Tíningur sparða

Þá er síðasta prófið á dagskrá í fyrramálið; munnlegt próf úr 16 vikna verkefninu mínu. Ég er nokkuð bjartsýnn á að lifa það próf af án teljandi hremminga.

Það er hins vegar erfitt að undirbúa svona munnlegt próf án þess að detta í þá gryfju að endurtaka bara það sem maður er búinn að skrifa í verkefninu. Ég reyni að taka þetta svolítið skipulega og fjalla um sjálft ferlið, hvað mér finnst ég hafa lært, hvað kom mér mest á óvart og enda svo á að ræða um og útdýpka lokaniðurstöður mínar.

Ég get nú ekki sagt að fyrirlesturinn sem nú liggur fyrir sé sérlega brilljant, en hann liggur þó fyrir og það er fyrir mestu.

Hvað eru mörg fyrir í því?

Í gær var ég búinn með á að giska tvo þriðju hluta fyrirlestrarins, og í dag hefur verið svolítið mjög erfitt að detta ekki í þá gryfju að fara að hugsa um eitthvað allt annað ;)

En fyrirlestur upp á ca. kortér í flutningi er núna klár. Ég ætla að græja smá hand-out fyrir kennara og prófdómara til að auðvelda þeim að átta sig á hversu lengi þeir eiga eftir að kveljast undir tuðinu í mér. Mun rölta yfir í skóla í kvöld og prenta þetta út.

Svo treysti ég bara á að vera svalur í umræðum og spurningum.

Tungumálamismunun

Ég var að taka eftir því að í þeim 5 kúrsum sem ég hef tekið þar sem prófið hefur verið á ensku eða einkunnin byggð á ensku verkefni (og þar sem niðurstaða liggur fyrir í þessum rituðum orðum) er meðaleinkunnin 10,6.

Í þeim 4 kúrsum þar sem ég hef verið í prófi á dönsku er meðaleinkunnin hins vegar 8,5.

Tilviljun?

Já, ég held það reyndar...

En hafi þetta forspárgildi ætti það að lofa vel fyrir prófið á morgun sem einmitt verður á ensku.

Íslendingur hittur

Það kom lox að því að ég rakst á hinn Íslendinginn á hæðinni í lyftunni í vikunni. Það var alveg við það að fara að verða pínlegt að hafa ekki að minnsta kosti heilsað upp á hana til að bjóða hana velkomna á ganginn, en það hefur hér með verið gert.

Í framhaldi af þessum hittingi renndi ég í gær yfir póstkassana í anddyrinu og mér sýnist að á 3. hæð samkvæmt dönskum skilgreiningum muni vera íslenskt par - þannig að það eru tölfræðilegar líkur á að ég eigi eftir að hitta fleiri íslenska nágranna í lyftunni (nema auðvitað ef þau nota hina lyftuna...).

Aftur af beðmálum

Geimsængin er enn í náðinni. Aðfaranótt miðvikudagsins svaf ég illa (eitthvað smástress að stríða mér) og vaknaði reglulega um nóttina. Held að undir gömlu sænginni hefði ég stundum vaknað kófsveittur, en það slapp til að þessu sinni.

Höfuðverkurinn núna er hvað ég geri við gömlu dúnsængina. Ég tími eiginlega ekki að henda henni, en held að hún sé orðin of lúin til að fara með hana til hjálpræðishersins.

Í morgun datt mér í hug að fremja á henni uppskurð og troða dún í nýkeyptu púðaverin mín, meðfram svamppúðunum sem eru aðeins of litlir í verin (eða þau of stór). Hef samt vissar áhyggjur af því að úr því gæti orðið dúnflóð hið mesta.

Af kasóléttu fyrrum eiginkonunni

Fyrrum eiginkona blinda hnífakastarans, Sigga Lára, telur ekki lengur niður að fæðingu heldur upp í dögum fram yfir.

Íslenskt áhugaleikarasamfélag bíður þess með öndina í hálsinum að færslufall verði einn daginn sem fyrirboði fæðingar nýjustu vonarstjörnunnar í íslensku leikhúslífi.

Þegar piparkökur bakast, grafíkgerðarmaður tekur...

Jason Santa Maria heitir hönnuður í útlandinu sem er voða flinkur að gera allskonar svona vef eitthvað...

Hann skrifar pistla aðra hverja viku í greinarflokknum Under The Loupe um grundvallaratriði grafískrar hönnunar. Áhugasamir um efnið geta gert margt verra en að lesa þá.

Það skal tekið fram að hann skrifar á máli skiljanlegu fyrir pöpulinn, ekki bara hina grafíknördana.

Er ekkert að gera í vinnunni?

Svo hlakka ég til þegar ég verð búinn með skólann og get farið að vinna hjá fyrirtæki þar sem er svo lítið að gera að menn geti leyft sér að búa til litla gamanmynd um vinnustaðinn.

Mæli með kvikmyndinni Copy Goes Here (11 mínútur).

Fannst gegnum áðurnefndan Santa Maria.

Röskir bankar

Eftir að hafa pantað millifærslu fjármuna milli landa til að bjarga dankortinu mínu frá hungurdauða ákvað ég til öryggis að nota íslenska debitkortið mitt til að ná mér í lausafé í hraðbanka. Það reyndist óþarfi því þegar ég kíkti á stöðuna á danska kortinu kom í ljós að millifærslan hafði skilað sér og það á innan við sólarhring.

Öðru vísi mér áður brá, en ég hef þó allavegana lagt mitt af mörkum til að viðhalda gengishallanum (heitir það það ekki annars?)

Af týndu sjónvarpi

Í næstu viku heldur sænska sjónvarpsstöðin 4 áfram að sýna aðra seríu af Lost eftir nokkuð hlé. Hér í .dk hefur þáttaröðin hins vegar verið flutt af opnu stöðinni d (þar sem ég horfði á fyrstu seríuna) yfir á lokuðu stöðina 5 (það er ekkert verið að bruðla með bókstafina í sjónvarpsstöðvanöfnum hér á meginlandinu). Það er því loku fyrir það skotið að ég geti fylgst með á þeim bæ ef ég missi úr hjá Svíunum.

Svíarnir á 4 eru hins vegar byrjaðir að sýna Commander in Chief með Geenu Davis sem forseta Amríku, ég hef núna séð tvisvar tvo þætti og það má hafa gaman af þessu. Svolítið svart-hvítari framvinda en í The West Wing, en ekki þannig að það saki stórlega greindarvísitölu áhorfenda.

En nú þegar próftíð lýkur er hins vegar enginn tími lengur fyrir sjónvarpsgláp, nú skal tekið til við að vinna á verkefnastaflanum.

Af týndum kommentum

Undanfarið hefur enginn séð ástæðu til að kommenta á neitt sem ég segi hér. Ég er hins vegar ekki svo sjálfhverfur að ég taki neitt eftir því.


< Fyrri færsla:
Umbótaverkefni nýhafins árs
Næsta færsla: >
Atvinnulíf lamast og síðasta prófinu mínu frestað
 


Athugasemdir (2)

1.

Júlía reit 20. janúar 2006:

hér er komment

2.

Þórarinn sjálfur reit 20. janúar 2006:

Ó, takk.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry