Hlaup og verslanaþramm

Þriðju útihlaup ársins. Fór nýja leið, en skv. Kraks kortabókinni minni hafa þetta verið um 5,7km. Það passar ágætlega við tímatökuna, 32 mínútur á miðlungstempói.

Lungun kvörtuðu mun minna en áður, enda virkaði loftið miklu hlýrra þótt hitastigið hafi varla verið nema 2-3 gráður í plús (ég gleymdi að svipast um eftir hitamælum á leiðinni). Eftir að ég var kominn á ferðina var ég í 162-166 slögum að jafnaði. Síðasta hálfa kílómetrann fór púlsinn yfir 170 án þess að ég væri að breyta tempóinu, líklega verið farinn að nálgast mjólkursýruþröskuld.

Tempóið var annars ágætt og ég hélt því til enda (þótt vissulega hafi ég í blálokin verið farinn að hlakka til að komast heim).

Það tók svo um 10 mínútur að koma púlsinum niður fyrir 100 slög.

Bómullarhlutfall fer sífellt lækkandi, í dag var ég í tveimur nælonbolum og jakka (sleppti peysunni sem ég hef hingað til verið í) og því var bara bómull í brók og sokkum.

Ég verð kominn í níðþröngar skærlitaðar hlaupabuxur innan skamms...

Verslanaþramm

Eftir teygjur og sturtu rölti ég svo niður í Jysk að athuga hvort þeir ættu geimfarasængina sem mamma hrósar svo mjög. Þeir áttu bara eftir eitt eintak af þynnri gerð en mig langar í, þannig að ekkert varð úr þeim kaupum. (Enda hefði það eiginlega komið á óvart ef sú skítabúlla hefði einu sinni staðið sig í stykkinu.)

Í bakaleiðinni kom ég við í Kvicly og gerði stórinnkaup fyrir heilar 250 krónur.

Eftir kvöldmatinn (rúgbrauð, karrýsíld, paprika, graflax og dillsósa) er ég lygilega dasaður þannig að nú er það bara tebollinn, hnausþykkar súkkulaðikökur og bók í hægindastólnum.

Adios.


< Fyrri færsla:
Ørlar á afrakstri
Næsta færsla: >
Þessi hávaxni dökkhærði með pókersettið
 


Athugasemdir (2)

1.

Huld reit 12. janúar 2006:

Minn kæri Tóró, eftir að hafa lesið um svarta þrönga small fetishið, hreinar sturtustangir, púlsmælingar, væntanlegt 6-pack, og nú neon spandex buxur, get ég ekki annað séð en tími sé kominn á opið hús á projektinu okkar.
Þess utan er mig farið að dauðlanga að sjá þig!
Líturðu ekki annars svona út???
black/neon-spandex Tóró

2.

Þórarinn sjálfur reit 12. janúar 2006:

Ég er reyndar búinn að breyta hárgreiðslunni aðeins, en að öðru leyti er þetta skuggalega nærri lagi.

Sammála því, við þurfum að fara að sjást.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry