Hlaupt í skíhítakulda

Visitasía mín til Sigga og Huldar á laugardagskvöldið var vel heppnuð. Heimasætan Bergþóra sýndi vissa tortryggni í minn garð framan af heimsókn, en fljótlega eftir að við höfðum stúderað blómin á sokkunum okkar (þau voru áberandi fleiri á hennar en mínum) vorum við orðnir hinir bestu mátar.

Steini og Gunnur komu svo eftir að heimasætan var sofnuð undir rúmlausri himnasænginni og við sátum fram eftir kvöldi sötrandi eðla drykki og spjallandi um heima og geima. Meðal þess sem bar á góma voru feitur rass (Steina), kókþömb vistmanna, danska velferðarkerfið, kjarakaup á hvítvíni, danskir kakkalakkar og hafnfirskar leikhússilfurskottur, kynlífshjálpartæki fatlaðra og (jafnvel þótt undirmeðvitundin reyni að bæla minningarnar um það niður) DV.

Að mér tóku að sækja geispar um eittleytið og ég kvaddi því heimilisfólk og gesti og rölti heim á mitt værelse.

Kuldahlaup

Á sunnudeginum svaf ég út, snæddi léttan morgunhádegisverð og bjó mig svo til útihlaupa. Þegar út var komið komst ég að því að það var vihiðbjóðslegur skíhítakuldi úti; rök stinningsgola sem nísti gegnum mör og bein.

Í ljósi aðstæðna breytti ég hlaupaplaninu snarlega og í stað þess að halda til suðurs eins og ég hef gert undanfarið tók ég strikið í austur til að geta hlaupið gegnum einbýlishúsahverfið þar. Suðurleiðin hefur það sér til kosta að þar hleyp ég á beinum og breiðum stígum og stéttum en skjólsæl er hún ekki. Inn á milli húsanna er meira skjól auk þess sem ilmurinn frá ótal örnum (þ.e. brennsluofnum en hvorki ránfuglum né annarri óáran sem útúrsnúningameistarar gætu út úr þessu lesið) felur í sér undirmeðvitaðar tengingar í hlýjutilfinningar.

Verst að blessaðir arnarnir eru skyndilega orðnir óvinur almannaheilsu númer eitt hér í danaveldi.

Það fylgir því að hlaupa svona eftir gangstéttum íbúðarhverfa að nokkurrar einbeitingar er krafist við að víkja sér frá hoknum langömmum, illa parkeruðum reiðhjólum, öryrkjum á rafmagnsþríhjólastólum með drauma um frama í formúluakstri og hnéháum hundaskítshaugum. Allt hafðist þetta þó án teljandi áfalla og ég náði áfangastað mínum; Amager strandpark.

Líkt og nafnið ber með sér er sá staður strandlægur mjög og þar sem strendur eru alla jafna ekki skjólsælir staðir sá ég ekki ástæðu til að staldra þar lengi við. Reyndar var þar góður slatti af útivistarkempum, en þær uppfylltu allar í það minnsta eitt af eftirfarandi:

  1. Að vera í dúnúlpu með loðkraga á hettunni
  2. Að vera með hund
  3. Að vera prófessíonal útihlauparar í þröngum spandexbuxum.

Þar sem ég uppfyllti ekkert þessara skilyrða lét ég mér nægja að hlaupa yfir eina brú og anda aðeins að mér ilminum af Atlantshafinu meðan ég tók nokkrar málamyndateygjur. Ég reyndi að nota saltanganina til særa fram vestfirðsk sjóhetjugen úr erfðamengi mínu, en þori ekki að fullyrða um afrasktur þeirrar DNA heilunar.

Því tók ég strikið til baka, sömu leið og ég hafði komið.

Ég hljóp annars bara rólega og hef líklega ekki verið svo fjarri ráðleggingum doktor Óskars um að ég hægi aðeins á púlsinum í hlaupunum.

Þetta varð örlítið lengri rúntur en fyrr (a.m.k. tímanlega séð), "Kill 'Em All" (52 mín) lauk passlega þegar ég kom inn úr dyrunum, en ég hafði startað fyrsta laginu um það leyti sem ég hófst handa við að rifja upp slaufuhnýtingar á hlaupaskóm.

Kuldinn stríddi mér svo sum ekki stórlega þótt hann kitlaði aðeins lungun, en mér þótti þó við hæfi í stað þess að vökva mig á einhverju úr ísskápnum að fá mér bara góðan bolla af tei þegar heim var komið.

Þegar ég dró iPodinn úr buxnastrengnum til að finna mér teygjuvæna tónlist var hann löðursveittur, líklega þó mest af raka sem þést hafði á honum - frekar en að hann hafi tekið sérstaklega á því.

Eftir að ég skreiddist út úr heitri sturtunni og hafði "netast" svolítið lét ég lox verða af því sem ég hafði ætlað að gera frá því á föstudaginn, þ.e. að rölta yfir í skóla og prenta út verkefnið mitt sem ég verð prófaður úr næstkomandi föstudag. Ég kann betur við að hafa lesið það yfir til að rifja upp hvaða vitleysu ég hef sett niður á blað áður en ég mæti í próf til að standa skil á því.

Þegar ég kom heim úr þeim leiðangri voru orkustöðvar í nokkurri lægð og ég setti því ljúfa tóna á fóninn, kveikti á kertum og stúderaði aðeins innanverð augnlokin.

Trivial mót

Ekki kom þó til þess að ég læsi verkefnið yfir þetta sunnudagskvöld því Auja hringdi og boðaði formlega til margnefnds móts í Trivial sem hefjast skyldi klukkan átta að heimili þeirra Tóta.

Ég slarfaði í mig spagettíi og metróstrætóaðist upp á Nörrebrú (nennti ómögulega að hjóla í kuldanum). Þar heilsuðu engir atvinnudrykkjumenn upp á mig heldur arkaði ég beinustu leið að heimili þeirra hjóna.

Þangað mættu líka Birta, Júlía og Stebbi og teknar voru tvær umferðir með tveggja manna liðum. Við spiluðum afmælisútgáfu af Trivialinu og þótt spilaborðið hafi verið voða sanserað og fínt þótti okkur satt best að segja ekki mikið til spurninganna koma; klúðurslega orðaðar og við fundum drjúgan slatta af villum (til dæmis er ég fullviss um að Tom Cruise lék ekki í Independence Day og skal ferfætlingur heita ef það menningarsögulega listaverk var byggt á Pulitzer verðlaunaðri sögu).

Þetta er ekki bara tuð þess tapsára, en það skal þó viðurkennt að mín lið lentu í öðru sæti í báðum umferðum; fyrst með Stebba og svo Júlíu. Kastfimi Birtu dugði henni hins vegar til að tryggja sínum liðum sitthvorn sigurinn (ég er ekki tilbúinn að játa að mín lið hafi staðið sigurvegurunum að baki í gagnslitlum fróðleiksþekkingum, en viðurkenni að teningaköstin voru okkur stundum óhagstæð).

Spilakvöldi þessu lauk á áheitingum um að endurtaka leika með öðru spili og var þar margt nefnt.


< Fyrri færsla:
Vilborgarinnblásinn vellingur
Næsta færsla: >
Bruðlið heldur áfram
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry