Ørlar á afrakstri

Það er mesta furða hverju svona letiþrif geta áorkað ef þau standa bara nógu lengi yfir.

Nú er ég búinn að taka til og þurrka af bókahillunum, þvo áklæðið af hægindastólnum, skúra allt, kalkhreinsa sturtuklefann (er enn hálf-hífaður eftir þær eiturgufur) og skrúbba klósettið.

(Og auðvitað þurrka af sturtuhengisstönginni.)

Næstu verkefni að koma skólapappírum skipulega í möppur, pólera spegla og líklega rölta yfir á Hjálpræðisherinn og athuga hvort þeir eigi ekki eitthvað gott ílát fyrir smádót sem er oft notað en á sér engan fastan samastað - tágakörfu eða eitthvað í þá áttina.

Áform um allsherjar skápatiltektir og -þrif hafa verið sett í nefnd.

Hluti af þessu ferli er að rauða tuskumottan sem ég keypti fyrir rúmu ári en hefur hingað til ekki verið flíkað í nýjum heimkynnum hefur nú hlotið heiðurssess fyrir framan sjónvarpið. Svei mér þá, ef það kemur ekki bara vel út.

Eða eins og mætur maður sagði eitt sinn:

That rug really tied the room together.

Annars er, eins og oft áður, lygilegt hvað maður er fljótur að sanka að sér alls konar smáhlutum sem eru sjaldan notaðir en maður tímir ekki að henda.

En nú er áformað að hlaupa smá hring og líta svo eftir geimfarasæng ef tími gefst til.


< Fyrri færsla:
Játningar svartklæðnings
Næsta færsla: >
Hlaup og verslanaþramm
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry