Ekki gleyma að þurrka ofan af sturtuhengisstönginni

Nýliðin helgi varð ekki helgi mikils dugnaðar, þrátt fyrir ómótuð áform um að hrinda úr vör jólahreingerningunni sem varð eiginlega að engu fyrir jól. Ekki svo að skilja að herbergið sé alveg á hvolfi, en það veitti samt ekkert af tiltekt, afþurrkun og skúrun.

Þess í stað svaf ég drjúgt, spændi í mig eins og einn reyfara upp á tæpar 500 síður og horfði slatta á fótbolta í sjónvarpinu. Svo er ég byrjaður að vinna grafík fyrir fyrirhugaðan nýjan fídus hér á vefnum.

Einu þriftilþrif helgarinnar voru uppvask og sjálfsvask.

Á föstudagskvöldinu var ég frekar seint á ferðinni á Fredagsbarnum og þegar ég lox mætti voru þar ekki nema tveir sem ég þekkti með nafni. Ég skellti mér að sjálfssögðu niður hjá þeim og þar sátum við að kjafti og sumbli fram yfir miðnættið. Laugardagsfyrripartur var af þeim sökum tekinn frekar rólegur.

Hins vegar sýndi ég dugnaðarvott þegar ég fór út að hlaupa í gær, sunnudag. Tilgangurinn var aðallega að verka úr sér harðsperrurnar og ég lét iPodinn duga í græjumálum (sleppti púlsmælinum). Ég tók aðeins styttri hring en venjulega, en tóxt að halda rólegu en jöfnu tempói alla leið. Lét þó endasprett alveg eiga sig.

Var enn eina ferðina minntur á það að af þeirri fjölbreyttu tónlist sem er á hlaupa-playlistanum mínum eru bestu hlaupalögin óumdeilanlega af plötunum "Kill 'Em All" með Metallica og "Sehnsucht" með Rammstein.

Mastersverkefnaskorpa

Í morgun hittumst við Emilie og klömbruðum saman yfirliti yfir okkar núverandi hugmyndir að lokaverkefni og sendum á væntanlegan kennara með óskum um fund sem fyrst.

Ég held að þetta sé á ágætri leið hjá okkur og að þetta geti orðið prýðilegt samstarf.

Emilie sló mig reyndar út af laginu þegar hún nefndi að kynjahlutföll í tveggja manna grúppunni okkar væru verkefninu til framdráttar. Þegar ég skartaði álkulega spurnarsvipnum mínum og hváði, vildi hún meina að verkefnið okkar væri ólíklegra til að "gå helt i stå" heldur en t.d. í verkefni tveggja stelpna. Þetta var röksemdafærsla sem ég átti ekkert svar við og lét mér því nægja að kinka kolli.

Vottar fyrir þrifum

Eftir að leiðir okkar skildust fór ég heim og byrjaði á hreingerningu - þótt í mýflugumynd sé það sem af er þá er mjór mikils vísir. Nú er ég búinn að þvo (og þurrka) tvær troðnar vélar af þvotti, búinn að þurrka ofan af sturtuhengisslánni (og eins og allir vita sem sótt hafa húsmæðraskóla er mikilvægt að hefja öll stórþrifstilþrif á því að hreinsa ofan af sturtuhengisslám heimilisins). Helstu rykflákum hefur verið safnað í iður iðnaðarryksugu hæðarinnar og næst á dagskrá að koma einhverju skipulagi á bóka- og pappírsflóð herbergisins (og þurrka af þeim blettum sem við þá skipulagsbreytingu kunna að koma í ljós).

Talandi um bókaflóð, þá áttaði ég mig á því við undirbúning ársskýrslunnar að af þeim bókum sem ég las á nýliðnu ári voru fagbækur og amrískir reyfarar í yfirgnæfandi meirihluta. Fyrir alvöru fagurbókmenntum fór hins vegar minna.

Nú væri upplagt tækifæri til að leggjast í lestur á bókmenntaarfinum, en ég veit ekki hversu spenntur ég er fyrir þeim dönsku skáldum sem ég hef grunuð um að tröllríða nærliggjandi bókasöfnum. Þá hef ég meiri áhuga á höfuðskáldum klakans og huxanlega með engilsaxneskum gullmolum í bland. Það er spurning hvort það sé kannski bókasafn í Jónshúsi?

Við heimtum aukavinnu

Annars lítur ekki út fyrir að ég þurfi að láta mér leiðast þegar ég er ekki að vinna að lokaverkefninu. Á föstudaginn fékk ég tilboð um að gerast forritari í kennslufræðilegu Flash verkefni (sem ég á enn eftir að taka afstöðu til) og í morgun nefndi Emilie möguleikann á að við ynnum í sameiningu tvo vefi fyrir karl föður hennar - a.m.k. annan með gagnagrunnstengingu til að halda utan um söluskrá bifreiða.

Svo þarf ég við tækifæri að rifja upp grunnskólastærðfræðina...


< Fyrri færsla:
Ársskýrsla thorarinn.com 2005
Næsta færsla: >
Játningar svartklæðnings
 


Athugasemdir (1)

1.

sig reit 10. janúar 2006:

Já, sturtuhengisstöngin hefur einhvernvegin alveg farið framhjá mér, þegar maður er bara einnsextíuogeitthvaðlítið á hæð þá kemst maður hjá því að sjá svona nokkuð berum augum.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry