Umbótaverkefni nýhafins árs

Fyrirhuguð umbótaverkefni thorarinn.com á eigins tilveru eru sem hér segir.

Regluleg líkamsrækt

Misregluleg útihlaup hafa séð til þess að ég er í þokkalegu grunnformi og miðað við IKEA vogina mína er ekki teljandi þörf á að ég létti mig.

Hins vegar ætla ég að kappkosta að gera hreyfingu að reglulegum lið í hversdeginum og horfi þar helst til tækjasalarins í ITU. Við Emilie höfum rætt um að reyna að gera visitasíur þangað hluta af vinnuferlinu við lokaverkefnið.

Elli bróðir hefur gefið það út að hann ætli að hlaupa hálfmaraþon í Reykjavíkurmaraþoninu í haust. Það er að vísu örlítið óheppilegur tími með tilliti til skila á verkefninu, en ég ætla að kappkosta að taka þátt í því með honum - ekki svo að skilja að ég geri mér miklar vonir um að halda í við hann, en það er prinsippið sem gildir.

Taka upp betri skipulagssiði

Ég ætla líka að fara í gegnum ferlið sem lýst er í Getting Things Done og sjá hvort mér tekst ekki að koma mér upp betri siðum í skipulagsefnum og almennum vinnubrögðum.

Núna er einmitt upplagður tími til að fara skipulega í svona mál, í skjóli hins verndaða umhverfis skólans (með nokkrum hliðarverkefnum).

Taka skipulega á kvíðanum

Þótt kvíðaröskunin mín hái mér ekki svo neinu nemi í hversdeginum eru samt ákveðnar aðstæður sem ég hef skilyrt við streituvanlíðan. Ég veit alveg hvernig á að slíta þau tengsl (með því að hafa tiltæka slökunartækni og takast skipulega á við að afvenja sig streitunni), en það er of auðvelt að freistast til láta svoleiðis konfrontasjónir sitja á hakanum og það hef ég gert allt of lengi.

En nú ætla ég að reyna mitt besta til að takast á við þessar aðstæður og nýta mér þá þekkingu sem tiltæk er. Líklega reyni ég að nota áðurnefnda G.T.D. til að skipuleggja það aftengingarferli.

Og svo ætla ég auðvitað að reyna að kappkosta að lifa lífinu og kynnast nýju fólki.

Og worldpís.


< Fyrri færsla:
Beðmál, blankheit og verkefnaflóð
Næsta færsla: >
Tíningur sparða
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry