Atvinnulíf lamast og síðasta prófinu mínu frestað
20. janúar 2006 | 0 aths.
Í gær fór sem sé að snjóa hér í danaveldi. Veðurfréttamenn sjónvarpsstöðvanna höfðu miklar áhyggjur af því hvernig ísslagsbeltið færðist yfir landið. Isslag er það sem á ástkæra ylhýra myndi kallast frostregn (nú eða bara ísing).
Hið klassíska Litlukaffistofuskot var því tekið á Litlubeltisbrúnni þar sem áhyggjufulli fréttamaðurinn lýsti raunum ökumanna við að kljást við veðrið.
Mér vitanlega kom þessi ísing ekki hingað yfir til Køben, en verð að játa að þegar þetta er skrifað nokkru eftir hádegi hef ég ekki enn farið út fyrir hússins dyr.
Hitt veit ég að heima á Egilsstöðum er ísgljá yfir öllu og þykk fönn þar ofan á. Mannskaðafærð.
Hægt er að lesa frásagnir af raunum bauna á vef Danmarks Radíó og ég hef fyrir því áreiðanlegar heimildir að íbúar á Nørrebrú hafi fengið frí frá vinnu sinni í miðborginni vegna veðurs.
Hið frestaða próf
Ég veit ekki alveg hvaða andskoti er hlaupinn í streitumekanisma mína, en síðustu nótt lá ég andvaka fram undir morgun án þess þó að vera merkjanlega stressaður, né yfirhöfuð að hafa nokkuð til að stressast yfir.
Prófið átti að byrja klukkan 10 og ég var með öll gögn tiltæk, þannig að ég hafði planlagt að vakna hálf-níu og taka rólegan morgun.
Þegar ég skreið upp í rúm um miðnættið átti ég svo sem von á því að verða kannski smástund að sofna, en ekki því að liggja andvaka mestalla nóttina dauðþreyttur en án þess að ná yfir þröskuldinn í draumaheima.
Einhver nágranni minn sýndi af sér það merkilega atferli að raula nokkur sönglög um nóttina, ekki eins og hún væri að syngja með tónlist heldur hljómaði það sem barst mér til eyrna frekar eins og barnalög - ég veit ekki hvað "Allt sem er grænt, grænt, finnst mér vera fallegt, fyrir vin minn..." -lagið heitir á dönsku, en er ekki frá því að það hafi verið á prógramminu. Klikk þessir baunar.
Ég gat ekki fundið að ég væri merkjanlega stressaður yfir prófinu (enda er það hálfgert formsatriði) en það var ekki laust við að eftir því sem mögulegum svefntímum fækkaði yrði ég pirraður og hlakkaði ekki sérlega til að mæta ósofinn í próf.
Ég vissi þó sem væri að ég gæti alltaf hresst mig nægjanlega við með góðum morgunverði, sturtu og kók í æð, en samt...
Einhverntíman milli fjögur og fimm sofnaði ég loxins. Mig dreymdi auðvitað að ég væri mættur í annað próf sem ég þyrfti líka að taka - próf sem ég var algerlega óundirbúinn fyrir, miklar leitir mínar að kóki til kaupa og það að vera á ýmsum stöðum ýmist of snemma eða of seint á ferðinni.
Þegar gemsinn tók svo að pípa um hálfníu ákvað ég að leyfa sjálfum mér að snúsa fram til níu - ég hlyti fjandakornið að geta tjakkað mig í gang á klukkutíma.
Í síðasta snúslúrnum rétt fyrir níu hringdi svo síminn í höndunum á mér. Ég var örlitla stund að átta mig á því að þetta væri ekki draumur, ræskti mig og svaraði.
God dag, dette er M. på ITU's eksamenskontor. Her hos mig er din projektunderviser Peter Looms og din censor, X...
(Hér var frekar óþægilegt sekúndubrot þar sem ég hugsaði "það getur ekki verið að ég sé orðinn of seinn í próf og skrifstofan sé að hringja í mig til að reyna að vekja mig".)
... har meldt sig syg. Så vi er nødt til at udskyde din eksamen.
Mér var þess í stað boðið að mæta í próf eftir viku, þegar leiðbeinandinn minn og þessi sami prófdómari eru með annað próf. Það samþykkti ég að sjálfsögðu, móttók kveðju frá Peter og lagði á.
Það lá auðvitað beinast við að velta sér á hina hliðina og rifja upp síðasta snúsdraum. Hins vegar hafði samtalið vakið mig að mestu þannig að það tók mig nokkrar mínútur að sofna aftur, en þá svaf ég líka til hádegis.
Hurð nærri hælum
Það var svo ekki fyrr en núna eftir hádegið sem ég áttaði mig á því hvað ég var í raun heppinn. Peter er eini kennarinn minn sem er með gemsanúmerið mitt (skólinn held ég ekki að eigi það neinsstaðar á skrá), þannig að í öllum öðrum prófum hefði ég druslast af stað dragúldinn til þess eins að komast að því að prófið hefði fallið niður og ég þyrfti að tala við prófskrifstofuna um að finna nýjan tíma.
Þegar ég kveikti á tölvunni minni biðu mín nokkrir póstar frá Peter, meðal annars póstur þar sem hann nefnir að ég þurfi endilega að græja PDF útgáfu af verkefninu til dreifingar eftir prófið og býðst til þess að lesa yfir og fínpússa málfarið (hann er enskur) ef ég sendi honum það sem Word skjal. Hann sendi mér líka cc af pósti til nemanda sem er að skrifa mastersverkefni við Kaupmannahafnarháskóla og bendir honum á að falast eftir verkefninu mínu að afstöðnu prófi.
Ég hlýt því að líta svo á að verkefnið sé varla það slæmt að hann sé að huxa um að fella mig.
Gjarnan hefði ég nú viljað vera búinn að þessu öllu saman núna, en vonandi verð ég betur upplagður eftir viku en ég hefði verið í morgun - auk þess sem ég hef möguleikann á að bæta einhverju við fyrirlesturinn ef mér dettur eitthvað bráðsnjallt í hug. (Ekki svo að skilja að ég eigi sérstaklega von á því.)
En nú ætla ég að leggja allar prófvangaveltur á hilluna og taka komandi viku í að koma öðrum fyrirliggjandi verkefnum í eitthvert skikk.
Allra fyrst ætla ég þó að gera úttekt á snjóalögum í miðbænum, held mér veiti ekkert af að fá mér hressingargöngu og fylla lungun ferskri stórborgarangan.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry