágrönnum mínum hér á kollegíinu afsökunarbeiðnir fyrir meðsöngsrokur þær sem ég hef rekið upp og á eftir að reka upp á næstunni.

Á morgun ætla ég svo að verða aðeins duglegri - ég er bara ekki búinn að ákveða við hvað.


< Fyrri færsla:
Próftörn hálfnuð
Næsta færsla: >
Jóladagbókin
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry