Útsöluskröngl

Ég ákvað að notfæra mér millibilsástandið sem ég er í þessa dagana og kíkja aðeins á útsölur stórborgarinnar eftir hádegið í dag.

Í morgun vaknaði ég að sjálfsögðu með harðsperrur eftir hlaup gærdagsins. Ekkert stórvægilegt, en þó taka þær nokkuð hressilega í framanverð neðarleg lærin eins og betur verður að vikið síðar.

Ég stend mig best í innkaupum þegar ég veit að hverju ég er að leita, í dag var það ekki raunin en þó hafði ég augun opin fyrir góðum frakka. Við feðgar höfðum skoðað nokkra slíka í Kringlunni sem mér leist vel á, þeir voru danskir (frá Red&Green og Sand) þannig að ég þóttist vita að ég gæti fundið þá hér úti líka og jafnvel á betri prís.

Leikar hófust í Nonnabúð, eða Magasin du Nonn eins og hún er einnig þekkt.

Þar komst ég að því að ég væri kannski ekki líkamlega sérlega vel stemmdur fyrir útsöluráp. Gangan í metróinn hafði ekki linað harðsperrurnar, heldur þvert á móti og ég áttaði mig á því að ég væri með vöðvabólgu í herðunum með tilheyrandi svimatilfinningu. Þarna þvældist ég því um skjögrandi eins og léttölvað gamalmenni...

Engu að síður skellti ég mér á prjónaðan trefil sem er á að giska 2,5 metra langur (ýkjulaust) og þrjá boli á tilboði. Það er orðið ansi langt síðan ég keypti flík í "medium" en ákvað að taka einn bolanna þannig.

Í Red and Green á Strikinu var lítið úrval af þessum frökkum, raunar bara einn og í rangri stærð, enda merkilega lítið af fötum yfirhöfuð í þeirri verslun. Hins vegar voru til frakkar í réttum stærðum í Illum, en þar sem ég hefði gjarnan viljað fá frakkann í gráu ákvað ég að leita víðar. Það var þó komið á hreint að frakka sem kostaði 30 þúsund heima gæti ég fengið á sem svarar 20 þúsund hérna úti.

Eftir að hafa rölt aðeins meira um Strikið ákvað ég því að skella mér í Fields og finna þar Red and Green verslun. Þegar þangað kom var engin slík í boði, en ég þvældist fyrst í gegnum Bilka og endaði á að kaupa mér langerma öndunarbol á 40 kall (fyrir útihlaup í kulda).

Þaðan lá svo leiðin upp á efri hæðina (forðaðist vandlega alla stiga, þrammið niður tröppur í metróstöðvunum var enginn hægðarleikur) þar sem allar fataverslanirnar eru.

Þar ráfaði ég um án þess að finna nokkuð sem mér leist á, sárlega þjakaður af harðsperrum og við það að gefast upp og koma mér heim þegar ég álpaðist inn í Next, þar fann ég frakka sem mér leist ágætlega á og endaði á að kaupa. Reyndar voru frakkarnir þar kannski ekki alveg eins töff og hinir, og úr bómull í stað ullar, en vér fátækir námsmenn hljótum að líta á verðmiðann og fyrir 460 krónur danskar voru þetta eðalkaup.

Mér telst til að 460 krónur séu um það bil 12% af því sem greitt var fyrir Boss frakka í Reykjavík nýlega...

Eftir frakkakaupin var ég endanlega búinn á því, jafnvel þótt ég hefði alveg getað huxað mér að finna mér eitthvað til viðbótar var heilinn ekki fær um annað en að langa heim.

Afrakstur dagsins: 3 bolir, langerma öndunarbolur, tröllaukinn trefill og góður frakki á 800 kall danskar - ágætlega sloppið held ég.

Í kvöldmatnum ákvað ég að heilsa upp á tyrknesku vini mína handan við götuna. Þeir ollu ekki vonbrigðum, en hafa hengt upp miða þess efnis að það verði lokað hjá þeim í tvær vikur seinna í mánuðinum vegna breytinga á húsnæðinu. Tvær vikur! ég veit ekki hvernig vér námsmenn eigum nú að lifa af, annað hvort er að elda sjálfir eða rölta þremur mínútum lengur í næsta pissustað...

En nú er hins vegar kominn tími til að skjögra yfir í skóla og sjá hvort einhverjir séu mættir á Fredagsbarinn.


< Fyrri færsla:
Jóladagbókin
Næsta færsla: >
Ársskýrsla thorarinn.com 2005
 


Athugasemdir (2)

1.

Jónína reit 07. janúar 2006:

Leitt að þú skyldir ekki boða personal shopping assistant dauðans með í þennan útsöluleiðangur. Finnst búðir BARA skemmtilegar og hefði aðveldlega getað aðstoðað þig við fylla metróinn af innkaupapokum!!!!!!!!!!

2.

Þórarinn sjálfur reit 08. janúar 2006:

Það er satt, ég sé það núna!

Hins vegar veit ég ekki hversu vel Dankortið mitt hefði lifað af slíka aðstoð...

Kannski ég hnippi í þig í næstu útsölutíð :)

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry