Vilborgarinnblásinn vellingur
14. janúar 2006 | 2 aths.
Fljótlega eftir hádegið í dag átti ég Skype samtal við Ella og Vilborgu. Hennar þáttur í samtalinu fólst reyndar helst í því að segja sem minnst og sýna þess í stað tölvunni það sem hún vildi vekja athygli á - og minna pabba sinn (rámri röddu) á að einbeita sér að samtalinu ef hann var að veita uppátækjum hennar of mikla athygli.
Þau feðgin voru að borða hrísgrjónagraut meðan á samtalinu stóð og ég áttaði mig á því að mig langaði í velling.
Þannig að í göngutúr seinnipartinn kom ég við í Kvickly og keypti hráefni í graut, enda matvælalager minn af skornum skammti. Þar var ég minntur enn á raunir þess að kaupa mat fyrir einn, ég sá ekkert eftir því að kaupa hálft kíló af grjónum, en 2 kíló af sykri til að blanda smá kanelsykur var kannski örlítið overkill.
Þessi leiðangur rifjaði líka upp fyrir mér fyrstu kanilkaupin mín í Reykjavík, sérlega hagkvæm stór krukka keypt í Bónus. Ég þykist vita að sú krukka sé enn einhversstaðar á sveimi, líklega á Fálkagötunni, án þess að sjái á henni högg á vatni.
Ílátahallæri heimilisins varð svo til þess að ég þurfti að blanda kanelsykurinn í vínglas, a.m.k. þar til ég kaupi mér næst síldarkrukku. Mig minnir einmitt að kanelsykurskrukkan sem lengi vel var í notkun á Fálkanum og ég hafði eflaust með mér á Flyðrugrandann hafi annað hvort verið utan af síld eða graflaxsósu.
Kvöldmaturinn þennan laugardaginn varð því nýsoðinn vellingur. Eitthvað þarf ég að fínstilla einsmanns hlutföllin, grjónin voru örlítið vansoðin, en að öðru leyti var þetta hin besta máltíð.
Fyrir utan spjallið við þau feðgin og hráefnisinnkaup hef ég í dag gert það sem heitir á fagmáli "ekki rasskat". En nú er stefnan tekin í heimsókn til Huldar og Sigga.
Athugasemdir (2)
1.
Óskar Örn reit 16. janúar 2006:
Var að lesa einhverja fyrri færslu um hlaup og vildi benda þér á að draga aðeins í land. Púls um 160-170 þýðir að þú ferð óþarflega geyst og ert bara að þreyta þig. Stefndu að max púls um 150 ef þú ert að spá í að koma pumpunni í toppform, enn hægar ef þú ert bara að spá í að brenna spiki.
Det var dagens medicinske videnskab, takk så mycket!!
2.
Þórarinn sjálfur reit 16. janúar 2006:
Ju minn, ég veit ekki hvort ég meika það að hlaupa á 150 slögum - mér finnst ég varla komast úr sporunum á lægri púls en 160.
En ekki vill maður hundsa læknisráðin, prófa að halda mig í 150 næst og sjá hvernig ég fíla það.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry